Plöturýni: Aphex Twin – Syro

Síðast liðin tvö ár hafa verið ár hinna stóru kombakka; Daft Punk, David Bowie, Boards of Canada, Mazzy Star, The Knife og My Bloody Valentine hafa gefið út plötur eftir margra ára eða jafnvel áratuga þögn. Það liggur því beint við að meistari hinnar svonefndu gáfumannaraftónlistar(IDM), Richard D. James eða Aphex Twin, bætist í þennan fríða flokk með sinni fyrstu alvöru breiðskífu síðan Drukqs kom út árið 2001. Hann var gríðarlega afkastamikill á 10. áratugnum og jafnfær á undurfallegar melódíur og tryllingslegar taktpælingar og óhljóðalist.

 

Á Syro er það melódíska hlið Aphex Twin sem skín í gegn þrátt fyrir að fagurfræði plötunnar myndi seint teljast hefðbundin. Í upphafslaginu minipops 67, sem var jafnframt fyrsta smáskífan, má heyra níðþungan og margbrotinn takt í bland við draugalegar raddir, bjagaða píanóhljóma og ægifögur synþahljóð í súpu sem gæti ekki hafa verið framreidd af neinum öðrum en séní-inu sjálfu. Það er eins og Alberto Balsam, Windowlicker og Iz-Uz í hárréttum hlutföllum.

Aphex hristir fram úr erminni ofgnótt af melódíum á plötunni; laglínur og stef sem ómerkilegri listamenn hefðu byggt heilu lögin á, treður hann fimm eða sex fyrir í einu og sama laginu. Oft eru undir-, mið- og yfirmelódíur í gangi á sama tíma. Bassa-, milli- og hátíðnirnar dansa hringi í kringum hvor aðra og nótur og taktslög skoppa hvert af öðru. Tempóin á plötunni ná alveg frá hægu hip hop-i yfir í æsilegt drum ‘n’ bass og það eru alltaf flöktandi varíasjónir í taktinum og óvænt slög, nokkurs konar spunakennd djazz-nálgun á trommuforritun.

 

produk 29 [101] er hægfljótandi ambíent hip hop sem minnir talsvert á skosku lærisvæna hans í Boards of Canada nema bara flóknara og kaflaskiptara. Um miðbik plötunnar í CIRCLONT6A eykur hann svo tempóið upp í ríflega 140 slög á mínútu í lagi sem tekst að vera melankólískt og gáskafullt á sama tíma en fyrst og fremst á stöðugri hreyfingu. Það svo yfirfullt af laglínum, taktbreytingum og hljóðum að ég þurfti að hlusta á það strax aftur til reyna að inntaka herlegheitin. Í því má meðal annars heyra bjagaðar satanískar raddir og synþasánd sem hljómar eins og ég myndi ímynda mér vélmenni að prumpa.

Í titillaginu er svo sóðalega fönkí synþi sem hljómar eins og bassalína úr Rick James lagi síuð í gegnum óteljandi vélar úr hljóðveri Aphex. s950tx16wasr10 er feikihratt drum’n’bass stykki þar sem hann grípur traustataki gamla góða Amen-bítið og teygir það og beygir í allar mögulegar áttir. Hann róar hlustendur svo niður í síðasta laginu sem er lágstemmt nýklassískt verk í anda Philip Glass, gullfallegt mínímalískt píanómótíf við undirleik fuglasöngs.

 

Það er einhver léttleikandi galsi og gredda sem svífur yfir vötnum skífunnar, maður fær á tilfinninguna að Aphex njóti þess fram í fingurgómana að snúa aftur úr þessari sjálfskipuðu útlegð sinni. Yfir plötunni gnæfir andlit Richard D. James, glottandi út að eyrum eins og prakkarinn sem hann er, segjandi með svipnum: „Hana, ég á lager af þessu stöffi, verið bara ánægð með það sem ég hendi í ykkur“.

Tónlistin á plötunni hefði ekki getað komið frá neinum öðrum en Aphex Twin og er í þeim skilningi engin róttæk stílbreyting frá hans fyrra efni heldur meira útpæld eiming á aðgengilegri hluta fyrri verka hans. En þegar stíllinn er það róttækur og einstakur að engum hefur tekist að herma eftir honum væri kannski það eina róttæka sem Richard D. James gæti gert í þessari stöðu að gera venjulega tónlist. Það vill enginn og ég bið Aphex Twin velkominn aftur. Það er gott að koma heim til pabba.

9/10

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *