Tólf góð atriði á Sónar

Sónar hátíðin hefst í Hörpu í dag og Straumur mun að sjálfsögðu verða á svæðinu næstu daga með daglegar fréttir af hátíðinni. Til þess að hita upp höfum við tekið saman lista yfir 12 atriði á hátíðinni sem við mælum sérstaklega með. Listinn er þó alls ekki tæmandi þar sem yfir 60 atriði eru á hátíðinni og mjög mikið af rjóma þannig að erfitt var að velja. En hér er listinn og gleðilegan Sónar!

Todd Terje

 

Terje-inn hefur verið í uppáhaldi hjá ritstjórn Straums um alllangt skeið, en hann átti eina allra bestu breiðskífu síðasta árs, It’s Album Time, sem var hans fyrsta plata í fullri lengd. Hann er jafnfær á ítalódiskó og evrópskt spæjarafönk og algjör meistari í hljóðgervlum.

 

SBTRKT

 

Breski pródúsantinn SBTRKT hefur getið sér geisigott orð fyrir dubstep-skotið rafpopp af bestu sort. Smellurinn Wildfire sem söngkonan Yukumi Nagato syngur tröllreið dansgólfum beggja vegna Atlantshafsins árið 2011.

 

Randomer

 

Bretinn Randomer sækir jöfnum höndum í tekknó-arfleið Detroit og Berlínar í dökkum og dúndrandi hljóðheimi sínum.

 

Tonik Ensemble

 

Raftónlistarmaðurinn Anton Kaldal sem leiðir Tonik Ensemble er einn allra fremsti pródúsant þjóðarinnar og í Tonik Ensemble fær hann til liðs við sig selló- og saxafónleikara ásamt söngvaranum Herði Má úr M-Band. Útkoman er tregafullt sálartekknó sem hittir beint í mark og miðar bæðið á mjaðmir og hjarta. Hans fyrsta breiðskífa, Snapshots, kom út í vikunni og er feikilega sterkur frumburður.

 

Jamie xx

 

Forsprakki mínímalísku indípoppsveitarinnar xx er með allra heitustu plötusnúðum Bretlands um þessar mundir.

 

Yung Lean

 

Þessi knái sænski rappari er einungis 19 ára gamall og textarnir hans eru uppfullir af tilvísunum í samtímapoppmenningu minecraft kynslóðarinnar.

 

Paul Kalkbrenner

 

Þýski tekknójálkurinn Paul Kalkbrenner átti að koma á síðustu Sónar hátíð en neyddist til að afboða koma sína vegna augnsýkingar. Það eru því margir sem bíða komu hans með mikilli eftirvæntingu í ár.

 

Kindness

 

Kindness er listamannsnafn hins breska Adam Bainbridge sem er þekktur fyrir að blanda saman poppi, sálartónlist, R&B og diskói í ómóstæðilegan bræðing.

 

M-Band

 

Hörður Már Bjarnason framleiðir vandaða dansmúsík undir áhrifum frá tónlistarmönnum eins og Jon Hopkins, Gus Gus og Caribou. Hann átti að mati Straums bestu íslensku plötu síðasta árs, Haust, og eitt af bestu lögunum líka, Never Ending Never.

 

Nina Kraviz

 

Hin rússneska plötusnælda Kraviz hefur á skömmum tíma skotist upp á stjörnuhiminn alþjóðlegu plötusnúðasenunnar. Frumleg blanda af tekknói og acid house hefur fleytt henni í helstu dansklúbba veraldar.

 

Ametsub

 

Japanskur tónlistarmaður sem skapar undurfalleg hljóðræn landslög úr ambíent og umhverfishljóðum.

 

Páll Ívan frá Eiðum

 

Tónskáldið, myndlistarmaðurinn, forritunarneminn og djókarinn Páll Ívan frá Eiðum var einn óvæntasti nýliðinn í raftónlistinni á árinu. Með laginu Expanding og glæsilegu myndbandi stimplaði hann sig rækilega inn, meðan lög eins og Lommi farðu heim og Atvinnuleysi fyrir alla eru þrusugóð þó þau séu gerð með glott á brá.

 

A & E Sounds safna fyrir útgáfu

Hljómsveitin A & E Sounds safnar nú fyrir útgáfu sinnar fyrstu breiðskífu á Karolina Fund. A & E Sounds er samstarfsverkefni Þórðar Grímssonar og Kolbeins Soffíusonar og hafa þeir síðastliðna mánuði verið að leggja lokahönd á skífuna.

Hugmyndin að henni kviknaði hjá Þórði vorið 2014 þegar hann stundaði nám við Weissensee listaháskólann í Berlín og samdi hann þar um 30 lög sem hann gaf út á Soundcloud.

 

Kolbeinn er nýútskrifaður úr hljóðtækni frá Stúdíó Sýrlandi og var umrædd plata lokaverkefni hans í því námi. 

Þórður útskrifast í vor úr grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og mun fyrir lokasýningu LHÍ hanna allt myndrænt útlit plötunnar sem verður í 500 prentuðum 180 gramma vínyl eintökum.

 

Meðal tónlistarmanna sem koma fram á plötunni eru organistinn Steinar Logi, kórinn Bartónar, trommarinn Orri Einarsson, píanóleikarinn Þóranna Dögg Björnsdóttir og söngkonan Jessica Meyer. Upptökurnar voru gerðar í Stúdíó Sýrlandi, Hallgrímskirkju og í hljóðveri þeirra Kolbeins og Þórðar á Skúlagötu. Söfnunin stendur til 6. apríl og geta þeir sem styrkja söfnunina pantað eintak af plötunni í forsölu.

 

Hér fyrir neðan má horfa á myndband við lagið Sunday Driver og kynningarstiklu fyrir plötuna.

 

Tónleikahelgin 29.-31. janúar

Fimmtudagur 29. janúar

 

‪Fertugasti Heiladans Möller Records verður fimmtudagskvöldið 29. janúar á Bravó. Fram koma listamennirnir Futuregrapher, Nuke Dukem og Bistro Boy en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa sent frá sér plötur nýlega. Í Nóvember sendi Futuregrapher frá sér plötuna Skynvera sem hlaut góðar viðtökur og var valin af Morgunblaðinu ein af plötum ársins. Nuke Dukem sendi frá sér plötuna Liberty í október á síðasta ári. Möller Records fagnar jafnframt 30. útgáfu sinni sem er platan Rivers and Poems, með Bistro Boy og japanska tónlistarmanninum Nobuto Suda. Dagskráin hefst 21:00 og aðgangur er fríkeypis.

 

Gyða Valtýsdóttir og Shahzad Ismaily halda tónleika í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir byrja 21:00.

 

Rapparinn Sesar A heldur tónleika og frumsýnir ný tónlistarmyndbönd á Gauknum. Sérstakir gestir verða Blazrocka, Herra Hnetusmjör og Anita Þórsdóttir. Dj Kocoon og Dj Moonshine þeyta skífum en gleðin byrjar 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Föstudagur 30. janúar

 

Tvær kynslóðir íslenskra síðpönkara koma saman á Dillon en hljómsveitirnar Börn og Q4U halda hljómleika. Þeir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Pólski trompetleikarinn Tomasz Dabrowski spilar á tónleikum í Mengi. Hann ferðast um heiminn þessa dagana og spilar 30 tónleika í 30 borgum í tilefni þrítugsafmælis síns en svo skemmtilega vill til að föstudagurinn er 30. janúar. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 31. janúar

 

Hljómsveitirnar Ceasetone og Lockerbie spila á tónleikum á Loft Hostel. Tónleikarnir hefjast 20:30 og aðgangur er ókeypis.

 

Pétur Ben ásamt úrvalsliði hljóðfæraleikara spilar í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir byrja klukkan 21:00.

 

Hljómsveitin Valdimar heldur útgáfutónleika fyrir plötuna Batnar Útsýnið í Gamla Bíói. Miðaverð er 3990 og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.

Oyama gefa lag í tilefni tónleika

Hin gítarsurgandi og draumkennda rokkhljómsveit Oyama mun halda tónleika ásamt Tilbury á Húrra, föstudagskvöldið 6. febrúar næstkomandi. Af því tilefni hafa Oyama-liðar ákveðið að gefa lagið Another Day frítt til niðurhals fram að tónleikunum, en hægt er að nálgast það hér. Oyama er nú að rísa úr dvala eftir annasama haustmánuði en þá gaf sveitin út sína fyrsta breiðskífu, Coolboy, sem lenti ofarlega á árslistum íslenskra miðla, auk þess sem lagið Siblings af henni var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Þá fór hljómsveitin einnig í tónleikaferðaleg um Japan. Hlustið á Another Day hér fyrir neðan og skoðið fb-síðu viðburðarins hér.

Dagskrá Sónar tilbúin

Í dag var full dagskrá Sónar hátíðarinnar kynnt en á henni koma meðal annars fram Todd Terje, Skrillex, TV On The Radio, SBTRKT og Jamie xx. Hátíðin fer fram í Hörpu 12. til 14. febrúar næstkomandi. Þetta er í þriðja skipti sem hátíðin er haldin á Íslandi en umfjöllun Straums um hátíð síðasta árs má finna hér og hægt er að nálgast miða hér.

Tónleikahelgin 16.-18. janúar

Föstudagur 16. Janúar

 

Fyrsta stundin verður haldin í Mengi. Það er fyrsta kvöldið í tónleikaröð sem Mengi mun bjóða upp á með reglulegu millibili yfir árið, þar sem stórir hópar hljóðfæraleikara leika saman. Í kvöld verður spilað á strengjahljóðfæri en meðal gesta kvöldsins verða Úlfur Hansson, Una Sveinbjarnardóttir, Gyða Valtýsdóttir, Arnljótur Sigurðsson, Borgar Magnason, Benedikt H Hermannsson, Ólöf Arnalds, Guðmundur Óskar, Katie Buckley, Richard Andersson, Skúli Sverrisson. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Hljómsveitirnar Mercy Buckets, Laser Life og Grit Teeth koma fram á tónleikum á Íslenska Rokkbarnum í Hafnafirði. Tónleikarnir hefjast stundvíslega 23:30 og það er ókeypis inn.

 

Hljómsveitin Var spilar á Dillon, þau hefja leik 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 17. Janúar

 

Vio, sigurvegarar Músíktilrauna 2014, gáfu út sína fyrstu plötu DIVE IN skömmu fyrir jól, og munu fagna útgáfu hennar með tónleikum á Húrra. Hljómsveitin Var, sem unnu Músíktilraunir árið 2013, hitar upp en tónleikarnir byrja 22:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

Mótorhead tribute-bandið Bömpers leikur á Gauknum. Fjörið hefst 22:00 og aðgangseyrir er 3000 krónur.

 

Hljómsveitirnar Wago og Munstur koma fram á Dillon. Tónleikar hefjast 22:00 og það er ókeypis inn.

Iggy Pop á All Tomorrow’s Parties

Nú rétt í þessu var tilkynnt að aldni æringinn og eilífðarpönkarinn Iggy Pop muni koma fram á All Tomorrow’s Parties hátíðinni í Sumar. Þá var einnig tilkynnt að sveitirnar Drive Like Jehu, The Bug, Ought, Kiasmos, HAM, Xylouris White, Clipping og Grimm Grimm komi fram. Þetta bætist við langan lista listamanna sem áður hefur verið kynntur þar sem hæst ber nöfn eins og Belle and Sebastian, Run The Jewels og Godspeed You! Black Emperor. Þetta er í þriðja skiptið sem All Tomorrows hátíðin fer fram á Íslandi en hún verður 2.-4. júlí á gamla varnarliðssvæðinu Ásbrú fyrir utan Keflavík. Hér er hægt að lesa umfjöllun Straums um síðustu hátíð.

Django Django snúa aftur

Skoska rafpoppbandið Django Django sendu frá sér nýtt lag í dag sem ber nafnið First Light, en það verður á breiðskífu sem er væntanleg í vor. Lagið er hið fyrsta til að heyrast frá sveitinni frá samnefndri breiðskífu þeirra sem kom út árið 2012 og var með betri plötum þess árs. Hlustið á First Light hér fyrir neðan:

Tónleikahelgin 19.-21. desember

Föstudagur 19. desember

 

Vetrarsólstöðudansleikur Ojba Rasta verður haldinn á Gauknum föstudagskvöldið 19.desember. Byrjar 23:30 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

 

Prins Póló og Dr. Gunni koma fram í Iðnó. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast 22:00.

 

Auðn og Skuggsjá koma fram á Dillon. Hefst 22:00 og ókeypis inn.

 

Laugardagur 20. desember

 

FM Belfast spila á Húrra. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur

 

Danstónlistarhópurinn Lazyblood kemur fram í Mengi. Aðgangseyrir er 2000 krónur og sýningin hefst 21:00.

 

Á Gauknum verða þungarokkstónleikar þar sem fram koma Ophidian I, Godchilla, MORÐ, DÖPUR, The Roulette og Seint.

Sunnudagur 21. desember

 

Högni Egils mun spila og syngja jólalög í Mengi. Aðgagngseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir byrja 21:00.

Andkristnihátíð verður haldin á Gauknum en fram koma Svartidauði, Carpe Noctem, Sinmara, Abominor, Misþyrming, Mannvirki, Naðra og Úrhrak. Hátíðin hefst klukkan 17:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.