Fimmtudagur 30. Apríl
Rokksveitirnar Oyama og Agent Fresco leiða saman hesta sína á Húrra. Tónleikarnir byrja klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.
DJ Flugvél og geimskip, Rattofer og Lommi koma fram á Dillon. Gleðin hefst 23:00 og það kostar litlar 500 krónur inn.
Júníus Meyvatn kemur fram ásamt hljómsveit á Kex Hostel. Það er frítt inn og herlegheitin hefjast 22:00.
Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson spila í Mengi. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.
Föstudagur 1. Maí
Það lítur allt út fyrir það að allir helstu tónlistarmenn taki sér stöðu við hlið verkamanna og verði í fríi 1. Maí.
Laugardagur 2. Maí
Straumur í samstarfi við Bíó Paradís verður með sérstaka sýningu á heimildamyndinni Kurt Cobain: Montage of Heck í Bíó Paradís klukkan 20:00. Eftir myndina mun svo hin hrynharða rokksveit Pink Street Boys leika fyrir gesti. Leikstjóri myndarinnar Brett Morgen blandar saman sjónlist og tónlist á persónulegan hátt ásamt áður óséðu myndefni, viðtölum við fjölskyldumeðlimi, vini og Courtney Love. Fylgst er með yngri árum Cobain í Aberdeen WA allt fram að frægðartímabilinu en myndin gefur frábæra innsýn inn í líf listamannsins og umhverfi hans. Það tók Morgen 8 ára að gera myndina og lét Love af hendi öll þau gögn sem Cobain skildi eftir sig. Þar á meðal nokkur hundruð hljómsnældur úr einkasafni tónlistarmannsins sem ekki hafði verið farið yfir frá því hann lést.
Raftónlistarmaðurinn Mono Lisa heldur útgáfutónleika á Loft Hostel. Ásamt honum koma fram Futuregrapher, Gunnar Jónsson Collider og Daveeth. Tónleikarnir byrja 21:00 og það er ókeypis inn.
Soffía Björg kemur fram á tónleikum í Mengi sem byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.