Tónlistarhátíðin All Tomorrow’s Parties hefst á morgun og í tilefni af því setti Straumur saman lista með þeim tíu erlendu atriðum sem við mælum sérstaklega með. Við hvetjum alla til að leggja land undir fót (í 40 mínútna rútuferð til Ásbrú) og njóta þess mikla tónlistarhlaðborðs sem boðið er upp á um helgina. Á straum.is næstu daga verður svo hægt að lesa umfjöllun um hátíðina.
Belle and Sebastian
Eitt stærsta indí band allra tíma hefur aldrei klikkað í tvo áratugi þó svo plöturnar séu vissulega misgóðar. Þeir hafa hins vegar sannað sig sem spikfeitt live-band og síðasta plata þeirra inniheldur fádæma funky partýslagara á borð við Party Line. Við sáum þá á Primavera hátíðinni fyrir örstuttu síðan og það kemur enginn svikinn af tónleikum með þeim.
The Field
Sænski raftónlistarmaðurinn The Field reiðir sig á naumhyggju og endurtekningu sem fer með hlustendur í ferðalag um leiðsluástand. Hljóðheimurinn er byggður úr sekúndubrots hljóðbútum sem er raðað saman af nákvæmni og hugvitssemi sem eiga fáa sína líka.
Run The Jewels
Run The Jewels er samstarfsverkefni El-P og Killer Mike sem hófst þegar að sá fyrrnefndi pródúseraði plötu fyrir þann síðarnefnda. Meðan á upptökum stóð hófur þeir samstarf í stúdíóinu og ákváðu svo að gefa afraksturinn ókeypis á netinu. Það vatt svo aldeilis upp á sig og var valin ein besta plata ársins sem þeir fylgdu síðan eftir með Run The Jewels 2 sem toppaði marga árslista um síðustu áramót.
The Bug
Paddan er listamannsnafn hins breska Kevin Martin sem gefur út hjá hinni fornfrægu Ninja Tune útgáfu. Hann blandar saman reggí-i við trip- og hip hop í ómótstæðilega grautarsúpu sem unun er á að hlíða.
Iggy Pop
Gamli ber að ofan pönkafinn er ennþá í fullu fjöri og ristjórnarmeðlimir straum.is geta borið vitni um að tónleikar hans í Listasafni Reykjavíkur fyrir örfáum árum stóðu fyllilega undir öllum væntingum.
Swans
Goðsagnakennda no wave hljómsveitin Swans er nú loksins að koma til landsins eftir að fellibylurinn Sandy kom í veg fyrir tónleika þeirra á Airwaves árið 2012. Plata þeirra Be Kind lenti ofarlega á mörgum árslistum yfir bestu plötur 2014 og tónleikar þeirra eru alræmdir fyrir allra handa tæting og trylling.
Lighnting Bolt
Óhljóðadúettinn Lighting Bolt er frægur fyrir óhefðbundna nálgun á tónleika þar sem þeir spila iðulega niðrá gólfi frekar en uppi á sviðinu. Trommari þeirra Brian Chippendale vann með Björk á plötunni Volta.
Public Enemy
Svarta fréttaveitan má kannski muna fífil sinn fegurri en Chuck D býr yfir meiri orku en Kárahnjúkavirkjun og Flavor Flav veit svo sannarlega ennþá hvað klukkan slær. Trúið hæpinu og berjið niður valdið.
Ice Age
Dönsku unglingarnir í Ice Age sóttu Ísland heim á Airwaves í hittí fyrra og trylltu viðstadda með óviðjafnanlegum hávaða og ungæðislegri sviðsframkomu.
Mudhoney
Mudhoney hafa starfað í þrjá áratugi og voru leiðandi afl í grugg-senunni frá Seattle borg í byrjun tíunda áratugarins.