Saga Dirty Projectors

      1. Útvarpspistill um Dirty Projectors

 

9. júlí gaf hljómsveitin Dirty Projectors út sína sjöttu plötu. Platan hefur nafnið  Swing Lo Magellan og hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Sveitin spilar efni af henni á Iceland Airwaves hátíðinni hér á landi í byrjun nóvember. Það er nokkuð ljóst að New York sveitin Dirty Projectors er með því allra áhugaverðasta sem í boði er þetta árið. David Byrne, söngvari Talking Heads, lét eitt sinn hafa eftir sér að hljómur Dirty Projectors væri í senn áberandi skrýtinn og furðulega kunnulegur.

Dirty Projectors hefur þróast á skömmum tíma úr því að vera skúffuverkefni eins manns yfir í eina af metnaðarfyllstu tilraunarokkhljómsveitum samtímans.  David Longstreth stofnaði hljómsveitina snemma árs 2003 . Hann hafði gefið út plötu árið áður undir eigin nafni.  Platan heitir The Graceful Fallen Mango og Longstreth hóf gerð hennar  þegar hann var á fyrsta ári við Yale háskólann, þar sem hann nam tónlist og aðrar listir. Plötuna tók hann upp á fjögurra rása upptökutæki í svefnherberginu heima hjá sér og á tölvu í kjallaranum heima hjá bróður sínum.

Fyrsta platan sem Longstreth gaf út undir nafni Dirty Projectors var The Glad Fact sem kom út árið 2003. Á þeirri plötu hófst hin mikla tilraunamennska sem einkennt hefur verk Longstreth allar götur síðan. Heimagerðan hljóm fyrstu plötu hans var einnig að finna á The Glad Fact þó að sú plata hefði verið unnin í upptökuveri. Á plötunni blandaði Longstreth saman ólíkum stefnum með nútímaáherslum.

Árið 2005 sendu Dirty Projectors frá sér plötuna The Getty Address sem lýst hefur verið sem óperu með raftónlistaráhrifum. Platan fjallar um tónlistarmanninn Don Henley, sem hóf feril sinn sem trommari og söngvari hljómsveitarinnar Eagles. Á plötunni syngur Longstreth ásamt kór við undirleik strengjasveitar.

Eftir að The Getty Address kom út fjölgaði í Dirty Projectors. Söngkonan  Amber Coffman hitti Dave Longstreth eftir tónleika með hljómsveit sinni Sleeping People árið 2006. Fljótlega eftir það fluttist hún til Brooklyn í New York og gekk í Dirty Projectors. Söngkonan Susanna Weiche bættist einnig í hópinn og með þessar tvær söngkonur innanborðs var helsta einkenni Dirty Projectors á síðustu árum komið fram – en það er hvernig hin sérstaka rödd Longstreth blandast á einstakan máta við öflugar og flóknar kvennmannsraddir. Weiche hætti þó fljótlega í sveitinni og við af henni tók Angel Deradoorian. Margir hafa verið í Dirty Projectors í gegnum tíðina og David Longstreth er í raun eini fasti meðlimurinn í bandinu, meðal fyrrum meðlima má m.a. nefna þá Ezra Keonig og Rostam Batmanglij úr hljómsveitinni Vampire Weekend.

Dirty Projectors sendi frá sér plötuna Rise Above 2007. Hún er endursköpun á plötunni Damaged með pönk-hljómsveitinni Black Flag frá 1981, sem hafði haft mikil áhrif á Longstreth í æsku. Longstreth skýrði frá því í viðtali að hann hefði í raun ekkert stuðst við lög og texta af þeirri plötu heldur reynt að endurgera hana eftir minni. Hann hafði ekki heyrt plötuna  í yfir 15 ár þegar hann hóf gerð hennar og er útkoman gjörólík fyrirmyndinni. Segja má að að Dirty Projectors hafi skapað eitthvað algjörlega nýtt með plötunni og hafa raddir Longstreth, Coffman og Weiche mikið að segja um það.

Í maímánuði 2009 kom hljómsveitin fram á tónleikum í New York ásamt Björk Guðmundsdóttur.Þar fluttu þau lög sem Longstreth samdi með fimm raddir í huga, auk kassagítars. Ári síðar kom svo út stuttskífan Mount Wittenberg Orca sem hljómsveitin gerði ásamt Björk. Þeirra fimmta og jafnframt vinsælasta plata, Bitte Orca, leit dagsins ljós sumarið 2009. Platan var lengi í vinnslu og þurfti hljómsveitin m.a. að hætta við tónleika sína á Iceland Airwaves haustið 2008 vegna þess. Longstreth skýrði frá því að með Bitte Orca hafi hann í fyrsta skipti samið Dirty Projectors plötu með alla hljómsveitina í huga og fengu söngkonurnar Amber Coffman og  Angel Deradoorian að njóta sín á plötunni, fengu hvor um sig eigið lag, auk þess sem þær prýddu umslag plötunnar.  Á Bitte Orca er talsvert um afrísk áhrif og má þá sérstaklega nefna gítarleik Longstreths í því sambandi. Platan var ofarlega á listum gagnrýnenda yfir bestu plötur ársins og því ekki skrýtið að margir hafi beðið spenntir eftir Swing Lo Magellan sem kom í plötubúðir 9. júlí.

Longstreth sá um allar upptökur á plötunni, sem stóðu yfir í heilt ár. Hann samdi yfir 40 lög fyrir hana þótt aðeins 12 þeirra hafi ratað á endanlega útgáfu hennar. Hljómsveitin sendi frá sér fyrstu smáskífuna Gun Has No Trigger 30. mars og  Dance For You fylgdi í kjölfarið um miðjan júní. Bæði lögin hafa fengið prýðilegar móttökur gagnrýnenda jafnt sem tónlistaráhugamanna og því við miklu að búast þegar að hljómsveitinn stígur á stokk á Iceland Airwaves í nóvember.

Óli Dóri

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *