Ariel Pink’s Haunted Graffiti & Emerson bræður

      1. Ariel Pink's Haunted Graffiti útvarpspistill

Eitt af fallegri lögum sem komið hafa út í sumar er lagið Baby í flutningi bandarísku hljómsveitarinnar Ariel Pink’s Haunted Graffiti. Lagið er ábreiða og kom fyrst út á plötu í flutningi bræðranna Donnie og Joe Emerson árið 1979.

Lagið verður á annarri plötu hljómsveitarinnar Ariel Pink’s Haunted Graffiti sem kemur út 20. ágúst. Hljómsveitina leiðir Ariel Marcus Rosenberg, 34 ára gamall Los Angelesbúi, sem ólst upp í Beverly Hills og gekk meðal annars í hinn fræga Beverly Hills High gagnfræðaskóla. Ariel hefur tekið upp tónlist frá árinu 1996 en ferill hans fór ekki á flug fyrr en skrifaður diskur með tónlist hans komst í hendur hljómsveitarinnar Animal Collective frá New York sumarið 2003. Hljómsveitarmenn höfðu þá nýlega stofnað sitt eigið útgáfufyrirtæki, Paw Tracks og vildu ólmir fá Ariel til liðs við útgáfuna. Hann samdi við hana og varð fyrsti tónlistamaðurinn sem það gerði. Stuttu seinna hóf útgáfan endurútgáfu á gömlum verkum Ariels Pinks og það jók hróður hans til muna. Flestar plötur hans eru heimatilbúnar og hafa ekki fengið mikla dreifingu enda hefur hann tekið upp gríðarlegt magn efnis sem fæstir aðdáenda hans hafa heyrt. Hann hefur verið þekktur fyrir hráan hljóm á plötum sínum og er undir miklum áhrifum frá popptónlist sjöunda áratugarins.

Þar til Ariel Pink stofnaði hljómsveitina Ariel Pink‘s Haunted Graffiti kom hann einn fram á tónleikum og hafði allan undirleik á bandi. Hann fékk oft bágt fyrir, var stundum púaður niður á tónleikum og fékk slæma dóma gagnrýnenda. Árið 2008 stofnaði hann Ariel Pink‘s Haunted Graffit, sem gaf út fyrstu plötu sína, Before today, árið 2010. Hljómur hennar var ekki eins hrár og fyrri verk Pinks og tónlistin heldur aðgengilegri auk þess sem gagnrýnisraddir um frammistöðu hans á tónleikum þögnuðu. Á Before today, líkt og á væntanlegri plötu þeirra, er að finna ábreiðu, lagið Bright Lit Blue Skies sem Rockin‘ Ramrods gáfu út árið 1966.

Ariel hefur látið hafa eftir sér að önnur plata sveitarinnar, sem fengið hefur nafnið Mature Theme, verði með svipuðu sniði og sú fyrri. Hljómur hennar verði jafnvel enn slípaðri en Before Today og fyrstu lögin sem sem heyrst hafa af henni gefa þetta sterklega til kynna.

Sveitin sendi lagið Baby frá sér í byrjun júní og Only in my dreams fylgdi í kjölfarið skömmu seinna. Baby kom upprunalega út á plötu Emerson bræðra – Dreamin‘ Wild árið 1979. Saga þeirra Donnies og Joes Emerson er áhugaverð. Þeir ólust upp á sveitabýli í Washington fylki í Bandaríkjunum og gerðu fátt annað en að vinna á býlinu og hlusta á útvarpið. Þeir drukku í sig áhrif frá bandarískri soul-tónlist og hófu fljótt að spila saman. Faðir þeirra hafði svo mikla trú á hæfileikum sona sinna að hann veðsetti býlið til þess að geta útbúið þar upptökuver fyrir þá.  Hann setti þeim þó eitt skilyrði sem var að þeir yrðu að semja sitt eigið efni. Platan náði aldrei neinum vinsældum og fjölskyldan missti stóran hluta af landareign sinni. Með árunum varð lagið Baby að einhverskonar týndri perlu meðal tónlistaráhugamanna og hefur Ariel Pink sagt að á öllum lagalistum sem hann hefur sett saman síðustu þrjú ár hafi lagið fengið að fljóta með því það sé stórkostlegt. Platan Dreamin‘ Wild var svo endurútgefin fyrir skömmu og ljóst er að Emerson bræður eru loksins að fá þann sess í tónlistarsögunni sem þeir eiga skilið og það er ekki síst Ariel Pink að þakka. Útgáfa Ariel Pink’s Haunted Graffiti á laginu fylgir upprunalegu útgáfunni mikið eftir og lagið gæti auðveldlega verið gamall smellur úr smiðju Motown tónlistarútgáfunnar þegar hún var á hátindi sínum um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.

 Óli Dóri 

Hér er saga Emerson bræðra:

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *