Ný, krefjandi MGMT plata í haust

Benjamin Goldwasser og Andrew VanWyngarden sem saman mynda hljómsveitina MGMT hafa nú loksins tilkynnt útgáfudag sinnar þriðju breiðskífu þann 17. september og verður sjálftitluð MGMT. Félagarnir hafa staðið í ströngu ásamt upptökustjóranum Dave Fridmann við að leggja lokahönd á plötuna sem átti upphaflega að koma út í þessum mánuði. Þeir lentu í deilum við útgáfufyrirtækið Columbia sem var ekki ánægt með þær viðtökur sem önnur breiðskífa þeirra Congratulations fékk árið 2010 og vildi heyra aðgengilegra efni á þriðju plötunni. Benjamin og Andrew virðast hafa óhlýðnast fyrirmælunum og hafa sagt að nýja platan innihaldi krefjandi tónlist sem ekki allir muni skilja við fyrstu hlustun.
MGMT (platan) mun hafa að geyma 10 lög þar á meðal ábreiðu af laginu „Introspection“ sem Faine Jade gaf út á sjöunda áratugnum. Fyrr á árinu slepptu MGMT frá sér laginu „Alien Days“ og mun það vera að finna á væntanlegri plötu auk „Mystery Disease“ sem þeir byrjuðu nýlega að flytja á tónleikum. Í kjölfarið kemur út aukaefni tengt plötunni undir heitinu „the Optimizer“ og mun innihalda myndbönd og „CGI“ sjónarspil.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *