Sónar fer vel af stað

Önnur útgáfa Reykjavíkurútibús Sónar hátíðarinnar hófst í gær og það er vonandi að hún festi sig í sessi sem árlegur viðburður.

 

Sax í Tonik

 

Það var gleðilegt að vel var mætt rétt upp úr 8 þegar fyrstu atriði kvöldsin voru að hefjast og það fyrsta á minni dagskrá var íslenski tónlistarmaðurinn Tonik. Hann spilaði frábært sett en með honum á sviðinu var Hörður úr M-Band sem söng og græjaðist auk selló- og saxafónleikara. Hljómurinn var dökkt og seyðandi tekknó og sálarfullur söngur Harðar var löðrandi í tilfinningu. Þrátt fyrir að hlaða raddbreytandi effektum á sönginn var mennskan undir niðri óyggjandi. Sellóið og saxafónninn voru síðan notuð á mjög óhefðbundinn hátt, oft ekki til að spila laglínur, heldur meira eins og hljóðgervlar sem byggðu ofan á hljóðheiminn. Allt í allt til mikillar fyrirmyndar og góður upptaktur að hátíðinni.

 

Minna er stundum of lítið

 

Ryuichi Sakamoto er stórmerkilegur tónlistarmaður en hann var meðlimur í japönsku sveitinni Yellow Magic Orchestra sem voru frumkvöðlar í raftónlist seint á 8. áratugnum og eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Þá hefur hann unnið mikið við kvikmyndatónlist og fékk meðal annars óskarsverðlaun í þeim flokki fyrir stórmyndina The Last Emperor. Það sem hann bauð upp á í Silfurbergi ásamt samstarfsmanni sínum Taylor Deupree var hins vegar einhvers konar öfgafull naumhyggja. Einni píanónótu haldið í hálfa mínútu í bland við rafhljóð sem voru svo fíngerð að þau voru nánast ógreinanleg.

 

Ég skil hugmyndina á bak við mínímalisma og get alveg notið hans en þetta var fullmikið af því góða, eins og æfing í engu, eða pínku ponsu meira heldur en þögn. Það lágstemmt að þú heyrðir nánast í fólki anda, svo ekki sé talað um stöðuga bassatrommuna sem drundi í gegnum gólfið frá neðri hæðinni. Þegar ákveðnum punkti er náð hættir minna að verða meira og heldur bara áfram að minnka. Risastór salurinn vann reyndar ekki með þeim og þetta hefði án efa virkað betur í Kaldalóni, en var í það minnsta full daufur kaffibolli fyrir minn smekk.

 

Hús og Högni

 

Eftir Sakamoto þurfti ég nauðsynlega að koma hreyfingu á blóðrásina og fékk hana í nokkrum lögum með Introbeats á Flóasvæðinu. Intro hefur um árabil verið einn fremsti hip hop taktsmiður landsins en er í seinni tíð farinn að færa sig yfir í hústónlistina. Hann var í feikna stuði og pumpaði út bassatrommu á hverju slagi í bland við fönkí bassalínur og bjartar melódíur og loksins var fólk farið að dansa af einhverri alvöru.

 

Þvínæst fylgdist ég með Högna úr GusGus og Hjaltalín frumflytja einstaklingsverkefni sitt, sem hann nefnir HE. Þetta voru metnaðarfull tónverk og dramatíkin keyrð í botn með slatta af strengjum, kórum og framsæknum rafpælingum. Stundum var tónlistin eins og GusGus í helmingi hægara tempói og stundum fór hún út í tilraunakennda raftakta í anda Autechre og Aphex Twin.
Tónlistin var fyrir utan söng Högna mestmegnis spiluð af bandi en magnaðar myndskreytingar bættu það upp. Það var skærum ljósgeisla beint á Högna og myndum af eldgosum, sólmyrkvum og afrískum sléttum var varpað á vegginn og sjónræna hliðin öll hin mikilfenglegasta. Í lokalaginu fékk hann svo heilan karlakór til að syngja með sér en það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni í framtíðinni.

 

Klippt og skorið

 

Það var röð inn í Kaldalón en ég náði þó lokasprettinum með Good Moon Deer þar sem forsprakki hennar, Guðmundur Ingi Úlfarsson, klippti, límdi, bjagaði og beygði hljóðbúta af öllum stærðum og gerðum við villtan trommuleik Ívars Péturs. Það kom flott grafík úr skjávarpanum og lagið Again and Again var sérstaklega tilkomumikið, ég hefði viljað ná meira af þeim.

 

Þvínæst sá ég Danann Eloq í Silfurbergi sem var andstæðan við Sakamoto, skrúfaði allt í botn og engar fínhreyfingar í blæbrigðum eða framsetningu. Hann blastaði maximalískt dub step með hip hop áhrifum, og hljóðkerfið í Silfurbergi er svo gott að stundum var eins og bassinn ætti í samræðum við innyflin í þér. Þetta var alveg skemmtilegt en samt ekki sérlega merkileg tónlist, og þónokkur ostakeimur af henni.

 

Upplifun og Elegans

 

GusGus lokuðu svo kvöldinu með skynfæraupplifun á heimsmælikvarða eins og þeirra er von og vísa. Þeir léku mikið af nýju efni sem hljómaði mjög vel og ég er orðinn ansi spenntur fyrir plötunni sem er væntanleg. Högni og Daníel Ágúst sveimuðu elegant um sviðið og samsöngurinn í Crossfade, sem hlýtur að verða smáskífan af plötunni, var ægifagur og tær meðan Silfurbergið nötraði undan taktfastri bassatrommunni og dunandi dansi.

Heilt yfir var fyrsta kvöld Sónar vel heppnað og í kvöld hlakka ég til að sjá gúmmúlaði eins og Bonobo og Jon Hopkins. Fylgist með á straum.is næstu daga því við munum halda áfram með daglegar fréttir af Sónar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Straumur fer í Sónar – Seinni hluti

Ég datt inn í nokkuð tóma Hörpu um sjöleitið til þess að sjá Samaris og það var ljóst að ýmsir voru eftir sig eftir föstudagskvöldið. Nokkur töf varð á tónleikunum en ég náði fyrstu tveimur lögunum sem voru hreint afbragð, dökkt döbstep, og klarinettleikur og söngur stelpnanna til mikillar fyrirmyndar. Þvínæst lá leiðin í Norðurljósasalinn til að sjá goðsögnina Ryuichi Sakamoto sem lék á píanó og Alva Noto sem sá um rafleik. Þetta var lágstemmd og mínímalísk nýklassík með sérlega smekklegum myndböndum varpað á skjá, gott og rólegt veganesti fyrir æsinginn sem var væntanlegur seinna um kvöldið.

Táldregin tilraunadýr

James Blake var líklega stærsta númer helgarinnar og Silfurbergsalurinn var fljótur að fyllast þegar upphaf tónleika hans nálgaðist. Hann kom fram ásamt tveimur meðreiðarsveinum sem spiluðu á trommur, gítar og raftól en sjálfur sá hann um söng og hljóðgervlaleik. Blake er ákaflega smáfríður og strákslegur og kurteis sviðsframkoman bræddi eflaust tugi hjarta á svæðinu. Hann baðst afsökunar á því að nota áhorfendur sem tilraunadýr fyrir ný lög en það var algjör óþarfi því flest hljómuðu þau vel, sum byrjuðu rólega en umbreyttust síðan í kröftuga danssmelli. Hann flutti samt einnig sína helstu slagara og kliður fór um salinn þegar upphafstónarnir úr Limit to your Love og Wilhelm Scream tóku að hljóma. Hann endaði tónleikana á Retrograde, fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu, sem hafði komið út einungis viku áður og salurinn starði agndofa.

Lyftingar og LED-hjálmar

Þvínæst spiluðu Gluteus Maximus, dúett Stephans Stephanssonar og Dj Margeirs, sem hljómar dálítið eins og dekkra hliðarsjálf Gus Gus. Þeir komu þó ekki fram einir heldur höfðu heilt tvíkynja kraftlyftingarlið með sér á sviðinu sem lyftu lóðum í takt við munúðarfulla tónlistina. Næst á dagskrá í Silfurbergi var goðsögnin Tom Jenkinson, Squarpusher, sem var einn helsti fánaberi Warp útgáfunnar á 10. áratugnum. Það var nokkuð langt síðan ég hafði hlustað á meistarann sem tók aðallega efni af sinni nýjustu plötu, en það kom ekki að sök, ég var dáleiddur frá fyrsta takti. Hann var á bakvið græjupúlt með LED skjá framan á, risastór skjár var á bak við hann og á höfðinu bar hann hjálm í ætt við Daft Punk sem einnig hafði LED skjá framan á sér sem náði niður fyrir augu. Hvernig hann sá út um þetta apparat veit ég ekki en hitt var ljóst, það sem áhofendur sáu var show á heimsmælikvarða.

Reif í heilann

Það er erfitt að lýsa tónlistinni en hún hefur verið flokkuð í geira sem er kallaður Intellegent Dance Music (gæti útleggst heiladans á íslensku). Þessi nafngift hefur farið í taugarnar á mér, hún hljómar hrokafull og tilgerðarleg en þarna skyldi ég loks hvað átt er við. Tónlistin var oft of flókin fyrir líkamann til að dansa við en í framheilanum voru taugafrumur í trylltum dansi. Jenkinson er ryðmískur meistari og á það til að brjóta hvern takt niður í frumeindir sínar og endurraða síðan eins og legókubbum með frjálsri aðferð. Þetta var allt saman ótrúlega villt, galið og kaótískt en á sama tíma hárnákvæmt. Grafíkin á öllum þremur skjáum fylgdi síðan tónlistinni ótrúlega vel eftir og ég gapti opinmynntur í þann eina og hálfa klukkutíma sem hann spilaði. Eftir að hann var klappaður upp fór hann frá græjunum á borðinu og tók upp bassa við gríðarleg fagnaðarlæti áhorfenda. Síðasti hluti tónleikanna var spunakennd stigmagnandi sturlun sem ég vonaði að myndi aldrei enda. Eitt myndband segir líklega meira en þau tæplega 300 orð sem ég hef skrifað um herlegheitin og sem betur fer var einhver að nafni Páll Guðjónson sem festi hluta af þessu á filmu, þó það jafnist engan veginn á við að hafa verið viðstaddur.

Mugison á Mirstrument

Eftir að hafa náð andanum eftir Squarepusher hljóp ég yfir í Norðuljósasalinn og náði síðustu lögunum með Mugison sem kom fram ásamt bandi og spilaði á heimasmíðaðan hljóðgervil sem hann kallar Mirstrument. Hann endaði á þekktustu lögunum af Mugimama…, I Want You og Murr Murr sem var gaman að heyra en ég hafði þó vonast til að hann myndi taka eylítið róttækari snúning á lögum sínum en boðið var upp á. Eftir þetta fór ég niður í bílakjallarann og dansaði við Pechanga Boys inn í nóttina.

Hátíðin var í flestalla staði stórvel heppnuð og verður vonandi að árlegum viðburði í Reykjavík þar sem nánast ekkert annað er um að vera í tónlistarlífi borgarinnar á þessum tíma. Hápunkturinn fyrir mig var Squarepusher en Diamond Version á föstudagskvöldinu var ekki langt á eftir og voru uppgötvun helgarinnar.

Davíð Roach Gunnarsson

Spennandi tónar á Sónar – Fyrsti hluti

Sónar-tónlistarhátíðin fer í fram í fyrsta skipti á Íslandi um helgina og er mikill hvalreki fyrir áhugafólk um framsækna tónlist. Yfir 50 tónlistarmenn munu koma fram í Hörpunni á föstudag og laugardag og mun Straumur í dag og næstu daga vekja athygli á þeim listamönnum sem eru sérstaklega spennandi að okkar eigin huglæga en jafnframt óskeikula mati. Þá er vert að geta þess að enn eru til miðar á hátíðina en bætt var við auka miðum eftir að seldist upp í síðustu viku.

Squarepusher

Tónlistarmaðurinn Tom Jenkinsson sem kallar sig oftast Squarepusher hefur í hátt í tvo áratugi verið leiðandi á sviði tilraunakenndrar raftónlistar í heiminum. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og goðsagnarinnar Aphex Twin en þeir tveir voru helstu vonarstjörnur hinnar virtu Warp útgáfu um miðjan tíunda áratuginn. Hann vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu plötu, Feed me Weird Things, sem kom út 1996. Þar mátti finna framsækna raftónlist og flóknar taktpælingar með miklum djass- og fönkáhrifum þar sem bassaleikur Jenkinsson spilaði stóra rullu. Hann hefur síðar þróast í ýmsar áttir yfir ferilinn en hans síðasta plata fékk feiki góða dóma gagnrýnenda. Á tónleikum kemur hann iðulega fram með hátæknihjálm og leikur á bassa ásamt raftækjum og þá notast hann við risaskjái fyrir metnaðarfullar myndskreytingar.

Sísí Ey

Sísí Ey er samstarfsverkefni trúbatrixunnar Elínar Ey og tveggja systra hennar sem sjá um söng og pródúsantsins Oculusar sem framreiðir munúðarfulla og pumpandi húsgrunna fyrir þær til að byggja ofan á. Hópurinn hefur ekki gefið formlega út neitt efni en lög þeirra hafa þó ómað á mörgum fágaðri dansgólfum skemmtistaða Reykjavíkur undanfarin misseri. Alíslensk hústúnlist sem er allt í senn; dansvæn, grípandi og kynþokkafull.

Modeselektor

Modelselektor er dúett Berlínarbúanna Gernot Bronsert og Sebastian Szary sem hafa um árabil framleitt hágæða hávaða af öllu hljóðrófi raftónlistarinnar. Þeir virðast jafnvígir á tekknó, hip hop og gáfumannadanstónlist og hafa getið sér gott orð fyrir frábærar breiðskífur og hugvitssamlegar endurhljóðblandanir fyrir listamenn á borð við Thome Yorke, Björk og Roots Manuva. Þá hafa þeir starfað með landa sínum Apparat undir nafninu Moderat og komu fram á Iceland Airwaves hátíðinni 2010 og pumpuðu þakið af Listasafni Reykjavíkur.

LFO

LFO eru miklir tekknófrumkvöðlar og fyrstu vonarstjörnur Warp útgáfunnar. Breiðskífa þeirra Freaquencies vakti mikla athygli á þeim og komst inn á topp 20 listann í Bretlandi árið 1991. Mark Bell sem er nú eini liðsmaðurinn hefur einnig unnið mikið með Björk.

Alva Noto og Ryuichi Sakamoto

Samstarfverkefni hin þýska Noto og japanska Sakamoto er gífulega metnaðarfull blanda framsækinnar elektróníkur og nútímaklassíkur. Sakamoto var áður forsprakki hinnar goðsagnakenndu Yellow Magic Orchestra, sem var brautryðjandi í rafdrifinni tónlist á 8. áratugnum.