Tónleikahelgin 30. október til 2. nóvember

Fimmtudagur 30. Október

 

Hljómsveitin Kiasmos fagnar útgáfu sinnar fyrstu plötu með tónleikum á Húrra. Kiasmos er nýtt verkefni frá Ólafi Arnalds og Janusi Rasmussen (úr Bloodgroup) þar sem þeir blanda saman dansvænni elektrótónlist við nýklassíska strengi og píanó. Platan er samnefnd sveitinni sem mun stíga á stokk klukkan 22:30 en Ísar Logi mun þeyta skífum fyrir og eftir tónleikana sem ókeypis er inn á.

 

Hljómsveitin Ceasetone kemur fram á Dillon klukkan 22:00 og það er fríkeypis inn.

 

Föstudagur 31. Október

 

Finnski raftónlistarmaðurinn Jukka Hautamäki kemur fram á tónleikum í Mengi. Miðaverð er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast 21:00.

 

DV er að fara af stað með nýjan tónlistarvef og mun af því tilefni bjóða til opnunarhófs á Húrra. Amaba Dama og Ylja koma fram ásamt því að boðið verður upp á léttar veitingar. Hófið byrjar 17:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Útgáfan LadyBoy Records blæs til tónleika í tilefni af útgáfu skífunnar Old Stories með hljómsveitarinni russian.girls. Einnig koma fram Harry Knuckles, Nicolas Kunisz og OISIE og Sævar Markús mun sjá um plötusnúðun. Aðgangseyrir er 500 krónur og gleðin hefst á slaginu 22:00.

 

Tónlistarmaðurinn Arnljótur Sigurðsson sem er helst þekktur sem einn forsprakki reggísveitarinnar Ojba Rasta kemur fram á tónleikum í Mengi. Á tónleikunum mun hann að flytja nýtt efni þar sem hann leikur sér með púlsandi víðáttumikinn rafrænan hljóðheim auk afbrigða og útúrdúra. Hann hefur leik 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 1. Nóvember

 

Tónlistarmennirnir Sin Fang og Uni Stefson (Unnsteinn úr Retro Stefson) koma fram á tónleikum á Húrra. Aðgangseyrir er 1500 krónur og tónleikarnir byrja 22:00.

 

Strigaskór nr. 42 og different Turns stíga á stokk á Gauknum. Tónleikarnir hefjast um 23:00 og það er ókeypis inn.

 

Sunnudagur 2. Nóvember

 

Finnski raftónlistarmaðurinn Jukka Hautamäki kemur fram á tónleikum á Húrra ásamt Harry Knuckles. Ballið byrjar 21:00 og það er ókeypis inn.

Nýtt lag frá Belle and Sebastian

Skoska indíhljómsveitin Belle and Sebastian gaf frá sér nýtt lag í dag en það er hið fyrsta til að heyrast af breiðskífunni Girls In Peacetime Want To Dance sem kemur út 20. Janúar. Lagið heitir Party line og hljómurinn er í ætt við titillinn, lagið er dansvænt, með rafrænni áferð og léttfönkuðum ryðma. Belle and Sebastian gáfu síðast út plötuna Write About Love árið 2010 en sveitin er væntanleg á All Tomorrows Parties hátíðina í Ásbrú næsta sumar. Hlustið á Party line hér fyrir neðan.

Malneirophrenia leikur í Mengi

Hljómsveitin Malneirophrenia blæs til hljómleika í Mengi fimmtudagskvöldið 23. október. Malneirophrenia er kammerpönktríó skipað píanói, sellói og rafbassa. Sveitin hefur leikið með hléum í áratug, haldið nokkra kvikmyndatónleika, og gaf út frumburð sinn M árið 2011. Tónlistin er frjálsleg blanda af nýrri og gamalli klassík, kvikmyndatónlist, rokki, óhljóðum og melódramatík. Sveitin spilar nú í fyrsta sinn á heilum tónleikum síðan snemma árs 2012 og vinnur að nýju efni, ásamt endurhljóðblöndunar-verkefni í samstarfi við ólíka raftónlistarmenn.

 

Tónleikarnir í Mengi verða tvískiptir. Fyrst frumflytur sveitin nýtt efni ásamt því að leika brot úr verkum eftir Franz Schubert og David Shire. Að því loknuverður leikið efni af plötunni M undir völdum atriðum úr kvikmyndinni Voyage to the Planet of Prehistoric Women frá 1967.

 

Hverjum seldum tónleikamiða fylgir rafrænt niðurhal af fyrsta hluta endurhljóðblöndunar verkefnisins, M-Theory #1, með verkum frá raftónlistarmönnunum Futuregrapher, Lord Pusswhip og Buss 4 Trikk. Tónleikarnir hefjast kl 21.00 og aðgangur er 2.000 krónur. Hlustið á endurhljóðblöndun Lord Pusswhip af Malneirophrenia hér fyrir neðan.

 

Todd Terje og Skrillex á Sónar

Nú rétt í þessu var tilkynnt um fyrstu listamennina sem hafa verið bókaðir á næstu Sónar hátíð. Það eru norski geimdiskó-gúrúinn Todd Terje, EDM tryllirinn Skrillex og þýska tekknó-goðsögnin Paul Kalkbrenner, sem átti að spila á síðustu Sónar hátíð en forfallaðist. Næsta Sónar hátíð verður haldin Í Hörpu 12.-14. febrúar en hér má lesa umfjöllun Straums um síðustu hátíð.

Tónleikar helgarinnar 17.-19. október

Föstudagur 17. október

 

Reggístórsveitin Ojba Rasta slær upp tónleikum á Húrra og það er Lord Pusswhip sem sér um upphitun. Leikar hefjast klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Hljómsveitirnar Svartidauði, Sinmara og Misþyrming koma fram á dauðarokkstónleikum á Gauknum. Rokk byrjar að róla 22:00 og það kostar 1500 inn.

 

Hljómsveitin Blind Bargain leikur á Dillon. Hefst 22:00 og aðgangur ókeypis.

 

Laugardagur 18. október

 

Hljómsveitin Toneron spilar í Norræna húsinu klukkan 16:00. Toneron er tveggja manna hljómsveit sem býður uppá fjölbreytta raftónlist í bland við harðkjarna elektrónískt rokk með saxófónívafi. Aðangur er ókeypis.

 

Hilmar Jensson leikur ferskan spuna á rafmagnsgítar í Mengi. Hann býður upp á góð hljóð og óhljóð í mátulegum hlutföllum en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

 

Endless Dark, We Made God og Icarus halda magnaða tónleikaveislu á Gauknum. Miðaverð er 1.000 kr. og tónleikarnir byrja um 22:00.

 

Sunnudagur 19. október

 

Raftónlistarmaðurinn O|S|E| leikur drunu- og sveimtónlist á Húrra. Hann byrjar klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Myndband frá tUnE-yArDs

Tónlistarkonan Merryl Garbus sem gengur undir nafninu tUnE-yArDs gaf frá sér nýtt myndband í dag við lagið Real Thing. Það kemur af þriðju breiðskífu hennar, Nikki Nack, sem kom út fyrr á árinu og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Real Thing er eitt af sterkustu lögum plötunnar og myndbandið er mjög litríkt en þar eru gínur í helstu hlutverkum ásamt Garbus. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Tónleikahelgin 2.-5. Október

Fimmtudagur 2. október

 

Uni Stefson, betur þekktur sem Unnsteinn í Retro Stefson, kemur fram með sólóverkefni sitt í kvöld á Boston. Eftir rómaða fyrstu tónleika Unnsteins með nýrri hljómsveit á Kex fyrr í haust stígur hann aftur á stokk á Livekvöldi Funkþáttarins og tónleikarnir hafa einnig því hlutverki að gegna að kynna fyrstu útgáfu hans, EP1. Uni Stefson hefur leik klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.
Hip Hop Kvöld verður á Gauk á Stöng en fram koma MC Bjór og Bland, Valby bræður, Þriðja Hæðin og Alexander Jarl og Guðmundur ásamt Kilo. Einnig verður frumsýnt nýtt myndband á viðburðinum en dyrnar opna klukkan 20:00 og aðgangseyrir er enginn.

 

Hljómsveitirnar Kraðak, Qualia og CeaseTone spila á Dillon. Hefst 22:00 og ókeypis inn.

 

Föstudagur 3. Október

 

Diskóhnettirnir í Boogie Trouble og rapphundarnir í MC Bjór og Bland slá upp heljarinnar dansiballi á Húrra. Gestum er ráðlagt að koma með skó í betri kantinum og sokka til skiptanna en dansinn byrjar að duna 23:00 og fríkeypis er inn.

 

Prins Póló spilar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Tónleikarnir hefjast 21:00 en aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Gyða Valtýsdóttir og Shahzad Ismaily munu leika lög og verk eftir sjálfa sig og aðra í Mengi. Þau eru farandstónlistarlistarfólk sem leika um allar trissur landfræðilega séð sem og í víddum og breiddum tónlistarheima. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðganseyrir er 2000 krónur.

 

Þungmálmsveitin Alchemia fagnar útgáfu hljómplötunnar INSANITY með tónleikum á Gauknum. Húsið opnar 20:00 en tónleikarnir hefjast 22:30. Aðgangur er ókeypis en hægt verður að kaupa plötuna og annan varning á staðnum en þá er vissara að hafa reiðufé meðferðis.

 

Laugardagur 4. Október

 

Rapparinn Sage Francis kemur fram á tónleikum á Húrra en um upphitun sér Lord Pusswhip ásamt Vrong. Fimmta hljóðvers plata Sage, Copper Gone, kom út fyrr á árinu og hefur hún hlotið rokna góða dóma um heim allan en tónleikarnir eru fyrsta stopp Sage á tæplega 40 gigga Evróputúr. Tónleikarnir hefjast 22:00 og hægt er að kaupa miða á 2500 krónur á midi.is

 

Sunnudagur 5. október

Lord Pusswhip og Vrong koma fram á Húrra og hefja leik 21:00. Aðgangur er ókeypis.

Dillalude á Kex Hostel í kvöld

Hljómsveitin Dillalude kemur fram á Kex Hostel í kvöld en hún var stofnuð sem óður meðlimanna til pródúsantsins Jay Dee eða J. Dilla. J. Dilla er var einn virtasti hip hop pródúser sinnar kynslóðar frá því um miðjan tíundar áratuginn þangað til hann dó langt fyrir aldur fram árið 2006. Hann var frá Detroit og vakti fyrst athygli með hljómsveitinni Slum Village en vann takta fyrir listamenn á borð við Common, Madlip, Janet Jackson, Pharcyde, De La Soul, Busta Rhymes og A Tribe Called Quest. Hann gaf út hina frábæru instrumental plötu Donuts árið 2006 þremur dögum fyrir dauða sinn en frægðarsól hans hefur hækkað umtalsvert síðan.

Eftir andlát hans hafa taktar eftir hann til að mynda verið nýttir af röppurum eins og MF Doom, Kendrick Lamar og The Roots. Meðlimir Dillalude eru Ari Bragi Kárason, Benedikt Freyr Jónsson, Magnús Trygvason Elíassen og Steingrímur Teague. Þeir hafa komið víða við á tónlistarsviðinu og þekkir fólk þá úr sveitum á borð við Moses Hightower, Forgotten Lores, Tilbury og amiinu. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis. Hér fyrir neðan má svo sjá myndbandi af tónleikum Dillalude á Prikinu.

Myndband frá Chroemo

Kanadíski 80’s-legi diskófönkdúettinn Chromeo sendi í dag frá sér nýtt myndband við lagið Old 45’s. Lagið er af nýjustu plötu Chromeo, White Woman, sem kom út fyrr á árinu en í myndbandinu má sjá bregða fyrir systrunum úr hljómsveitinni Haim og Jon Heder, sem helst er þekktur fyrir hlutverk sitt sem Napoleon Dynamite. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Thom Yorke gefur út nýja plötu

Thom Yorke, leiðtogi indí-risans Radiohead, tilkynnti fyrir skömmu nýja sólóskífu sína sem hann gaf svo út samdægurs í gegnum bittorrent forritið. Þetta er önnur sólóskífa Yorke en sú fyrsta, Eraser, kom út árið 2006. Hægt er að hala niður laginu Brain In A Bottle og myndbandi fyrir það ókeypis hér eða kaupa plötuna fyrir litla sex dollara.