Airwaves Yfirheyrslan – Þorbjörg í Retro

Mynd: Oliver James L’eroe.

Í yfirheyrsluherberginu þennan föstudag situr Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir, hljómborðsleikari Retro Stefson. Hún hefur spilað á Airwaves síðan á barnsaldri og við þjörmuðum að henni og fengum hana til að segja okkur allt sem hún veit um hátíðina.

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?


Það var á Ariwaves 2006 og við spiluðum þá á Grand Rokk. Vorum svo lítil að það átti varla að hleypa okkur inn á staðinn þegar við mættum í sándtékk. Eftirminnilegast voru tónleikarnir sjálfir, var búin að vera mega spennt og hlakka til svo lengi. Ég man svo hvað ég var hissa þegar ég sá röðina fyrir utan þegar við vorum að fara að byrja. Stemmningin var rosa góð á tónleikunum og allt gekk vel. Svo er meira að segja til mega krúttlegt myndband af okkur frá þessum tónleikum, og viðtal þar sem allir eru rosa litlir og feimnir og sumir ekki einu sinni komnir í mútur. Tónleikarnir á Gauknum með Datarock og Whitest Boy Alive á eftir voru líka mjög eftirminnilegir og fáránlega góðir og skemmtilegir tónleikar. Whitest Boy Alive enduðu að mig minnir á Show Me Love með Robin S, sem var frekar gott!

 

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?
Þetta verður í áttunda skiptið núna í ár.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Vá, það eru svo margir. Datarock og Whitest boy alive eins og ég nefndi áðan. Svo voru líka Chromeo tónleikarnir á Gauknum 2007 klikkaðir. Trentemøller (sem ég elskaði ó svo mikið) árið 2008 í Listasafninu. Og Metronomy 2009 í Listasafninu.. Ég gæti haldið lengi áfram.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálf?


Þeir voru  á Nasa árið 2008 minnir mig. Við vorum nýbúin að gefa út fyrstu plötuna okkar og dálítið hype í gangi. Ég man bara hvað ég var glöð og stressuð í bland þegar ég sá hvað það var troðfullt á Nasa og geðveik stemmning. Tónleikarnir gengu svo fáránlega vel og allir mega glaðir.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?
Nasa. Punktur. Annars finnst mér Iðnó komast næst Nasa í útliti á salnum sjálfum og það myndast alltaf góð stemmning þar. Mér finnst það dáldið kósý og finnst að Iðnó ætti að vera notað meira undir tónleika og fleiri skemmtanir.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af?
Ég var heví fúl að hafa misst af Robyn og líka Moderat árið 2010. Við vorum að spila á einhverju menntaskólaballi á sama tíma og Moderat áttu að vera svo ég fór ekkert. Síðan hafði dagskránni seinkað þannig að ég hefði alveg náð að sjá hluta af tónleikunum. Frekar fúlt. Svo var ég líka mjög leið að hafa misst af Tune-Yards árið 2011.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?
Hmm bara ekki vera of stressaðir og reyna of mikið þó að það sé eitthvað mikilvægt fólk á hátíðinni og svoleiðis. Hafa frekar bara gaman og skemmtilegt að hafa tónleikana kannski pínku öðruvísi en venjulega.

 

Hverju ertu spenntust fyrir á hátíðinni í ár?
Er mjög spennt fyrir að sjá þrívíddarsjó-ið hjá Kraftwerk. Hef aldrei séð þá live heldur. Svo er ég líka spennt fyrir MØ, Jon Hopkins, Omar Souleyman og AlunaGeorge (sem ég næ reyndar ekki að sjá því við erum að spila á sama tíma).

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?


Rosalega mikla bara. Þetta vekur svo ótrúlega mikla athygli á landinu og því sem er að gerast hér í tónlistarlífinu. Svo er hátíðin líka bara mikilvæg fyrir okkur sjálf, íslenskt tónlistarfólk og -áhugamenn, einskonar árshátíðin okkar og eitthvað til að hlakka til.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?


Hmm ég er ekki alveg viss. Örugglega svona 7 eða 8 sinnum. Vorum eitt árið að spila þrisvar sinnum á official dagskránni og svipað oft off venue. Held þetta hafi verið 2008.

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin?


Ég held bara 2006. Þá var þetta allt svo nýtt og spennandi. Mig langaði svo að fara 2005 því bræður mínir voru að fara og fullt af skemmtilegum hljómsveitum eins og Architecture in Helsinki og Annie og fleiri. En ég var náttúrulega bara 15 ára og frekar fúl að fá ekki að fara. Þess vegna var ég svo þakklát og glöð að komast 2006. Var búin að kynna mér allt rosa vel og mætti snemma á alla tónleika, náði að sjá eiginlega allt sem mig langaði til. Búin að fá lánuð skilríki hjá vinkonu stóra bróður míns og leggja kennitöluna og stjörnumerki á minnið og svona.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?


Kraftwerk klárlega.

 

Listasafnið eða Harpa?


Mér finnst meiri Airwaves stemmning í Listasafninu og ég er búin að sækja marga frábæra tónleika þar á Airwaves, en Harpan er líka mjög næs þegar það er vont veður t.d. Myndast líka minni raðir og það eru rosa flott ljós og gott hljóð þar.

 

Með hvaða hljómsveit ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?


Við í Retro erum að spila í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudeginum kl. 23:20 og í Listasafninu á föstudeginum á miðnætti. Svo verðum við líka á off venue dagskránni, erum í Jör á fimmtudeginum kl. 17, á föstudeginum á Hotel Marina kl. 19:00 og svo í Bláa lóns partíinu á laugardeginum kl. 14:00.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *