Mynd: Alexander Matukhno
Á föstudagskvldinu lá leiðin fyrst í Listasafn Reykjavíkur að sjá pródúsantinn Mura Masa sem hefur gert það gott og unnið með listamönnum eins og rapparanum A$ap Rocky. Hann bauð upp á hresst nýpopp með mikið af trópikal stáltrommuhljóðum og léttum droppum. Helvíti gott partý en varð nokkuð einhæft og leiðigjarnt eftir nokkur lög. Við héldum næst yfir á bandaríska tónlistarmanninn Joe Tyler á Húrra. Hann hélt uppi góðum dampi með léttfönkuðu grúvum og frábæru gítarsándi.
Eftir það hlupum við upp í Gamla Bíó að sjá öldnu skosku indíhetjurnar í Arab Strap. Þeir spiluðu klassískt indrírokk af gamla skólanum við mikinn fögnuð áhorfenda í nokkur lög, en við fórum fljótlega til að sjá hina bresku Nilüfer Yanya á Hard Rock. Ég hafði ekki komið áður á Hard Rock og var nokkuð skeptískur á venue-ið en það var prýðisgott, hátt til lofts og frábært sánd.
Keðjureykjandi engill
Ég hafði hafði aldrei heyrt áður í Nilüfer Yanya en heyrt góða hluti úr mörgum áttum og hún stóð fyllilega undir því lofi. Tónlistin eins konar sálarmarínerað indípopp með snefil af djassi og hip hoppi. En þvílík rödd! Eins og engill sem hefur keðjureykt um aldabil, en hefur samt fullkomna stjórn á röddinni, maður heyrði bergmál af arfleið söngkvenna eins og Ninu Simone og Amy Winehouse. Lögin voru flott með óvæntum vinstri beygjum, kaflaskiptum og grípandi viðlögum. Hljómsveitin hennar var svo fáránlega þétt og fyrir utan hefðbundnu rokkhljóðfærin voru synþa- og saxafónleikarar sem gáfu lögunum extra krydd. Algjörlega frábærir tónleikar og þeir bestu á hátíðinni hingað til, þetta er það sem Airwaves gengur út á; að uppgötva eitthvað frábært sem maður hefur aldrei heyrt í áður.
Þvínæst héldum við á Húrra til að sjá Sykur sem eru fullkomið atriði til að fara á svið klukkan 1 eftir miðnætti á föstudagskvöldi. Dúndrandi rafpoppið hélt öllum salnum hoppandi og Agnes söngkona er með raddbönd aldarinnar. Þvínæst fóru rappararnir JóiPé og Króli á svið og lokuðu kvöldinu með ungæðislegum glæsibrag.
Óflokkanlegt rokk
Á laugardeginum reif ég mig á fætur og út úr húsi til að sjá Balagan á Off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís um eftirmiðdaginn. Það voru gítar, trommur og bassi, tveir Ísraelar og einn Íslendingur, sem spiluðu rokk sem erfitt er að flokka. Geypilega þéttir og áhrif frá pönki, krautrokki og indíi, þar sem allir meðlimir lögðu hönd á plóg í söngnum. Ég sá smávegis af Pink Street Boys sem misþyrmdu hljóðhimnum eins og þeim einum er lagið, en hélt svo á Krakk og Spagettí sem spiluðu sína eina tónleika hátíðarinnar Off-venue á Bar Ananas. Artýrappið þeirra rann ljúft niður með svellköldum einstökum og svo var haldið aftur í Bíó Paradís að sjá Indriða.
Indriði hefur haldið manninn í Berlín undanfarið og komið sér upp backing bandi þar, sem í voru meðlimir Balagan auk Heklu, helsta þeramínleikara Íslands. Hópurinn framreddi fjölbreytt indípopp með alls konar áhrifum og áhugaverðum útúrdúrum við góðar undirtektir áhorfenda í Bíó Paradís. Ég náði svo í skottið á trip/hip hop hljómsveitinni Cryptocrome á Hverfisbarnum. Ég hafði aldrei séð þau áður en þetta var eftirtektarverð frammistaða, taktarnir voru bæði fönkí og industrial og minntu mig nokkuð á framleiðslu El-P, og kemistrían milli kven- og karlarapparans var mjög dýnamísk.
Finnskt tekknó og hugvíkkandi draumapopp
Þá fór ég að sjá rökkurpoppbandið aYia sem komu fram hettuklædd á Húrra og buðu upp á drungaleg og hljóðheim með tilraunakenndum blæ. Breski rapparinn Daniel OG sem spilaði næst var mjög óspennandi og generic en ég vildi halda mig á Húrra því ég hafði heyrt mjög góða hluti um Finnann Tontario sem var næstur. Og hann var ósegjanlega frábær, það verður að segjast eins og er. Hann er ekki mikið eldri en tvítugur en bauð upp á tilraunakennt tekknó með biluðum uppbyggingum og taktsprengingum á heimsmælikvarða.
Ég var svo mjög spenntur fyrir hinni bresku Kelly Lee Owens sem á eina bestu plötu ársins og tók við keflinu á Húrra. Hún fór á algjörum kostum í hugvíkkandi draumapoppi sem tikkaði í öll réttu boxin. Algjörlega fenamónískt show og einir allra bestu tónleikar hátíðarinnar. Þá var það bara GusGus í Listasafninu og diskódansað út í nóttina. Frábærri Airwaves hátíð var lokið en hápunktarnir í ár voru sálarmaríneraða indípopp Nilüfer Yanya, hugvíkkandi poppdraumur Kelly Lee Owens og framsækna nýklassíska tekknóið hjá Tontario.
Davíð Roach Gunnarsson