Ariel Pink’s Haunted Graffiti & Emerson bræður

      1. Ariel Pink's Haunted Graffiti útvarpspistill

Eitt af fallegri lögum sem komið hafa út í sumar er lagið Baby í flutningi bandarísku hljómsveitarinnar Ariel Pink’s Haunted Graffiti. Lagið er ábreiða og kom fyrst út á plötu í flutningi bræðranna Donnie og Joe Emerson árið 1979.

Lagið verður á annarri plötu hljómsveitarinnar Ariel Pink’s Haunted Graffiti sem kemur út 20. ágúst. Hljómsveitina leiðir Ariel Marcus Rosenberg, 34 ára gamall Los Angelesbúi, sem ólst upp í Beverly Hills og gekk meðal annars í hinn fræga Beverly Hills High gagnfræðaskóla. Ariel hefur tekið upp tónlist frá árinu 1996 en ferill hans fór ekki á flug fyrr en skrifaður diskur með tónlist hans komst í hendur hljómsveitarinnar Animal Collective frá New York sumarið 2003. Hljómsveitarmenn höfðu þá nýlega stofnað sitt eigið útgáfufyrirtæki, Paw Tracks og vildu ólmir fá Ariel til liðs við útgáfuna. Hann samdi við hana og varð fyrsti tónlistamaðurinn sem það gerði. Stuttu seinna hóf útgáfan endurútgáfu á gömlum verkum Ariels Pinks og það jók hróður hans til muna. Flestar plötur hans eru heimatilbúnar og hafa ekki fengið mikla dreifingu enda hefur hann tekið upp gríðarlegt magn efnis sem fæstir aðdáenda hans hafa heyrt. Hann hefur verið þekktur fyrir hráan hljóm á plötum sínum og er undir miklum áhrifum frá popptónlist sjöunda áratugarins.

Þar til Ariel Pink stofnaði hljómsveitina Ariel Pink‘s Haunted Graffiti kom hann einn fram á tónleikum og hafði allan undirleik á bandi. Hann fékk oft bágt fyrir, var stundum púaður niður á tónleikum og fékk slæma dóma gagnrýnenda. Árið 2008 stofnaði hann Ariel Pink‘s Haunted Graffit, sem gaf út fyrstu plötu sína, Before today, árið 2010. Hljómur hennar var ekki eins hrár og fyrri verk Pinks og tónlistin heldur aðgengilegri auk þess sem gagnrýnisraddir um frammistöðu hans á tónleikum þögnuðu. Á Before today, líkt og á væntanlegri plötu þeirra, er að finna ábreiðu, lagið Bright Lit Blue Skies sem Rockin‘ Ramrods gáfu út árið 1966.

Ariel hefur látið hafa eftir sér að önnur plata sveitarinnar, sem fengið hefur nafnið Mature Theme, verði með svipuðu sniði og sú fyrri. Hljómur hennar verði jafnvel enn slípaðri en Before Today og fyrstu lögin sem sem heyrst hafa af henni gefa þetta sterklega til kynna.

Sveitin sendi lagið Baby frá sér í byrjun júní og Only in my dreams fylgdi í kjölfarið skömmu seinna. Baby kom upprunalega út á plötu Emerson bræðra – Dreamin‘ Wild árið 1979. Saga þeirra Donnies og Joes Emerson er áhugaverð. Þeir ólust upp á sveitabýli í Washington fylki í Bandaríkjunum og gerðu fátt annað en að vinna á býlinu og hlusta á útvarpið. Þeir drukku í sig áhrif frá bandarískri soul-tónlist og hófu fljótt að spila saman. Faðir þeirra hafði svo mikla trú á hæfileikum sona sinna að hann veðsetti býlið til þess að geta útbúið þar upptökuver fyrir þá.  Hann setti þeim þó eitt skilyrði sem var að þeir yrðu að semja sitt eigið efni. Platan náði aldrei neinum vinsældum og fjölskyldan missti stóran hluta af landareign sinni. Með árunum varð lagið Baby að einhverskonar týndri perlu meðal tónlistaráhugamanna og hefur Ariel Pink sagt að á öllum lagalistum sem hann hefur sett saman síðustu þrjú ár hafi lagið fengið að fljóta með því það sé stórkostlegt. Platan Dreamin‘ Wild var svo endurútgefin fyrir skömmu og ljóst er að Emerson bræður eru loksins að fá þann sess í tónlistarsögunni sem þeir eiga skilið og það er ekki síst Ariel Pink að þakka. Útgáfa Ariel Pink’s Haunted Graffiti á laginu fylgir upprunalegu útgáfunni mikið eftir og lagið gæti auðveldlega verið gamall smellur úr smiðju Motown tónlistarútgáfunnar þegar hún var á hátindi sínum um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.

 Óli Dóri 

Hér er saga Emerson bræðra:

 

Saga Dirty Projectors

      1. Útvarpspistill um Dirty Projectors

 

9. júlí gaf hljómsveitin Dirty Projectors út sína sjöttu plötu. Platan hefur nafnið  Swing Lo Magellan og hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Sveitin spilar efni af henni á Iceland Airwaves hátíðinni hér á landi í byrjun nóvember. Það er nokkuð ljóst að New York sveitin Dirty Projectors er með því allra áhugaverðasta sem í boði er þetta árið. David Byrne, söngvari Talking Heads, lét eitt sinn hafa eftir sér að hljómur Dirty Projectors væri í senn áberandi skrýtinn og furðulega kunnulegur.

Dirty Projectors hefur þróast á skömmum tíma úr því að vera skúffuverkefni eins manns yfir í eina af metnaðarfyllstu tilraunarokkhljómsveitum samtímans.  David Longstreth stofnaði hljómsveitina snemma árs 2003 . Hann hafði gefið út plötu árið áður undir eigin nafni.  Platan heitir The Graceful Fallen Mango og Longstreth hóf gerð hennar  þegar hann var á fyrsta ári við Yale háskólann, þar sem hann nam tónlist og aðrar listir. Plötuna tók hann upp á fjögurra rása upptökutæki í svefnherberginu heima hjá sér og á tölvu í kjallaranum heima hjá bróður sínum.

Fyrsta platan sem Longstreth gaf út undir nafni Dirty Projectors var The Glad Fact sem kom út árið 2003. Á þeirri plötu hófst hin mikla tilraunamennska sem einkennt hefur verk Longstreth allar götur síðan. Heimagerðan hljóm fyrstu plötu hans var einnig að finna á The Glad Fact þó að sú plata hefði verið unnin í upptökuveri. Á plötunni blandaði Longstreth saman ólíkum stefnum með nútímaáherslum.

Árið 2005 sendu Dirty Projectors frá sér plötuna The Getty Address sem lýst hefur verið sem óperu með raftónlistaráhrifum. Platan fjallar um tónlistarmanninn Don Henley, sem hóf feril sinn sem trommari og söngvari hljómsveitarinnar Eagles. Á plötunni syngur Longstreth ásamt kór við undirleik strengjasveitar.

Eftir að The Getty Address kom út fjölgaði í Dirty Projectors. Söngkonan  Amber Coffman hitti Dave Longstreth eftir tónleika með hljómsveit sinni Sleeping People árið 2006. Fljótlega eftir það fluttist hún til Brooklyn í New York og gekk í Dirty Projectors. Söngkonan Susanna Weiche bættist einnig í hópinn og með þessar tvær söngkonur innanborðs var helsta einkenni Dirty Projectors á síðustu árum komið fram – en það er hvernig hin sérstaka rödd Longstreth blandast á einstakan máta við öflugar og flóknar kvennmannsraddir. Weiche hætti þó fljótlega í sveitinni og við af henni tók Angel Deradoorian. Margir hafa verið í Dirty Projectors í gegnum tíðina og David Longstreth er í raun eini fasti meðlimurinn í bandinu, meðal fyrrum meðlima má m.a. nefna þá Ezra Keonig og Rostam Batmanglij úr hljómsveitinni Vampire Weekend.

Dirty Projectors sendi frá sér plötuna Rise Above 2007. Hún er endursköpun á plötunni Damaged með pönk-hljómsveitinni Black Flag frá 1981, sem hafði haft mikil áhrif á Longstreth í æsku. Longstreth skýrði frá því í viðtali að hann hefði í raun ekkert stuðst við lög og texta af þeirri plötu heldur reynt að endurgera hana eftir minni. Hann hafði ekki heyrt plötuna  í yfir 15 ár þegar hann hóf gerð hennar og er útkoman gjörólík fyrirmyndinni. Segja má að að Dirty Projectors hafi skapað eitthvað algjörlega nýtt með plötunni og hafa raddir Longstreth, Coffman og Weiche mikið að segja um það.

Í maímánuði 2009 kom hljómsveitin fram á tónleikum í New York ásamt Björk Guðmundsdóttur.Þar fluttu þau lög sem Longstreth samdi með fimm raddir í huga, auk kassagítars. Ári síðar kom svo út stuttskífan Mount Wittenberg Orca sem hljómsveitin gerði ásamt Björk. Þeirra fimmta og jafnframt vinsælasta plata, Bitte Orca, leit dagsins ljós sumarið 2009. Platan var lengi í vinnslu og þurfti hljómsveitin m.a. að hætta við tónleika sína á Iceland Airwaves haustið 2008 vegna þess. Longstreth skýrði frá því að með Bitte Orca hafi hann í fyrsta skipti samið Dirty Projectors plötu með alla hljómsveitina í huga og fengu söngkonurnar Amber Coffman og  Angel Deradoorian að njóta sín á plötunni, fengu hvor um sig eigið lag, auk þess sem þær prýddu umslag plötunnar.  Á Bitte Orca er talsvert um afrísk áhrif og má þá sérstaklega nefna gítarleik Longstreths í því sambandi. Platan var ofarlega á listum gagnrýnenda yfir bestu plötur ársins og því ekki skrýtið að margir hafi beðið spenntir eftir Swing Lo Magellan sem kom í plötubúðir 9. júlí.

Longstreth sá um allar upptökur á plötunni, sem stóðu yfir í heilt ár. Hann samdi yfir 40 lög fyrir hana þótt aðeins 12 þeirra hafi ratað á endanlega útgáfu hennar. Hljómsveitin sendi frá sér fyrstu smáskífuna Gun Has No Trigger 30. mars og  Dance For You fylgdi í kjölfarið um miðjan júní. Bæði lögin hafa fengið prýðilegar móttökur gagnrýnenda jafnt sem tónlistaráhugamanna og því við miklu að búast þegar að hljómsveitinn stígur á stokk á Iceland Airwaves í nóvember.

Óli Dóri

Com Truise gefur út safnplötu

Draum popparinn Seth Haley öðru nafni Com Truise gaf út safnplötuna In Decay síðasta þriðjudag. Á safnplötunni eru áður óútgefin lög sem komin eru til ára sinna. Lagið Open er að finna hér fyrir neðan.

      1. 01 Open
 
      2. 01 Open

Lokatónleikar LCD Soundsystem

Hér er hægt að hlusta á útvarpspistil:  

      1. lcd soundsystem lokatónleikar útvarpspistill

Hljómsveitir hætta daglega, en það eru ekki allar sveitir sem ná að hætta leik þá hæst hann stendur og á sínum eigin forsendum.Dans-pönk hljómsveitina LCD Soundsystem frá New York hafa margir talið eina af helstu hljómsveitum síðasta áratugar.

Hljómsveitin gaf út þrjár plötur sem allar fengu einróma lof gagnrýnenda. Um þessar mundir eru tíu ár frá því fyrsta lag sveitarinnar, Loosing my edge, var gefið út. Í texta lagsins telur James Murphy söngvari og lagahöfundur upp fjöldann allan af sögufrægum tónleikum og eftir hverja einustu upptalningu segir hann „I was there“ eða ég var þar.

2. apríl 2011. Hljómsveitin LCD Soundsystem lék á sínum allra síðustu tónleikum í Madison Square Garden í New York! Ég var þar!

Þegar tilkynnt var um endalok LCD Soundsystems fór hrollur um aðdáendur hljómsveitarinna. James Murphy vildi að hún hætti á hátindi ferils síns með hvelli, á tónleikum sem yrðu sögufrægir!

LCD Soundsystem, sem James Murphy stofnaði árið 2003 í New York , lauk ferli sínum með vel skipulögðum hætti á tónleikum fyrir tæplega 20.000 aðdáendur sína í apríl í fyrra.  Heimildarmyndin Shut up and play the hits, fjallar um þessa síðustu tónleika hljómsveitarinnar. Myndin verður sýnd í kvikmyndahúsum víðs vegar um Bandaríkin aðeins í dag. Kvikmyndahús í Evrópu fá myndina til sýningar síðar í sumar en engin merki eru um að hún verði sýnd hér á landi. Myndin hefur slegið rækilega í gegn á kvikmyndahátíðum á borð við Sundance, þar sem kvikmyndahús hafa hreinlega breyst í dansstaði meðan á sýningu stendur.

Leikstjórar Shut shut up and play the hits eru Bretarnir Will Lovelace og Dylan Southern. Þeir  eru þekktastir fyrir að hafa leikstýrt heimildarmyndinni No Distance Left To Run,  sem fjallar  um endurkomu bresku sveitarinnar Blur árið 2010. Þeir vildu ekki gera hefðbundna tónleikamynd og í stað þess að fá tökumenn sem væru vanir tónleikaupptökum við gerð hennar fengu þeir til liðs við sig ellefu kvikmyndagerðarmenn sem festu viðburðinn á filmu. Þetta var gert m.a. til að fá ferskt sjónarhorn á tónleikaupplifunina í myndinni. Kvikmyndagerðarmennirnir fengu nokkuð frjálsar hendur til verksins og voru hvattir til þess að kvikmynda það sem þeim þótti sjálfum áhugaverðast á tónleikunum, hvort sem það var á sviðinu eða úti í sal. Í hópi þeirra var leikstjórinn Spike Jonze, sem beindi myndatökuvélinni að ungu pari í ástaratlotum í gegnum heilt lag á tónleikunum.  Tónlistin leikur auðvitað stórt hlutverk í myndinni og hljóðblandaði Murphy hana sjálfur.

Áður en þessir lokatónleikar voru auglýstir hafði ég bókað ferð til Bandaríkjanna sem ég ákvað að lengja um viku til þess að geta kvatt þessa einstöku hljómsveit. Miðar á tónleikana seldust upp á nokkrum mínútum og strax var farið að selja þá á svörtum markaði á uppsprengdu verði. James Murphy brást við með því að halda ferna aukatónleika á öðrum stað í borginni vikuna áður. Það varð til þess að verðið lækkaði talsvert á svörtum markaði. Það fór því þannig að ég fékk miða á besta stað í Madison Square Garden og tækifæri til að kveðja sveit sem hefur fylgt mér í nærri áratug.  Tónleikarnir, sem stóðu í nærri fjórar klukkustundir, fóru þannig fram að hljómsveitin tók sér þrjár pásur milli þess sem hún spilaði sín helstu lög í þéttsetinni  höllinnni. Að beiðni James Murphy voru áhorfendur í svörtum eða hvítum klæðnaði, sjálfur var ég klæddur í hvíta skyrtu, svartar buxur og svartan jakka til heiðurs Murphy og sveitinni. Fyrir mig persónulega var þetta lokakvöld vel heppnaðrar mánaðardvalar í Bandaríkjunum og eftir tónleikana rölti ég sáttur út í nóttina í átt að hótelinu mínu, hinu sögufræga Chelsea Hóteli sem lokaði skömmu síðar.

Gagnrýnendur sem hafa fjallað um Shut up and play the hits, hafa margir sagt að ekki sé um hefðbundna tónleikamynd að ræða, heldur heimildarmynd um hluti sem taka enda, endalok hljómsveita, verkefna, jafnvel kynslóðar. Það voru ákveðin endalok  loftinu í New York þetta vorkvöld í apríl í fyrra. Síðasta kvöldið mitt í New York, síðasta nóttin sem ég gisti á Chelsea Hotel og síðustu tónleikar LCD Soundsystem, ég var þar…

Óli Dóri