Útidúr gefa út nýtt lag

Kammerpoppsveitin Útidúr gaf í dag út lagið „Þín augu mig dreymir“ sem er fyrsta smáskífan af nýrri breiðskífu sem er væntanleg í haust. Lagið er hádramatískur óður til indverskrar kvikmyndatónlistar sem kennd er við Bollywood. Það mætti segja að útgáfa þess á föstu formi sé langþráð, því lagið hefur verið mótað og þróað á tónleikum Útidúrs í yfir þrjú ár.

Hljómsveitin lagði einnig á stað í tónleikaferð um Þýskaland í dag þar sem þau munu spila á átta tónleikum á tíu dögum. Bókunarskrifstofan Prime Tours skipuleggur tónleikaferðalög Útidúrs en á mála hjá þeim eru meðal annars malíski dúettinn Amadou & Miriam sem komu fram á Listahátíð í Reykjavík 2010. Þetta mun verða fimmti túr sveitarinnar um Þýskaland en í sjöunda sinn sem bandið stekkur út fyrir landssteinanna. Ferðalagið samanstendur af fjórum skemmtistaðatónleikum og fjórum tónlistarhátíðum meðal annars í Stuttgart, Nuremberg og Hamburg.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *