Útidúr gefa út Bila-St.Æðin

Hljómsveitin Útidúr fagnar útgáfu á sinni þriðju breiðskífu, Bila-St.Æðin, í Bíó Paradís klukkan 17:00 í dag. Platan hefur verið í vinnslu síðustu þrjú ár og tekin upp að hluta til í Sundlauginni en mestmegnis af hljómsveitinni sjálfri ásamt Kára Einarssyni í hljóðveri hans. Tónlist plötunnar fer út um víðan völl og blandar saman áhrifum allt frá klassískri yfir í indverska og austur-evrópska tónlist. Útkoman er blanda af taktdrifnum lögum með melódíum sem fljóta yfir íburðarmikinn hljóm alls kyns strengja- og blásturshljóðfæra.

 

Útgáfan er með óhefðbundnu sniði en í stað geisladisks hefur hljómsveitin útbúið bókverk sem inniheldur niðurhalskóða með plötunni, hannað af Gunnari Erni Egilssyni. Platan verður spiluð í heild sinni í bíósal á slaginu 17:00 en í Bíó Paradís verður einnig boðið upp á léttar veitingar og platan/bókverið verður til sölu á tilboðsverði.

Hér að neðan má horfa á glænýtt myndband við Ennio, eitt laga plötunnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *