Myndir: Aron Guðmundsson
Ég mætti rúmlega 9 í Silfurberg til að sjá sænsku táningarappsveitinn Young Lean and the Sad Boys. Þeir spiluðu nokkurs konar átótjúnað emo-rapp, og ég meina það ekki á neikvæðan hátt. Þvínæst sá ég japanska stelpnatríóið Nisennenmondai. Þær spiluðu á bassa, trommur og gítar og framkölluðu dáleiðandi mínímalíska tekknótónlist þar sem taktföst endurtekningin hamraði sér leið inn í undirmeðvitundina.
Þær virtust algjörlega í leiðslu og stemmningin var eins og týndi hlekkurinn milli frumstæðra ættbálkaathafna og nútíma tekknóklúbba. Stelpan á trommunum hélt úti mekanískri keyrslu allan tímann og missti ekki úr slag, og úr gítarnum komu hljóð sem minntu sitt á hvað á bílvél eða draugagang. Eftir svona hálftíma var ég samt farinn að þrá smávægilega tilbreytingu, það sem gerði þetta kúl var naumhyggjan og endurtekningin en það vantaði bara eitthvað pínu ponsu meira; þetta var einum of einsleitt en næstum því frábært.
Plötusnúðurinn Ryan Hemsworth spilaði léttari tónlist en margir aðrir plötusnúðar á hátíðinni en hann bauð upp á fjölbreytta blöndu af Hip Hop, R’n’B og poppuðu Dub Step og jók tempóið eftir því sem leið á settið. Næst á dagskrá var hinn breski sláni Adam Bainbridge sem gengur undir vinalega listamannsnafninu Kindness. Hann kom fram með heljarinnar hljómsveit og blökkum bakraddasöngkonum og lék fágað fönk og grúví diskó af fádæma öryggi næstu þrjú kortérin eða svo.
Ég hafði ekki heyrt neitt af tónlist hans áður en smitaðist af ryþmanum frá fyrsta lagi. Af og til var splæst bútum úr lögum eftir listamenn eins og Prince, Bobbie Womack og Art of Noise inn í settið og á einum tímapunktu brast á með Conga-röð hljómsveitarmeðlima um allt sviðið þar sem allir höfðu kúabjöllu, hristu eða annað ásláttarhljóðfæri í hönd. Þetta var algjört funkathon og skemmtilegustu tónleikar hátíðarinnar fyrir mig persónulega.
Þá var bara stærsta nafn hátíðarinnar eftir, ameríski dubstep æringinn Skrillex, sem er dáður eins og guð af glataðri æsku, en litinn hornauga af gömlum, bitrum og sjálfskipuðum spekingum eins og mér. Ég gat samt ekki sleppt því tækifæri að fylgjast með tónleikunum og sé alls ekki eftir því. Ég myndi ekki nenna að hlusta á þessa tónlist heima hjá mér, en þetta var allsherjar loftárás á skilningarvitin af nördalegum unglingi með allt of dýrar græjur. Og ég meina það á góðan hátt. Svona tiltölulega. Þarna var dropp-um, grafík, lazer-um og reyk bombað í fésið á þér á hverju sekúndubroti þannig ekki gafst tækifæri til að hugsa eða greina eina einustu einingu, því þá var nýtt áreiti komið á sjóndeildarhringinn. Hann henti svo Björk, Stars Wars laginu og íslenska fánanum inn í settið meðan hann klifraði, hoppaði og bara almennt djöflaðist í og ofan á tækjaborðinu sínu.
Eftir þessa æskudýrkun og fjallstind sem Skrillex var fór ég alla leið niður í bílakjallaran til að sjá einn langlífasta og farsælasta plötusnúð landsins, DJ Margeir. Hann spilar tónlist sem er einhvern veginn viðeigandi hvar sem er fyrir hvern sem er, harðan kjarna með mjúkri áferð. Þar dönsuðu gestir með öllum frumum líkama sinna og reyndu hvað þeir gátu að halda lífsmarki í Sónarnum þegar endirinn var yfirvofandi.
En allt spennandi endar og Sónar hátíðin er engin undantekning þar á. Hún var samt frábærlega heppnuð og minningarnar lifa, allavega þangað til við fáum öll alzheimer eða drepumst. Ég er strax farinn að hlakka til næstu hátíðar en þangað til getið þið lesið umfjallanir Straums um fimmtudagskvöldið, föstudagskvöldið eða fyrri hátíðir.
Davíð Roach Gunnarsson