Enski rafsálartónlistarmaðurinn James Blake sem er á leiðinni til Íslands á Sonar hátíðina eftir viku frumflutti nýtt lag í útvarpsþætti á BBC í dag. Lagið heitir Retrograde og sver sig í ætt við hans bestu lög eins og Wilhelm Scream og Limit to Your Love. Ægifögur röddin er í forgrunni en þegar líða tekur á lagið taka sírenuhljómandi hljóðgervlar að óma og undirstrika sálarfullan sönginn. Þetta er fyrsta lagið af væntanlegri plötu, Overgrown, sem kemur út 8. apríl. James Blake mun bæði halda tónleika og þeyta skífum á Sonar hátíðinni næstu helgi en tilkynnt var í gær að bætt hafi verið við fleiri miðum á hátíðina vegna mikillar eftirspurnar. Hlustið á lagið hér fyrir neðan sem hefst eftir einnar mínútu viðtal og lesendum er ráðlagt að hækka í botn þar sem hljóðstyrkurinn á upptökunni er í lægri kantinum.