Tónlistargoðsögnin Nico kom til Íslands árið 1971 ásamt þáverandi sambýlismanni sínum, franska kvikmyndaleikstjóranum Philippe Garrell, og lék í hinni ljóðrænu kvikmynd hans ‘La Cicatrice Intérieure’ (Innra sárið) sem var að stórum hluta tekin upp á svörtum söndum suðurlands. Ljósmynd úr myndinni prýðir einmitt umslag ‘Desertshore’ og á henni sést einnig Ari Boulogne, sonur Nico og franska leikarans Alain Delon, en drengurinn lék með henni í myndinni.
La Cicatrice Intérieure verður sýnd í fyrsta skipti á Íslandi á kvikmyndahátíðinni Stockfish. Hún verður þannig fyrsta myndin í flokki mynda sem sýndar verða á Stockfish-hátíðum framtíðarinnar undir heitinu ‘Uppgötvun úr fortíðinni’ en það eru myndir sem teknar hafa verið á Íslandi án þess að lítið hafi borið á. Nú gefst íslenskum tónlistar- og kvikmyndaunnendum loks að sjá goðsögnina Nico í íslenskri birtu og landslagi. Myndi verður sýnd í Bíó Paradís 25. febrúar klukkan 20:30 og 1. mars klukkan 18:00
Nico (fædd Christa Päffgen 1938) söng lögin ‘All Tomorrows Parties’, ‘Femme Fatele’ og ‘Venus in Furs’ á ‘Andy Warhol’ plötu Velvet Underground & Nico, einni rómuðustu og áhrifamestu rokkplötu allra tíma. Hin djúpa rödd hennar og kaldi söngur er hluti af hljóðrás sjöunda áratugarins og andlit hennar eitt af þekktustu andlitum hans. Eftir að hún sagði skilið við Velvet Underground starfaði hún með Tim Buckley, Jackson Browne og Brian Eno m.a.. Fyrsta sólóplata hennar ‘Chelsea Girl’ hafði mikil áhrif á Leonard Cohen og á þeirri næstu, ‘Desertshore’, má heyra að hún er ein af uppáhaldsplötum Bjarkar.