Moritz Von Oswald spilar á Nasa

Moritz Von Oswald spilar á Nasa laugardaginn 24.september en það er Thule records sem flytur hann inn. Moritz Von Oswald er lifandi goðsögn sem hefur skapað sér nafn sem einn allra stærsti áhrifavaldur Technosins. Undir nafninu Maurizio telst hann ábyrgur fyrir minimal stefnunni sem hefur verið áberandi í danstónlist undanfarin ár. Ásamt því hefur hann þróað og leitt áfram “Deep Techno”, síðan í byrjun 10.áratugarins undir nafninu Basic Channel ásamt Mark Ernestus. Hann er einning höfundur “Dubtechno” geirans undir nafninu Rhythm of Sound. Moritz Von Oswald á mikið af aðdáendum hér á landi og hefur haft ómæld áhrif á tónlistarmenn útum allan heim, og þar á meðal íslendinga sem tóku tónlist hans eins og nýjum framandi boðskap. Tónlist Moritz er fjölbreytt og í dag er hann enn að fara ótroðnar slóðir og kanna takmörk jazz, techno, dub-reggae og klassískrar tónlistar undir nafinu Moritz Von Oswald Trio. Hann er sjálfur sprenglærður tónlistarmaður, fæddur í Hamburg í Þýskalandi. Áhersla hans í því námi var á rythma og ýmis ásláttarhljóðfæri. Hann átti einnig stutta viðkomu í New Wave poppi áður en ferill hans færðist alfarið yfir í raf- og danstónlist. Mikill vinskapur og náið samstarf myndaðist milli Moritz og Juan Atkins ásamt Carl Craig þegar hann flutti til Detroit ,og sér ekki fyrir endann á því samstarfi. Sjaldgæfar endurhljóðblandanir frá Underground Resistance og Jeff Mills fylgdu í kjölfarið. Sterkasta rót Minimal Technosins varð til á þessum tíma með lögum á borð við “Phylips Trak” , “Octagon”, “Domina” og “M 4,5”. Gífurlegur áhugi hans á rótum dub og reggae hefur fært okkur margt af því besta í tilraunakenndri tónlist og hefur hann bæði gaman af því að vinna með söngvurum og sökkva sér djúpt ofan í dubbaðar útgáfur af lögum sínum. Hann ásamt Mark Ernestus er ábyrgur fyrir útgáfum eins og Basic Channel, Mainstreet Records, M series, Rhythm & Sound og Chain Reaction. Sú síðarnefnda var útgáfa sem að skapaði vettvang fyrir tónlistarmenn sem gátu hugsanlega fetað í fótspor Basic Channel. Meðal þeirra tónlistarmanna var Robert Henke en hann er þekktur fyrir að vera einn meðhöfunda tónlistarforritsins ableton live. Mark Ernestus er síðan stofnandi plötubúðarinnar Hard Wax í Berlin. Moritz Von Oswald er einn hugmyndaríkasti frumkvöðull Techno, minimal, dub og deeptechno. Hann hefur tengt saman menningarheima á undraverðan hátt. Þannig hefur samstarf hans við tónlistarmenn með rætur í Karabískri tónlist getið af sér sérstaka kvísl raftónlistar sem kallast Dubtechno.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *