Ljúft á LungA

Mynd: Gunnar Ragnarsson úr Grísalappalísu skvettir úr klaufunum á sviði hjá FM Belfast á lokatónleikum LungA í ár. Mynd í eigu: Tóta Van Helzing

LungA (Listhátíð unga fólksins Austurlandi) hefur verið haldin seinustu tólf ár í hinum ægifagra Seyðisfirði. Þar safnast saman myndlistamenn, tónlistarmenn, listnemar, listunnendur og tónlistarelskendur frá öllum landhlutum og utan að. Dagana 14. – 21. júlí var hátíðin haldin í tólfta sinn. Mikið líf, fjör, ást og samvinna einkenndi þessa viku. Eins og árin áður voru í kringum hundrað þátttakendur á LungA sem tóku þátt í svo kölluðum listasmiðjum. Þar gafst þeim tækifæri að læra nýja hluti og spreyta sig undir handleiðslu reyndra listamanna. Til að mynda var hægt að skrá sig í spuna-, vídjóverka-, dans-, og hljóðfæragerðarsmiðju.

Hugarró í bláu kirkjunni

Úlfur Hanson, einnig þekktur sem Klive, opnaði hátíðina með tónleikum í Seyðisfjarðarkirkju sem oft er kölluð Bláa kirkjan sökum útlits síns og samnefndrar sumartónleikaseríu sem var stofnsett þar árið 1998. Um var að ræða tilraunakennt hljóðverk með elektrónískum áhrifum sem hann flutti ásamt hjálp fleiri tónlistarmanna. Meðal annars voru það Tumi Árnason á píanó og saxafón, Ingólfur Arnar Ingólfsson á gítar, Jófríður Ákadóttir með söng og Arnljótur Sigurðsson á tréblásturshljóðfæri sem öll eru þekkt í íslensku tónlistarlífi. Úlfur drottnaði sjálfur á svölum kirkjunnar með orgelleik sínum. Tónleikagestir lokuðu margir augunum í algerri hugarró á meðan aðrir fylgdust agndofa með einbeittum tónlistarmönnunum spila. Bláa kirkjan, friðsæl og krúttleg, jók mjög við skemmtilegt andrúmsloft tónleikanna. Hálftíma langt hljóðverkið var draumkennt með ákveðinni áherslu sem hélt áhuga mínum og athygli allan tíman.

Lokatónleikarnir í ár voru haldnir laugardaginn 20. júlí úti við hjá gömlu síldarverksmiðjunni Norðursíld á Seyðisfirði. Það hafði verið mjög sólríkt þennan dag en um kvöldið læddist austfjarðaþokan yfir fjörðinn sem skapaði dulúðugt andrúmsloft. Gul strætóbifreið, sem sá til þess að tónleikagestir kæmust klakklaust á staðinn, fór ótal margar ferðir troðfull af brosandi andlitum. Ég mætti á svæðið þegar dúóið Vök, sem fór með sigur af hólmi í Músíktilraunum í ár, hafði hitað ærlega upp í hjörtum áheyrenda með hljómfögrum og rafmögnuðum tónum sínum.

Hressir, öruggir og ljóðrænir

Á minna sviðið (tvö svið voru notuð til þess að draga úr biðtíma milli hljómsveita) steig næst hin marg umtalaða hljómsveit Grísalappalísa. Hún samanstendur af sjö Reykvískum tónlistarmönnum sem allir hafa sína forsögu. Meðlimir hennar hafa verið duglegir að fylgja eftir nýútgefnum frumburði sínum, ALI, með tónleikum, hlustunarteiti og tónlistarmyndbandi. Lísa var þess vegna mjög samstillt og framkoma þeirra hress og sjálfsörugg. Á þriðja lagi hafði dansglaður hópur safnast saman fremst við sviðið og voru áheyrendur dáleiddir af ljóðrænum og frumsömdum textum Gunnar Ragnarssonar og Baldurs Baldurssonar. Viðfangsefni þeirra voru ástin, næturlífið og daglegt líf ungs fólks. Mannlegur raunveruleiki á léttum en svölum nótum.

Þéttur bassi ómaði og rímur fóru á flug. Á sviðið höfðu stigið kapparnir í Úlfur Úlfur sem hrærðu ærlega upp í stemmningunni. Ég fékk það strax á tilfinninguna að margir yngri tónleikagestir kynnu að meta þá betur en þeir eldri. Textum sveitarinnar, sem fjalla oftar en ekki um það að vera ungur og frjáls, voru gefin ágæt skil af skoppandi og hressum meðlimum Úlfs Úlfs. Þótt bassinn yfirgnæfði heldur mikið á köflum var boðskapur sveitarinnar nokkuð skýr. Við vorum öll saman komin til þess að djamma.

Næsta band á svið var hin sífallega og ávallt þétta hljómsveit Mammút. Hún spilaði af krafti og kom einkar vel fram. Tilfinningin sem þessir 5 einstaklingar skapa er nefnilega einstök. Aðspurður var ungi maðurinn, sem dansaði við hlið mér, mjög ánægður með framkomu Mammút þar sem ,,bæði tónlistin og fólkið í henni er alltaf sexý”. Eftir þetta hljóp hann fremst er sviðið fylltist af appelsínugulum reyk. Þegar leið á enda settsins fékk nýlegt lag sveitarinnar, Salt, að óma. Rúm 5 ár eru liðin frá útgáfu annarar breiskífu sveitarinnar og er sú þriðja á leiðinni.

Taktfastur og tilfinningaþrunginn heimur

Þegar Mammút hafði lokið sér af tók Ghostigital tvíeykið við. Er ég gekk nær sviðinu varð mér ljóst að þeir væru, að vana, með gesti í heimsókn. Með þeim á sviði voru engir aðrir en Úlfur Hanson á gítar og Tumi Árnason, úr Grísalappalísu og The Heavy Experience, á saxófón. Það tók tónleikagesti smá stund að átta sig á aðstæðum. Eftir andartak var fólk farið að dansa af krafti við takfastann og tilfinningaþrunginn heim Ghostigital. Að sjá borgarfulltrúann og listamanninn sem er nefndur eftir plastframleiðslufyrirtæki spila er einstök upplifun. Curver, sem stjórnar alfarið taktinum, lék sér með rödd Einars í bland við hljóðfæraleik Tuma og Úlfs. Útkoman var algerlega einstök og eftirminnileg.

Næst á dagskrá var hinn danski Esben Nørskov Andersen sem gengur undir tónlistarnafninu Rangleklods. Söngur Esben, sem minnir örlítið á stíl Ian Curtis úr Joy Division, fjallaði um ungdóm og mannleg samskipti. Honum til halds og trausts var stúlka sem söng bakrödd og spilaði á hljóðgervil. Tónleikar Rangleklods vöktu mikla lukku á Iceland Airwaves hátíðinni í fyrra. Þá spilaði hann á Faktorý og í Norðurljósasal Hörpu. Tölvu trommurnar og hljóðgervlarnir minntu einna helst á nýbylgjutónlist 9. áratugarins sem skeytt var við nýrri blæ raftónlistar. Á hápunkti tónleikanna náði Esben hylli tónleikagesta með því að stjórna hluta tónlistarinnar með leysirgeisla. Það var svipað bragð og hann nýtti á Airwaves í fyrra.

Dansandi buxnalaus

FM Belfast mættu til leiks þegar Rangleklods steig af sviði. Hópurinn er þekktur fyrir hressleika, lífsgleði og fagmannlegan tónlistarflutning. Þetta kvöldið var engin undantekning. Slagverkseikararnir tveir stóðu sig sérstaklega vel og voru samstíga allan tímann í því að fylgja eftir tölvutaktinum sem hefur einkennt FM Belfast frá upphafi. Það vantaði ekki að dansandi áhorfendurnir fækkuðu margir flíkum þegar lagið ‘Underwear’ hljómaði. Það er ekki að undra þar sem það er eitt af vinsælustu lögum hópsins. FM Belfast hafa spilað mikið á erlendri grundu seinustu ár og vakið mikla athygli víðsvegar. Það sást þó ekki á þeim að þau hefðu gleymt því hvernig ætti að skemmta Íslendingum. Dansinn er jú tungumál sem allir skilja. Eftirminnilegt var þegar Gunnar í Grísalappalísu steig upp á svið með hestagrímu og plakat framan á sér merkt sveit sinni. FM Belfast tóku honum fagnandi þegar hann byrjaði að dansa á meðan loka lagið hljómaði.

FM Belfast luku tónleikunum með miklu látum og þéttum danstónum sem allir þekktu. Þetta voru fjölbreyttir tónleikar sem stigmögnuðust vel. Tónleikagestirnir voru vingjarnlegir og samstíga í gleðinni frá byrjun til enda. Það var frábært að fá að heyra samspil yngri og eldri tónlistarmanna. Sumt hefði líklega hljómað betur í tónleikasal en útitónleikar eru sjaldgjæf upplifun á Íslandi svo að hún gengur fyrir. Listahátíð unga fólksins Austurlandi býr yfir einstökum eiginleikum. Þar er frelsandi, friðsælt og skemmtilegt að vera. Fólkið á bak við þessa hátíð á hrós skilið fyrir að halda vel heppnaða hátíð sem endaði á vel heppnuðum tónleikum.

Alexander Jean Edvard Le Sage de Fontenay

 

 

Tónleikadagskrá helgarinnar

Fimmtudagur 14. mars

Hljómsveitin Bloodgroup gaf nýverið út sína þriðju plötu, Tracing Echoes. Af því tilefni blæs sveitin til heljarinnar útgáfutónleika í Iðnó. Hægt er að kaupa miða hér: http://midi.is/tonleikar/1/7507  Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, en Bloodgroup heldur síðan í tónleikaferð um Evrópu til að fylgja eftir plötunni og því er þetta síðasta tækifæri til að sjá sveitina í Reykjavík um óákveðinn tíma. Hljómsveitin Samaris sér um upphitun á tónleikunum

Fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð á Faktorý í samstarfi við Tuborg – Grasrótin á Faktorý hefjast í kvöld. Á fyrstu tónleikunum munu hljómsveitirnar Kajak og Dreamcast koma fram. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22 og er frítt inn. Bent er á að hljómsveitir og tónlistarmenn sem hafa áhuga á að koma fram á Grasrótinni á Faktorý geta sent umsóknir á bokanir@faktory.is

Reykjavík Sex Farm kynnir hið dularfulla kvöld Death Is Not The End á Litlu gulu hænunni. Þar koma fram; Queerwolf frá Montreal og DJ Ravensclaw (aka Krummi úr Legend). Miðaverð er 500 og hefst kvöldið klukkan 21:30.

 

 

Föstudagur 15. mars:

Hljómsveitin Nóra mun spila á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast klukkan 22:00

Hljómsveitirnar Jan Mayen og Morgan Kane halda tónleika á Bar 11 og er ókeypis inn. Jan Mayen gerðu garðinn frægan á síðasta áratug og hafa spilað á vel völdum stöðum undanfarna mánuði. 

Á Kaffistofunni verða haldnir tónleikar með Helga Mortalkombat, Sindra Eldon & The Ways og Tamarin/(elWis). Hefjast þeir á slaginu 20:00

Tónleikar til styrktar Geðhjálp fara fram á KEX klukkan 20:30 og er miðaverð 1500 kr. Fram koma: Robert The Roommate, Ylja og Ultra Mega Technobandið Stefán.

 

Breski plötusnúðurinn Midland þeytir skífum á Volta. Til upphitunar verða íslensku DJarnir Skeng og Jon Edvald. Húsið opnar kl. 23:00. Miðinn kostar aðeins 1000 kr. í forsölu á Miði.is. Midland er þekktur fyrir óhefðbundinn hljóðheim sinn þar sem saman blandast rætur techno og house tónlistar, með bassahljómi úr dubstep tónlist auk tilraunakenndra hljóma úr sígildri elektróníku.

 

 

Laugardagur 16. mars

Hljómsveitin MUCK mun halda sína fyrstu tónleika á árinu á Dillon við Laugarveg. Hljómsveitin er nýkomin heim frá New York þar sem hún vann að nýju efni af komandi plötu sem mun líta dagsins ljós seinna á árinu. Ekkert kostar inn og tónleikarnir hefjast 23:00.

Reyk Veek í samstarfi við Reykjavík Fashion Festival og Reyka Vodka kynna viðburðinn ULTRA VIOLENCE á Volta sem er blanda af tónlist, tísku og klúbba upplifun. Þeir sem koma fram eru:Karíus, Juan Solo, D’or, Orang Volante og Thizone. Aðgangseyrir er 1000 kr og hefst fjörið um miðnætti. 

Útgáfutónleikar John Grant í Silfurbergi Hörpu, í tilefni af útgáfu nýju plötunnar, Pale Green Ghosts. Það kostar 6400 kr inn og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.
Sunnudagur 17. mars

Bandaríski tónlistarmaðurinn Colin Stetson heldur tónleika á Volta. Stetson er saxófónleikari frá Michigan fylki Bandaríkjanna en hefur gert út frá Montreal í Kanada undanfarin ár. Hann hefur starfað með fjölmörgum tónlistarfólki og hljómsveitum síðustu árin samhliða því að reka sinn eigin sólóferil. Arcade Fire, Tom Waits, TV on the Radio, Bon Iver, LCD Soundsystem, The National, David Byrne og Feist eru meðal þeirra sem hafa unnið með Colin Stetson. Um upphitun sér Úlfur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00. 

Straumur 4. mars 2013

Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni með Glass Candy, Tame Impala, Azealia Banks, Suuns og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld frá 23:00 á X-inu 977!

Straumur 4. mars 2012 by Olidori on Mixcloud

 

1) Attracting Files – AlunaGeorge
2) Barely Legal – Azealia Banks
3) The Possessed (Runway edit) – Glass Candy
4) Slasherr – Rustie
5) Dancing Out In Space – David Bowie
6) 2020 – Suuns
7) Bambi – Suuns
8) Nothing Is Easy – Marnie Stern
9) Mind Mischief (ducktails remix) – Tame Impala
10) One Kiss Ends It All – Saturday Looks Good To Me
11) Only You Can Show Me – Goldroom
12) Around You – Roosevelt
13) Black Shore – Úlfur
14) I’m Not Sayin’ – The Replacements