Sónar hátíðin er mikill hvalreki fyrir tónlistarunnendur og fyrra kvöld hátíðarinnar var mögnuð upplifun og sannkölluð flugeldasýning fyrir skilningarvitin. Fyrsta atriðið sem ég sá dagskránni var plötusnúðatvíeykið Thugfucker í Silfurbergi sem samanstendur af hinum íslenska Hólmari og Greg frá New York. Þeir dúndruðu drungalegu tekknói í mannskapinn og stjórnuðu dansinum eins og brúðumeistarar með útpældum uppbyggingum og vel tímasettum taktsprengingum.
Kraftwerk á krakki
Þvínæst rölti ég yfir í Norðurljósasalinn og til að sjá Diomond Version sem ég hafði aldrei heyrt um áður en smekkvís kunningi hafði mælt með þeim. Sá vissi greinilega hvað hann söng því þetta var ein magnþrungnasta tónleikaupplifun sem ég hef orðið vitni að undanfarin misseri. Tveir menn á bakvið tölvur og græjur en fyrir framan þá var nokkurs konar hávaðalínurit og fyrir aftan þá tveir skjáir með alls konar grafík, svona pixlaðir skjáir með áferð eins og ljósaskilti í Vegas. Þetta var í stuttu máli sagt eins og Kraftwerk á krakki. Tónlistin var grjóthart iðnaðarsalt, rifið bassasánd, taktar úr pumpandi pistónum bílvéla og færibanda. Allt saman kalt, hrátt og steinsteypt. Sjónræna hliðin var svo dýrindis djöflasýra og allt virkaði þetta eins og stórskotahríð á skilningarvitin.
Kampavín og sígarettur
Modeselektor voru það band sem ég var spenntastur fyrir þetta kvöldið og voru stórgóðir en bliknuðu þó eylítið í samanburði við Diamond Version. Tónleikarnir voru þó skemmtilegir og fjölbreyttir og snertu á dubstep, tekknói, hip hop og almennri gleðitónlist. Á milli laga töluðu þeir með effekti á röddinni sem lét þá hljóma eins og íkorna og á ákveðnum tímapunkti tilkynntu þeir að nú myndu þeir taka sígarettulagið. Og kveiktu sér í. Ég fylgdi þeirra fordæmi. Þvínæst opnuðu þeir kampavínsflösku og sprautuðu yfir salinn eins og þeir hefðu sigrað í formúlu 1. Þetta var stórgóð skemmtun og tilraunakenndum myndböndum var einnnig varpað á skjá til að auka upplifunina.
Nýtt efni frá Gus Gus
Gus Gus byrjuðu tónleika sína á nýju lagi sem var sérdeilis æðislegt. Hljómaði eins og fyrsta smáskífa af væntanlegri plötu og viðlagið sungið af Högna var löðrandi í grípandi danstónlistarnostalgíu; „Do you remember the days, when we started to crossfade.“ Tónleikarnir voru heilt yfir frábær skemmtun en ég hef þó séð þau betri, fjarvera Urðar var nokkuð truflandi, en rödd hennar var spiluð af bandi í einstaka viðlagi. Högni og Daníel Ágúst stóðu sig þó með glæsibrag og fleiri ný lög ómuðu sem lofa góðu fyrir komandi plötu.
Ógrynni af Ást
Þá hljóp ég yfir í norðurljósasalinn og náði þremur lögum með Retro Stefson sem rokkuðu salinn í ragnarök. Það var ekki þurr flík í húsinu og Unnsteinn hafði salinn í hendi sér og lét fólk hoppa, skoppa og dansa asnalega milli þess sem hann kynnti hljómsveitina. Trentemoller var síðasta atriði á dagskrá og settið hans sveik engan. Dunandi og pumpandi tekknó sem var aðgengilegt en samt framsækið og helling af hnefum á lofti í salnum. Þegar hérna var komið við sögu var ölvun orðin umtalsverð og þegar hann spilaði I feel Love með Donnu Summer missti ég stjórn á öllum hömlum og hoppaði um og veifaði höndunum í algleymisdansi.
Eftir það sagði skylduræknin til sín og kíkti á dj-settið hjá James Blake í bílakjallaranum. Það var ekki alveg jafn mikið rave og ég hafði ímyndað mér, einungis smátt svæði hafði verið afmarkað í kjallaranum, en tónlistin var þó nokkuð góð. Dubstep, Dancehall og reggískotin danstónlist voru hans helstu vopn og krúnudjásnið var frábært remix af Drop it like it’s hot með Snoop Dogg. Hér gæti ég sagst hafa farið heim til að fylla á rafhlöðurnar fyrir síðara kvöldið, en það væri lygi. Allt í allt var fyrra kvöld Sónarsins frábærlega vel heppnað og sannkölluð árshátíð fyrir augu og eyru.
Davíð Roach Gunnarsson