Rapparinn MC Bjór frumsýndi í gær myndband við lag sitt Hrísgrjón. Í því kemur meðal annars við sögu bílferð í geimnum og belja úr Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum á stórleik í aukahlutverki. Í laginu nýtur hann aðstoðar rapparanna BRR og Bjarka B-Nice sem sjá um gestavers og koma einnig fram í myndbandinu.
Mc Bjór er kynngimagnaður rappari sem hefur bruggað listrænan mjöð neðanjarðar um nokkurt skeið sem er nú loks farinn að freyða upp á yfirborðið. Bjórinn sýður magnaða orðasúpu úr naglaspýtum íslenskunnar þar sem súrrealískur húmor og leikrænir tilburðir eru kryddaðir með vænum skammti af virðingaleysi fyrir öllum helstu gildum samfélagsins. Rennsli Bjórsins er ekki bundið hefðbundnum farvegum og flæðir ítrekað yfir alla mögulega bakka. Hann sækir innblástur og hugmyndafræði í andans jöfra 20. aldarinnar á borð við Old Dirty Bastard og Nate Dogg. Sér til halds og trausts á tónleikum hefur hann hljómsveitina Bland sem eltir orð Bjórsins uppi með funheitu fönki og almennum hrynhita.
Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.