Kurt Vile og Swans á ATP

Sex erlendum hljómsveitum hefur nú verið bætt við dagskrá All Tomorrow’s Parties hátíðarinnar sem fer fram á Ásbrú 10.-12. júlí næstkomandi: Kurt Vile & The Violators, Swans, Fuck Buttons, The Haxan Cloak, Forest Swords og Eaux. Kurt Vile var áður í hljómsveitinn War on Drugs en síðasta sólóskífa hans, Walking on a Pretty Daze, hefur hlotið afbragðsdóma gagnrýnanda og var fimmta besta plata ársins að mati straum.is. Hin sögufræga stórsveit Swans átti að koma til Íslands á þarsíðustu Airwaves hátíð en þurfti frá að hverfa vegna fellibylsins Sandy, og þess vegna ánægjulegt að hana reki loksins á strandir landsins.

Kurt Vile & The Violators og Swans verða á meðal þeirra sem koma fram fimmtudaginn 10. júlí. Fuck Buttons og The Haxan Cloak koma fram föstudaginn 11. júlí ásamt Portishead sem tilkynnt var að kæmi fram á hátíðinni í síðustu viku. Forest Swords og Eaux munu spila á lokadegi hátíðarinnar laugardaginn 12. júlí ásamt Interpol sem einnig var tilkynnt í síðustu viku.

Áður var einnig búið að tilkynna hljómsveitirnar Mammút, For a Minor Reflection, Samaris, Sóley og Low Roar á hátíðina. Fleiri hljómsveitir sem fram koma á hátíðinni verða kynntar á næstu vikum en hægt er að lesa umfjöllun straum.is um síðustu All Tomorrow’s Parties hátíð hér. Hlustið á tóndæmi með sveitunum hér fyrir neðan.



Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *