Diskósúpersveitin Chic sem leidd er af gítarleikaranum Nile Rodgers mun halda tónleika hér á landi í Laugardalshöll þann 17. júlí næstkomandi. Chic var ein helsta sveitin í diskósenu New York borgar á ofanverðum 8. áratugnum og eftir hana liggja ótal smellir eins og Le Freak, Everybody Dance og I Want Your Love. Þá var sveitin ötul í lagasmíðum og upptökum fyrir aðra listamenn eins og Sister Sledge og Diana Ross og sem slík ábyrg fyrir ódauðlegum slögurum eins og We are Family og Upside Down. Nile Rodgers hefur einnig stjórnað upptökum á plötum á borð við Let’s Dance með David Bowie og Like a Virgin með Madonnu. Þá ætti hann að vera hlustendum samtímans kunnugur þar sem hann er í stöðugri útvarps- og dansgólfaspilun um þessar mundir í Daft Punk laginu Get Lucky sem hann fönkar all svaðalega upp með sínum óviðjafnanlega gítarleik. Annar helmingur Chic, hinn frábæri bassaleikari Bernand Edwards, er því miður látinn en koma sveitarinnar ætti þó að vera diskóboltum og grúvhundum mikið fagnaðarefni. Hljómsveitirnar Moses Hightower og Sísí Ey sjá um upphitun á tónleikunum en miðasala hefst á föstudaginn á midi.is. Hlustið á lögin Everybody Dance og Good Times hér fyrir neðan.