Franska söng- og leikkonan Charlotte Gainsbourg hefur nú gert ábreiðu af laginu Hey Joe, sem er frægast í flutningi Jimi Hendrix. Það er sjálfur Beck sem sá um upptökur á laginu en hann vann með Charlotte að breiðskífunum IRM og Stage Whisper. Hljómur lagsins svipar óneitanlega til History De Melody Nelson, einnar bestu plötu föður Charlotte, Serge Gainsbourg.
Lagið var tekið upp fyrir hljóðrás kvikmyndarinnar Nymphomaniac sem er væntanleg frá danska meistaranum Lars Von Trier. Charlotte Gainsbourg leikur aðalhlutverkið í myndinni, persónu sem heitir einmitt Joe, en myndin ku vera ansi djörf svo ekki sé meira sagt. Hlustið á ábreiðuna hér fyrir neðan og horfið á stiklu úr myndinni. Í kaupbæti fylgir svo upphafslag History de Melody Nelson með Serge Gainsbourg.