Tónleikar helgarinnar

Eins og flestar vikur er fjölbreytt úrval tónleika á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi og hér verður farið yfir það helsta.

Miðvikudagur 7. ágúst

Tónlistarhópurinn Tónleikur mun halda sína stærstu tónleika hingað til á Rósenberg í kvöld. Tónleikur er hópur sem samanstendur af listamönnum sem öll eiga það sameiginlegt að semja sína eigin tónlist og í kvöld munu koma fram yfir tugur flytjenda; Martin Poduška, Raffaella, Ragnar Árni, slowsteps, val kyrja/Þorgerður Jóhanna, Tinna Katrín, Þorvaldur Helgason, Jakobsson, FrankRaven, Johnny and the Rest, Hljómsveitt og Forma. Fjörið hefst klukkan 20:30 og ókeypis er inn, en hattur verður á staðnum til að taka við frjálsum framlögum.

Hljómsveitin Eva verður öfug, hinsegin og alls konar á Kíkí í kvöld þar sem hún hitar upp fyrir Gay Pride gönguna sem verður um helgina. Leynigestur kvöldsins verður engin önnur en hin íðilfagra Ólafía Hrönn og mun hún flytja áheyrendum nokkur af sínum einstöku lögum. Öfurheitin hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari og Ingimar Andersen saxófónleikari leika djass frá 10 til 1 á Boston. Báðir eru þeir búsettir erlendis og taka hér höndum saman eftir langan aðskilnað og ókeypis er inn á viðburðinn.

Fimmtudagur 8. ágúst

Hljómsveitin Orfía, samstarfsverkefni Arnar Eldjárns og Soffíu Bjargar, spilar á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Örn og Soffía stofnuðu hljómsveitina Orfía árið 2011 eftir að hafa starfað saman í hljómsveitinni Brother grass um árabil.

Hljóðverk eftir Berglindi Jónu Hlynsdóttir & Guðmund Stein Gunnarsson verður flutt af Hljómskálanum í Hljómskálagarðinum klukkan 18:00. Verkið er hljóðinnsetning og myndverk í almenningsrými sem nýtir Hljómskálann sjálfan, sögu hans, staðsetningu í borginni og umhverfi til þess að lífga við þessa táknmynd sem er í senn minnisvarði, hús og svæði sem hefur sérstakt menningarlegt og sögulegt gildi í borginni.

Opnunarhátíð Hinsegindaga verður haldin í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 21:00. Á stokk stíga ýmsir þjóðþekktir tónlistarmenn sem á einn eða annan hátt tengjast sögu hinsegin fólks, baráttu þess og listsköpun. Aðgangseyrir er 2500 krónur.

Föstudagur 9. ágúst

Retro Stefson og Hermigervill munu kveðja hinn ástsæla tónleikastað Faktorý. Segja má að hljómsveitin hafi stigið sín fyrstu spor á staðnum þegar hún kom fram á Airwaves hátíðinni 2006 þó að staðurinn hafi þá borið heitið Grand Rokk. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Brimbrettarokksveitin Bárujárn efnir til tónleika til að fagna nýútkomnum geisladiski sínum. Tónleikarnir munu fara fram í kjallara skemmtistaðarins Bar 11 að Hverfisgötu 18 og hefjast leikar klukkan 22:00. Á tónleikunum verða öll lögin af disknum leikin, en auk þess hefur sveitin rifjað upp nokkur af sínum gömlu lögum og má því búast við löngu og sveittu prógrammi. Um upphitun sér hin stórefnilega brimrettarokksveit Godchilla og ljóðskáldið Jón Örn Loðmfjörð. Aðgangur er ókeypis en bjór og geisladiskar verða til sölu á tilboðsverði.

Strengja-og vélasveitin Skark gerir atlögu að tónleikaforminu í bílastæðahúsi Hörpu. Verk eftir Pál Ragnar Pálsson, Viktor Orra Árnason, György Ligeti, Alfred Schnittke og John Wilbye verða flutt en atlagan hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagur 10. ágúst

Helgi Rafn, söngvari og lagahöfundur, flytur 10 ný “kammer pop” lög á íslensku og ensku fyrir raddir og strengi ásamt Bartholdy strengjakvartettnum frá London. Tónleikarnir verða í húsnæði Leikfélags Kópavogs, en það rými var valið svo hægt væri að skapa leikræna og nána stemmingu. Aðgangseyrir er 1200 krónur og hljómleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Sunnudagur 11. ágúst

Frá upphafi hefur Faktorý átt sér heitan draum um stefnumót við stórhljómsveitina Gus Gus. Nú mun sá draumur loks verða að veruleika því hljómsveitin hefur þáð heimboð á Faktorý. Til slíks viðburðar er ekkert kvöld meira viðeigandi en síðasta kvöld staðarins, sunnudagurinn 11. ágúst. Gestir ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því hljómsveitin ætlar að spila gamla slagara í bland við nýtt óútgefið efni af væntanlegri plötu sveitarinnar. Uppselt er á viðburðinn en þeim lesendum sem eru virkilega heitir er bent á barnaland.

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *