Evróputónleikaferð hins goðsagnakennda Mark Lanegan og gesta hans hófst í Vínarborg í Austurríki um síðustu helgi en eins og kunnugt er endar tónleikaferðin hér á landi með tvennum tónleikum í Fríkirkjunni dagana 30.nóvember og 1.desember nk. Tónleikaferðin fylgir eftir ábreiðuplötunni Imitations sem út kom þann 17.september sl.
Auk Mark Lanegan mun hinn breski Duke Garwood, sem sendi frá sér plötuna Black Pudding fyrr á árinu ásamt Lanegan koma fram en einnig mun belgíski tónlistarmaðurinn Lyenn leika listir sínar.
Von er á enn fleiri gestum í Fríkirkjuna en það eru Hollendingarnir Sietse Van Gorkom sem leikur á fiðlu og Jonas Pap sem leikur á yfir 300 ára gamalt selló. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þeir báðir verið iðnir við sígilda tónlist og popp/rokk tónlist í Evrópu um árabil. Bandaríski gítarleikarinn Jeff Fielder frá Seattle bindur þetta svo allt vel saman.
Miðar á fyrri tónleikana eru uppseldir en enn eru til miðar á aukatónleikana 1.desember nk. Miðasala fer fram á midi.is Hér er vægast sagt um að ræða eina risastóra og safaríka veislu á heimsmælikvarða í Fríkirkjunni í Reykjavík.