Primavera Sound – Eldhaf af gleði

Fyrr í sumar sótti ritstjórn Straums heim tónlistarhátíð á Spáni. Á henni var rituð dagbók, en vegna anna og tæknilegra annmarka birtist hún ekki fyrr en nú. Hún fer hér á eftir og við vonum að þið fyrirgefið tafir og annan suddaskap. Lesist á eigin ábyrgð.

Primavera Sound hátíðin í Barcelona er einstök í sinni röð. Ég hef rennt yfir dagskrár helstu tónlistarhátíða Evrópu síðustu ár og nánast undantekningarlaust er Primavera með sterkasta lænöppið. Hún hefur líka þann kost að vera borgarhátíð fyrir þá sem höndla illa marga sturtulausa daga í röð og tjaldsvæði sem lítur út eins og endalok siðmenningarinnar (hóst, Hróarskelda, hóst). Þriðji kosturinn er sá að Barcelona er bæði fáránlega svöl (í töfflegri merkingu) og heit (í veðurfarslegri merkingu) borg sem hefur upp á ýmisleg að bjóða fyrir utan hátíðina.

Þangað var ég kominn í fríðu föruneyti þriggja öðlingsdrengja tveimur dögum fyrir hátíð á sviplaust íbúðahótel. Dagarnir tveir fyrir festival voru vel nýttir, m.a. í góðan mat, enn betri kokteila, tekknóklúbba, mikið labb og strandarhangs þar sem ég náði að lenda í stingandi faðmlagi við grimma marglyttu í flæðarmálinu. Fyrsta dagurinn á hátíðinni var í rólegri kantinum og við vorum mættir um níuleitið á hátíðarsvæðið að sjá sænsku hljómsveitina Goat. Þau voru öll klædd í litríka kufla með afrískar grímur og spila blöndu af afróbít og sækadelik rokki. Þetta var tilkomumikið sjónarspil og söngkonurnar tvær stigu spriklandi regndans af miklum móð sem var árangurslaus (sem betur fer, það rigndi ekkert á hátíðinni) en tilkomumikill.

Næstir á stóra sviðið voru gömlu britpoppararnir í Suede. Ég er enginn fanboy, þekki bara allra stærstu slagara, en skemmti mér samt stórvel – ekki síst yfir villtum töktum söngvarans Bret Andersons sem 20 árum yngri frontmaður hefði geta verið stoltur af. Önnur dagskrá miðvikudagsins var á klúbbum niðrí miðbæ borgarinnar þangað sem við fórum sérstaklega til að sjá kanadísku rafsöngkonuna Jessy Lanza. Hún var klædd í diskókjól og kom fram ásamt kvenásláttarleikara með raftrommur og lék á eigin rödd með hlaðborð af effektapedölum við mikinn fögnuð áhorfenda. Eftir Jessy var haldið heim – þó með stuttu stoppi á næturklúbbi – og öll batterí sett í hleðslu fyrir komandi átök.

Fimmtudagur

Fimmtudagurinn var tekinn snemma og hersingin leigubílaði yfir á hátíðarsvæðið um eftirmiðdaginn til að sjá norska geimdiskógeggjarann Todd Terje. Þegar hér er komið við sögu vil ég reyna að lýsa hátíðarsvæðinu. Það er staðsett í nokkurs konar listigarði (þó með malbikuðum stígum) í útjaðri Barcelona sem er akkúrat passlega stór. Barcelona er líka svona borg þar sem öll mannvirki eru mikilfengleg, meira að segja skrifstofubyggingar, vöruskemmur og verksmiðjur eru arkíttektúrísk stórvirki sem gætu verið túristagildrur í „venjulegum“ borgum. Á svæðinu sjálfu eru sex misstór svið og einn „strandklúbbur“ og það tekur í mesta lagi 20 mínútur að labba milli þeirra sviða sem lengst eru frá hvort öðru. Það hjálpar líka að þú labbar bara á malbiki en ekki grasi sem gerir alla yfirferð hraðari og markvissari.

En téður norsari, Todd Terje, var einmitt að spila á strandklúbbnum en versta var að það var engin leið að komast inn í hann þar sem hann var stappfullur. Það kom þó ekki að mikilli sök þar sem tónlistin ómaði út fyrir klúbbinn og tilvalið tana sig í sólinni með kokteil að spjalla og njóta. Á eftir Terje tók ritstjórn straums strategíska ákvörðun um að mæta hálftíma snemma á Car Seat Headrest til að komast alveg fremst, en hann á að mínu mati á langbestu indírokk plötu ársins hingað til, sem kom út um mánuði fyrir tónleikana. Hann á grípandi lög og margir í fremstu röð kunnu textana hans utan að en hann er líklega feiminn og aðhyllist svona shoegaze/Singapore Sling sviðsframkomu: í staðinn fyrir að horfa á áhorfendur finnur hann sér punkt fyrir ofan sjónlínuna og starir út í tómið meðan hann spilar. Það jók samt bara á níhílíska töffarasjarmann en maður sá hann missti grímuna stundum á milli laga og brosti einlægt. Hann var að spila á sínum stærstu tónleikum fram að þessu og það var eins og hann væri fyrst að fatta: „Vó sjitt er ég orðinn svona vinsæll? Ég gæti kannski bara lifað af þessu.“

Úr því nýjasta nýja fórum við svo á gömlu (útbrunnu?) kempurnar í Air sem hafa ekki látið til sína taka í mörg ár. Þeir stóðu samt fyllilega fyrir sínu og svuntuþeysuðu áhorfendur út í hafsauga. Þeir hafa elst aðeins í andlitunum en búa enn yfir fágaða fransmannasjarmanum og klæddust hvítum samfestingum og keyrðu í gegnum sína ótalmörgu slagara. Þeir enduðu á La Femme D’argent og suddalegur bassaleikur Nicholas Godin kafaði dýpra en mínar myrkustu botnvonir.

Næst á dagskrá var keisari síkadelíu nútímans, Kevin Parker, einnig þekktur sem Tame Impala. Eftir stutt intró lét hann engan tíma fara til spillis og dýfði sér beint í Let It Happen. Tilfinningunni að vera með sínum bestu vinum í byrjun þess lags þegar gleðimettað hamingjuþykkni byrjar að fossast út í æðakerfið á sama tíma og confettisprengjum er hleypt af á sviðinu verður ekki lýst frekar hér – En hún var svo sannarlega til staðar og lifði út tónleika Tame Impala sem voru vægast sagt magnþrungnir.

Þetta var kvöld var skammt stórra högga á milli því næst á dagskrá var upprisa LCD Soundsystem, sem hafði hætt með pompi og prakt fimm árum áður. James Murphy hefur greinilega engu gleymt og söng af áþreifanlegri ástríðu milli þess sem hann lamdi kúabjölluna an afláts eins og enginn væri morgundagurinn. Bandið var síðan selspiksfeitt, bæði fönkí og mekanískt, villt og agað. Þegar þau tóku Dance Your Self Clean undir lokin ætlaði allt að ærast og eftir þessa tónleika get ég vottað að það er ekki hægt að deyja úr of stórum skammti af kúabjöllu.

Neon Indian var næstur á dagskrá og 80’s sósað synþapoppið kom fiðringi í kroppinn og söngvarinn lék á alls oddi og dansaði eins og ungur diet Micheal Jackson, hvítklæddur frá toppi til táar. Þvínæst lá leiðin á Hudson Mohawke til að trappa sig niður áður en haldið var heim á leið til að safna orku fyrir næstu daga.

Föstudagur

Vaninn er sá að eftir því sem lengra dregur á hátíðina er maður lengur og lengur að koma sér út úr húsi og það átti við þessa hátíð líka. Smá þreyta farin að segja til sín en við vorum samt mættir klukkan 8 að sjá kvennapóstpönkhljómsveitina (þetta er allt of langt orð) Savages. Þær voru þrusuþéttar og spiluðu drungalegt síðpönk í anda Joy Division og Siouxsie and the Banshies. Beirut er í miklu uppáhaldi hjá mér á plötu og Zach Condor er afburða tónlistarmaður en tónleikarnir þeirra á stóra sviðinu voru daufir á einhvern hátt sem ég kann ekki alveg að útskýra. Það var allt rétt gert en vantaði einhvern neista.

Dinasour Jr. hins vegar voru ekki fullkomnir en í ljósum logum af innlifun og óreiðu. Ég þekki lítið til þeirra en þeir eru mjög virtir í vissum kreðsum, annar þeirra leit út eins og gandálfur og galdrarnir á gítarinn voru í hans anda. Eftir risaeðluna var það Radiohead og þó að Creep sé komið á sama stall og Stál og Hnífur í mínum huga fékk ég engu að síður gæsahúð þegar ég fylgdist með tugþúsundum syngja það í kór svo langt sem augað eygði.

Animal Collective voru í sínum allra súrasta fasa, settöppið þeirra var eins og ef Kraftwerk samanstæði af fjórum afrískum töfralæknum. Þetta var allt saman mjög trippy og áhugavert á köflum en fór of oft út í rúnk. Það mikilvægasta við tónleika er samt að enda vel og þeir kunnu það, tóku sólskinsveðraða smellinn Florida og komu öllum í gott skap. Af þeim skokkuðum við til að ná Black Devil Disco Club og það var svitans og áreynslunnar fullkomlega virði. Þessi aldraði Frakki sem gaf út sín helstu verk seint á 8. áratugnum var í banastuði og músíkin – sem væri hægt að kalla draugahouse eða drungatekknó – dunaði í frábæru hljóðkerfinu og skyldi ístaðið í eyranu mínu eftir í lamasessi af unaði.

Það kom mér á óvart hvað letur íslenska rafdúettsins Kiasmos var stórt á plakatinu fyrir Primavera en það var ekki að ástæðulausu: Þeir spiluðu klukkan hálf 2 á einu af stærsta sviðinu og tugir þúsunda dönsuðu í algleymi við nýklassíska tekknóið þeirra. Stemningin var í efri kantinum og margir virtust þekkja helstu slagarana þeirra og uppbyggingarnar í lögunum. Avalanches héldu svo gott mót með diskó- og fönkuppbyggðu dj-setti er líða tók á aðfaranótt laugardagsins og síðan var haldið heim á leið.

Laugardagur

 

Fyrsta mál á dagskrá var aldraði strandstrákurinn Brian Wilson. Röddin hans er komin af léttasta skeiði en hann var fallegt að sjá hann við hljómborðið. Hljómsveitin var í fremsta flokki og gömlu slagararnir voru raddaðir af innlifun sem var augljóslega ekki bara fyrir peningana. Næst á dagskrá í allt öðrum sálmum þá var það Rapparinn Pusha T  sem drap mig með töffaraskap í tonnatali og attitúdi á áður óþekktum skala. Hann heitir það sem hann heitir og það vita þeir sem vilja vita.

Við náðum restinni af PJ Harvey sem stóð fyrir ýmsu og Sigur Rós rokkuðu stóra sviðið á sínum fyrstu tónleikum í langan tíma, og þeim fyrstu eftir að þeir urðu tríó. Þeir tóku nýtt lag og líka nokkur af Ágætis byrjun sem hafa ekki heyrst lengi. Svo var sjónræna hliðin var til mikillar fyrirmyndar með frábærum ljósum og myndböndum. Næst var förinni heitið á bandarísku harðkjarna hryllingsrappsveitina H09909. Það var líklega harðasta sjitt helgarinnar, pönkuð hryllingsmyndabít og hakkað rapp, mosh pit, stage dive og allra handa djöfulgangur. Þú varst hvergi öruggur með bjórinn þinn því mosh pittinn ferðaðist á hraða ljóssins og gat komið aftan að þér hvaðan og hvenær sem var.

Eftir H09909S fórum við á næsta svið þar sem Roosewelt voru í rafrænu fönk- og diskóstuði. Þeir tóku mjög flott cover af stórum 80’s slagara en í svipinn man ég ómögulega hvaða lag það var og skriftin í nótbúkkinu mínu frá þessum tímapunkti er gjörsamlega óskiljanleg. Þá var haldið á DJ sett í strandklúbbnum þar sem síðustu lögin voru Please Stay (royksopp rímixið) og Smalltown Boy með Bronski Beat og þar var dansað þar til tilfinningar í andliti og útlimum glötuðust.

Að fara á tónlistarhátíð með vinum sínum í útlöndum er góð skemmtun. Vægast sagt. Það er nánast engin betri til. Barcelona er góð borg. Með þeim allra bestu sem ég hef heimsótt. Ef félagsskapur, hljómsveitaskipan og veður er jafn þétt skipað og í þessari ferð er nánast ekkert í veröldinni meiri gleði. Primavera Sound var allt það sem ég óskaði mér og hún og átti líka ýmislegt óvænt í pokahorninu. Ef þið hafið færi á að fara: DO IT.

Óli Dóri

Straumur 8. ágúst 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni frá Rival Consoles, Sindra7000, Thee Oh Sees, Angel Olsen, Jerry Folk og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Tónlist fyrir Ála – Sindri7000
2) You Can’t Deny – Jacques Greene
3) Peace (Lone remix) – Kenton Slash Demon
4) Stanley – Jerry Folk
5) Lone – Rival Consoles
6) AMR – B.G. Baaregaard
7) Give It Up – Angel Olsen
8) Not Gonna Kill You – Angel Olsen
9) Heart Shaped Face – Angel Olsen
10) New Song – Warpaint
11) Unwrap the Fiend Pt 2 – Thee Oh Sees
12) Free Lunch – Isaiah Rashad

Tónleikar helgarinnar 4. – 6. ágúst

Fimmtudagur 4. ágúst

Oyama, Teitur Magnússon og Indriði efna til tónleikaveislu á skemmtistaðnum Húrra. Húsið opnar kl. 20. Tónleikar hefjast fljótlega upp úr kl. 21 Aðgangseyrir: 2000 kr.

Pride Off Venue tónleikar á Hlemmur Square – Elín Ey, AnA & Ólafur Daði. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

Styrktartónleikar fyrir Róttæka sumarháskólans 2016 fer fram á Gauknum. Fram koma: ÍRiS, Just Another Snake Cult, Grúska Babúska og Dauðyflin. Tónleikarnir hefjast kl 21.00. Miðaverð 1000 kr.

 

Föstudagur 5. ágúst

Hipp-Hopp og rapptónlist á Húrra, fram koma: Alexander Jarl, Þriðja Hæðin, Vivid Brain, Bróðir BIG, Rósi og DJ SickSoul sér um skífuþeytingar. Húsið opnar 21, tónleikar hefjast 22 og kvöldinu lýkur kl 01.

 

Laugardagur 6. ágúst

Söngvarinn Valdimar og DJ Óli Dóri munu spila á útisvæði Kaffitárs við Safnahúsið, Hverfisgötu 15. Dagskrá 13:00 Dj Óli Dóri 15:00 Valdimar Guðmundsson.

Hljómsveitin GlowRVK heldur frumsýngarpartý fyrir nýtt myndband í Gym & Tonic salnum á Kex hostel Hljómsveitin mun koma sjálf fram í partýinu.

Thule records heldur útgáfupartý fyrir plötuna “Downgarden” með Exos og “T1 / T2” með Thor Paloma. EXOS, THOR, COLD, ODINN, NONNIMAL, OCTAL (tbc) og HIDDEN PEOPLE koma fram.

Tónlist fyrir kafara

Platan Tónlist fyrir kafara eftir tónlistarmanninn Sindra Frey Steinsson öðru nafni Sindra7000 kemur út á vegum Möller Records í dag. Platan inniheldur 10 lög og er óður til ævintýrakafarans Jaques Cousteu, innblásin af heimildamyndum hans um undirdjúpin og ævintýri hafsins. Sindri Freyr er enginn nýgræðingur í tónlist og er meðlimur í hljómsveitunum Bárujárn og Boogie Trouble. Tónlist fyrir kafara er fyrsta sólóskífa Sindra. Hlusta má á plötuna sem er stórskemmtileg hér fyrir neðan.

Santigold á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tilkynnti í dag fleiri listamenn sem koma fram á hátíðinni í nóvember. Útgáfufyrirtækið Bedroom Community mun í tilefni 10 ára starfsafmælis vera með tónleika í Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stofnendur útgáfunnar þeir Ben Frost, Nico Muhly og Valgeir Sigurðsson munu koma fram á tónleikunum ásamt Daníel Bjarnasyni, Nadia Sirota, Jodie Landau, Sam Amidon, Paul Corley, Puzzle Muteson, Crash Ensemble, James McVinnie og Emilie Hall. Einnig bættust við í dag hinar frábæru listakonur Santigold (US), Mabel (UK) og Margaret Glaspy (US)

Hér má heyra lagið Big Boss Big Time Business af nýjustu plötu Santigold 99¢.

Á heimasíðu Iceland Airwaves má finna nánari upplýsingar um alla þá listamenn sem tilkynntir hafa verið:  Agent Fresco / Amabadama / Amber / asdfhg / Sturla Atlas / Auður / Grúska Babúska / Baloji (CD) / Bedroom Community with the Icelandic Symphony Orchestra / Pétur Ben / Beneath / Soffía Björg / BLKPRTY / Boogie Trouble / Bootlegs / Börn / Valby Bræður / Bróðir BIG / B-Ruff / Aron Can / Ceasetone / Chinah (DK) / Hannah Lou Clark (UK) / Frankie Cosmos (US) / Cryptochrome / Digible Planets (US) / DIMMA / Dream Wife / Halldór Eldjárn / Axel Flóvent / Fufanu / Unge Ferrari (NO) / Fews (SE/US) / dj flugvél og geimskip / FM Belfast / Futuregrapher / Emmsjé Gauti / Gangly / Bára Gísladóttir / GKR / Glacier Mafia / Margaret Glaspy (USA) / Glowie / Dolores Haze (SE) / The Hearing (FI) / Snorri Helgason / Hildur / Himbrimi / Julia Holter (US) / HórMónar / IamHelgi / IDLES (US) / The Ills (SK) / Silvana Imam (SE) / Einar Indra / Alvia Islandia / The Internet (US) / Alexander Jarl / Jennylee (US) / JFDR / Magnús Jóhann / Tómas Jónsson / Josin (DE) / Kano (UK) / Karó / King (US) / Kiriyama Family / Kött Grá Pje / Lake Street Dive (US) / Legend / Let’s Eat Grandma (UK) / Liima (DE) / Lowly (DK) / Lush (UK) / Jesse Mac Cormack (CA) / Teitur Magnússon / Major Pink / Mammút / Anna Meredith (UK) / Júníus Meyvant / Kælan Mikla / Milkywhale / Minor Victories (UK) / Kevin Morby (US) / múm with Kronos Quartet / Nap Eyes (CA) / Of Monsters and Men / Máni Orra / Par-Ðar / Pink Street Boys / PJ Harvey (UK) / Prins Póló / Puffin Island / Reykjavíkurdætur / Rímnaríki / Myrra Rós / Rythmatik / Samaris / Santigold (US) / Seratones (US) / Show me the Body (US) / $igmund / Mr.Silla / Singapore Sling / Sólstafir / The Sonics / Emil Stabil (DE) / Steinar / sxsxsx / Kate Tempest (UK) / This is the Kit (UK) / Throws (UK) / Tiny / Tófa / Tonik Ensemble / Torres (US) / Þriðja Hæðin / úlfur úlfur / Vaginaboys / Adia Victoria (US) / Vök / Warm Graves / Warpaint (US) / Yamaho / Conner Youngblood (US) / VIO / Ylja

Iceland Airwaves fer fram 2.- 6 Nóvember , og er miðasala inni á tix.is. Einnig eru pakkar í boði hjá Icelandair en þá má finna hér.