Pródúsantinn Lord Pusswhip hefur nú endurhljóðblandað lagið Sleep eftir ómstríðu skóglápsrokksveitina Oyama. Lagið er af I Wanna, fyrstu Ep-plötu sveitarinnar. Í meðförum Lord Pusswhip er gítarveggjum lagsins skipt út fyrir draumkenndan sveim og trommuheila með helling af bergmáli er skellt undir herlegheitin. Hlustið á endurhljóðblöndunina hér fyrir neðan.
Category: Fréttir
Laura Marling með sína fjórðu plötu á fimm árum
Breska þjóðlagasöngkonan Laura Marling gefur út sína fjórðu plötu „Once I Was An Eagle“ þann 27. Maí næstkomandi. Laura Marling hefur ábyggilega hlustað einu sinni til tvisvar á Joni Mitchell og á köflum mætti halda að hún væri amma hennar eða í minnsta lagi frænka. Þrátt fyrir að vera aðeins 23. ára hefur Marling þegar afrekað að vera tilnefnd tvisvar til hina virtu Mercury Prize verðlauna, árið 2008 fyrir frumburðin „Alas, I Cannot Swim“ og árið 2010 fyrir „I Speak Because I Can“. Árið 2011 hlaut hún Brit Awards og NME Awards fyrir plötuna „ A Creature I Don‘t Know“.
Laura Marling hefur þó gert meira en að vinna til verðlauna, hún var til að mynda helsta ástæða þess að hljómsveitin Noah and the Whale byrjaði að njóta vinsælda. Hún var meðlimur bandsins frá 16 ára aldri en hætti árið 2008 til að einbeita sér að sínum eigin ferli. Þá sleit hún sambandi sínu við söngvara bandsins Charlie Fink sem tók sambandsslitunum mjög nærri sér og notaði innblástur ástarsorgarinnar við gerð plötunar „The First Days of Spring“. Hún er af mörgum talin besta plata sveitarinnar og mætti Fink alveg láta segja sér oftar upp. Nói og hvalirnir hafa þó ekki siglt í strand og nýjasta plata þeirra Heart Of Nowhere“ er ekki alslæm.
Marling átti einnig í ástarsambandi við Marcus Mumford söngvara Mumford & Sons. Á væntanlegri plötu Marling syngur hún um öfundsjúka stráka í laginu „I Was An Eagle“ og er sagt að þar skírskjóti hún í samband sitt við Marcus.
„Once I Was An Eagle“ hefur hlotið einróma lof þeirra gagnrýnenda sem sagt hafa skoðun sína á gripnum og telja flestir þetta besta verk hennar til þessa. Marling ákvað að styðjast ekki við hljómsveit við gerð plötunnar ólíkt fyrri verkum hennar og er aðeins sellóleikari og trommari sem koma að hljóðfæraleik auk Marling á gítar. Platan hefur að geyma 16 lög sem flest eru í „singer songwriter“ stílnum og fóru aðeins 10 dagar í að taka þau upp. „Once I Was An Eagle“ rennur þægilega í gegn og virkar sem ágætis svefnmeðal þó það sé hætta á að maður rumski inná milli þar sem kraftmiklar þjóðlagaballöður halda hlustandanum á tánum.
– Daníel Pálsson
Hefði getað samið „Get Lucky“ á klukkutíma
Hin yfirlýsingaglaði leppur hljómsveitarinnar Beady Eye; Liam Gallagher hefur aðallega komist í fréttirnar fyrir skrautleg ummæli síðan það flosnaði upp úr samstarfi Oasis árið 2009. Í flestum tilfellum varðar það að einhverju leiti bróðir hans Noel en Liam var líklega farið að vanta smá athygli og ákvað nú á dögunum að tjá sig aðeins um Daft Punk.
„ Ég gæti samið þetta lag á klukkutíma. Ég skil ekki þennan spenning, skiljið þig hvað ég á við?“ Sagði Liam í samtali við The Sun varðandi smellinn „Get Lucky“ frá franska dúettnum sem fékk hjálp frá Pharrell Williams og tilvonandi Íslands vininum Nile Rodgers við gerð lagsins. Liam Gallagher lét sér ekki nægja að drulla yfir lagið og bætti við „ Takið þið helvítis hjálmana af ykkur og sjáum hvernig þið lítið út án þeirra“.
20. maí lét Beady Eye frá sér nýtt myndband við lagið „Second Bite of The Apple“ og er plata væntanleg frá þeim þann 10. Júní næstkomandi og ber titilinn „BE“. „ Við erum búnir að setjast niður og einbeita okkur vel að þessu verkefni, hreinsa hugan og ekkert af þessu kjaftæði eins og það var á tíunda áratugnum. Þessi plata er mjög sérstök fyrir okkur.“ Segir Liam um aðra plötu hljómsveitarinnar.
Hér má sjá myndbandið við lagið „Second Bite of The Apple“.
Tónleikar helgarinnar 24. – 26. maí
Föstudagur 24. maí
Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess hefst. Hátíðin er haldin á KEX Hostel og Volta og koma 17 hljómsveitir fram á hátíðinni. Þrjár hljómsveitir koma frá Ástralíu og Skotlandi og svo 14 frá Íslandi.
Kex Hostel:
20:00: Þórir Georg
20:45: Withered Hand
Volta:
21:15: Tonik
22:00: Good Moon Deer
22:50: Bloodgroup
23:40: PVT
00:40: Sykur
Laugardagur 25. maí
MC Bjór og Bland spilar sína fyrstu tónleika í verslun Lucky Records, Rauðarárstíg 6 klukkan 17:00.
Reykjavík Music Mess heldur áfram:
Kex Hostel:
20:00: Good Moon Deer
20:45: Stafrænn Hákon
Volta:
21:15: Just Another Snake Cult
22:00: OYAMA
22:50: Muck
23:40: DZ Deathrays
00:40: Mammút
Ofvitarnir, Sayatan og Skerðing koma fram á Dillon. Ókeypis inn og tónleikarnir hefjast á slaginu 22:00.
Sunnudagur 27. maí
Síðasti dagur Reykjavík Music Mess:
Kex Hostel:
20:00: Just Another Snake Cult
20:45: MMC
Volta:
21:15: Loji
22:00: Stafrænn Hákon
22:50: Withered Hand
23:40: Monotown
Lag og myndband frá Boards of Canada
Rafsveitin Boards of Canada hefur nú sett á Soundcloud síðu sína lagið sem var frumflutt með myndbandi á húsvegg í Tókýó í gær. Það er hið fyrsta sem heyrist af Tomorrow’s Harvest, breiðskífu þeirra sem kemur út þann 10. júní. Lagið sem nefnist Reach For the Dead er prýðisgott og ber öll helstu höfundareinkenni sveitarinnar. Það hefst á gullfallegum og hægfljótandi ambíent-synthum sem eru þó alltaf lítllega bjagaðir af suði og skruðningum. Þegar líður á lagið fara svo trommurnar að sækja í sig veðrið með harðari og hraðari takti og agressívari hljóðgerfla-arpeggíum. Það er í senn hugljúft og ógnvekjandi á þennan ólýsanlega hátt sem skosku bræðrunum hefur tekist að fullkomna. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og hér má lesa söguna af stórfurðulegri auglýsingarherferð fyrir væntanlega plötu.
Uppfært: Nú hefur einnig verið sett á netið ægifagurt myndband við lagið sem einnig má horfa á hér fyrir neðan. Þess má geta að þetta er einungis annað myndbandið sem hefur verið opinberlega gert af Boards of Canada.
Boards of Canada sýna nýtt myndband í Tókýo
Boards of Canada halda áfram að koma aðdáendum sínum á óvart en skemmst er að minnast afar óhefðbundinnar auglýsingarherferðar fyrir nýjustu plötu dúettsins. Í gær birtist færsla á facebook-síðu sveitarinnar sem innihélt einungis götunúmer í Tókýó, dagsetninguna 22. maí og tímasetninguna 12 á miðnætti. Á þessum stað í Tókýó var varpað myndbandi á húsvegg fyrir stundu sem virðist vera tónlistarmyndband við nýtt lag frá sveitinni. Horfið á myndbönd af vettvanginum hér fyrir neðan en hljóðgæðin í því efra eru betri en tónlistarmyndbandið nýtur sín betur í því neðra. Þar fyrir neðan má sjá stiklu og auglýsingu fyrir væntanlega plötu skoska rafbræðradúettsins, Tomorrow’s Harvest, sem kemur út á vegum Warp útgáfunnar 10. júní næstkomandi.
Opnunarveisla Reykjavík Music Mess
Frank Ocean til Íslands í sumar
R&B stórstjarnan Frank Ocean er væntanlegur til landsins og mun spila á tónleikum í Laugardalshöll þann 16. júlí næstkomandi. Platan hans Channel Orange tróndi hátt bæði á vinsældalistum og listum gagnrýnenda á síðasta ári og var meðal annars í öðru sæti á árslista þessarar síðu. Það er skammt stórra högga á milli í innflutningi á erlendum stórstjörnum til eyjunnar þessi misserin en í byrjun vikunnar var tilkynnt um tónleika hinnar sögufrægu diskósveitar Chic. Miðasala á tónleika Frank Ocean hefst 29. maí á miði.is.
Tónleikar um Hvítasunnuhelgina
Að fimmtudeginum meðtöldum er þessi helgi fjórir dagar og fyrir utan Eruovision er af nægu að taka í tónleikum og tryllingi þessa helgi.
Fimmtudagur 16. maí
Það verður slegið upp hip hop veislu í óhefðbundnari kantinum á Prikinu en þar munu taktsmiðirnir Marteinn, Lord Pusswhip og Tonmo úr Hip Hop krúinu Mudd Mobb leika listir sínar og tónsmíðar. Gjörningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er ekki til staðar.
Hljómsveitirnar Murrk og Óregla troða upp á Volta og í tilkynningu frá þeim er lofað brjáluðu proggi og helluðu fusion. Fyrir áhugamenn um slíkt þá opna dyrnar á Volta klukkan 21:00 og inngöngueyrir er 1000 krónur.
Föstudagur 17. maí
Hin kynþokkafulla ábreiðusveit Babies kemur fram ásamt Boogie Trouble og DMG á Faktorý. Gestum er ráðlagt að taka með sér dansskó, bjórpening og getnaðarvarnir. Gleðidyrnar opnast 22:00 og 1000 krónur kostar að ganga í gegnum þær.
Á Faktorý verða einnig aðrir tónleikar með tilraunakennda þjóðlagasöngvaranum Daniel Higgs frá Baltimore. Honum til halds og trausts verður Just Another Snake Cult en tónleikarnir hefjast 20:00 og aðgangur er ókeypis.
Söngvaskáldið Jón Þór sem gaf út hina prýðilegu plötu Sérðu mig í lit á síðasta ári stígur á stokk á Bar 11 ásamt Knife Fight sem að eigin sögn spila hávært indírokk. Tónleikarnir hefjast 22:00 og eru fríkeypis.
Ný klúbbakvöld, RVK DNB, hefja göngu sína á Volta. Eins og nafnið gefur til kynna verða kvöldin helguð Drum & Bass tónlist og þeir sem snúa skífunum á þessu fyrsta kvöldi verða Agzilla, Plasmic, DJ Andre og Elvar.
Blúsaða djasssveitin Beebee and the bluebirds kemur fram á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast 22:00.
Laugardagur 18. maí
Eftir Eurovisionpartýið verður boðið upp á rapp og dans á Gauk á Stöng þar sem Úlfur Úlfur, Emmsé Gauti og UMTBS stíga á stokk. Húsið opnar 22:00 og kostar 1000 kall inn.
Sísí Ey, Oculus, Kid Mistik og Sean Danke efna til dansveislu á efri hæð Faktorý sem hefst klukkan 10 og kostar 1000 krónur inn.
Öfgarokksveitin Azoik leikur á hljómleikum á Dillon klukkan 22:00 og ókeypis er inn. Sveitin lofar sprengdum hljóðhimnum og kílóum af flösu fyrir þá sem mæta.
Sunnudagur 19. maí
Elektrórokksveitin RetRoBot sem unnu músíktilraunir á síðasta ári og fönkbandið The Big Band Theory slá upp dansleik á Volta. Ballið hefst klukkan 21:00 og það kostar 500 krónur inn.
Streymið Random Access Memories með Daft Punk
Nú rétt í þessu var platan Random Access Memories með Daft Punk gerð aðgengileg til streymis á iTunes tónlistarversluninni og hægt er að hlusta á hana hér. Platan kemur út næsta föstudag og hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Fyrir þá sem ekki eru með aðgang að iTunes er hægt að nálgast grooveshark playlista hér og væntanlega á ótal öðrum stöðum þegar þessi orð eru komin í birtingu.