Tónleikar helgarinnar

Föstudagur 7. júní 

 

Á Kaffistofunni á Hverfisgötu munu ólíkir tónlistarmenn úr jaðri íslensks tónlistarlífs, ásamt vídjólistamönnum, framkalla einstakan bræðing bjagaðra tóna og sjónræns áreitis með það að markmiði að skapa upplifun ólíka þeirri sem íslenskir tónleikagestir eiga að venjast. Fram koma Pink Street Boys, Knife Fights, Lord Pusswhip (feat. $ardu aka Svarti Laxness & DJ vRONG), $H∆MAN $H∆WARMA og Gervisykur.

 

Sykur spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti. 

 

Laugardagur 8. júní

 

Noise spilar á The Icelandic Tattoo Convention á Bar 11 um miðnætti.

 

Ungir umhverfissinnar standa fyrir tónleikum á Loft Hostel með hljómsveitunum Axel Flóvent, Hljómsveitt, Macaya og Nolo. Það kostar ekkert inn, en tekið verður á móti frjálsum framlögum á staðnum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30.

 

Queens of the Stone Age með alvöru drottningu um borð

Rauðhærði eyðimerkurrokkarinn Josh Homme og félagar hans í hljómsveitinni Queens of the Stone Age gefa út sína sjöttu breiðskífu …Like Clockwork í dag þann 3. júní. Þetta er fyrsta plata hljómsveitarinnar í 6 ár og hafa upptökur staðið síðan í nóvember árið 2011. Bassaleikarinn Michael Shuman og hljómborðs og gítarleikarinn Dean Fertita tóku í fyrsta skiptið fullan þátt í gerð plötu með hljómsveitinni en gítarleikarinn Troy Van Leeuwen spilar inn á sína þriðju. Það dugði ekkert hálfkák við gerð plötunnar og koma þrír þungavigta trommuleikarar að gerð hennar og fer þar fremstur í flokki Dave Grohl en hann tók við af Joey Castillo sem hætti í miðjum klíðum.

Það  þarf ekki að koma neinum á óvart að Grohl skuli hafa gripið í kjuðana fyrir félaga sinn Homme en að Sir Elton John og Jake Shears  úr Scissor Sisters leynast á plötunni kann að stinga suma í augun. Elton John bauð sér sjálfum á plötuna og hringdi í Homme á meðan þeir voru að taka upp og sagði „Það eina sem bandinu þínu vantar er alvöru drottning“. Homme hélt að þarna væri einhvern að gera grín en svaraði um hæl „hunang… þú segir ekki“ og úr varð lagið „Fairweather Friends“. Heimsskauta apinn Alex Turner  lætur á sér bera á …Like Clockwork og auk þess að spila á gítar og syngja í laginu „If I Had a Tail“ semur hann texta við lagið „Kalopsia“ en  níu tommu naglinn Trent Reznor hjálpar til með að koma textanum til skila.
Þó svo …Like Clockwork hafi að geyma allan þennan hóp af gestaspilurum og söngvörum þá er platan af eyðimerkurokk/hasshausarokk stílnum og keimlík fyrri plötum sveitarinnar þó ekki jafn þung og þær þyngstu. Meðlimir voru ekkert að kikna í hnjáliðunum þó að Sir Elton væri  mættur í stúdíó og semja dramatíska ballöðu heldur varð drottningin bara að gjöra svo vel og rokka. Sexí gítarsóló, smá „growl“ í boði Trent Reznor og djúsí „fuzz“;  það er enginn alvöru rokkari að fara kvarta undan þessum gæða grip þó svo þetta sé kannski ekki besta plata Queens of the Stone Age til þessa.

Daníel Pálsson

Streymið Tomorrow’s Harvest klukkan 20:00

Hægt verður að hlusta á streymi af Tomorrow’s Harvest, nýjustu plötu Boards of Canada, á youtube síðu sveitarinnar nú klukkan 8 í kvöld. Hægt verður að hlusta á plötuna aðeins í þetta eina skipti þannig að aðdáendur þurfa setjast við tölvurnar klukkan 8 til að ná henni frá byrjun. Í síðustu viku var haldið hlustunarpartý fyrir plötuna í skemmtigarði í miðri Arizona eyðimörkinni og fyrir um tveimur vikum sendu Boards-liðar frá sér myndband við fyrsta lagið af plötunni, Reach For The Dead, sem hægt er að horfa á hér fyrir neðan. Tomorrow’s Harvest kemur út þann 10. júní næstkomandi og er beðið með mikilli eftirvæntingu af æstum aðdáendahóp sveitarinnar.

James Murphy ætlar sóló

Þó svo hinn 43. ára gamli tónlistarmaður James Murpy sé hættur í hljómsveitnni Lcd Soundsystem hefur hann ekki sagt skilið við tónlistina. Hann hefur undanfarið unnið við upptökur á plötum með Arcade Fire, Pulp, Yeah Yeah Yeahs og fleirum. Murphy segist ekki geta beðið eftir útgáfu nýjustu plötu Arcade Fire sem áætlað er að komi út seint á þessu ári og hefur ekki enn hlotið titil. Arcade Fire yfirgáfu kirkjuna sem sveitin hefur tekið upp allar sínar plötur til þessa þar sem þakið á henni var að hruni komið og leitaði í hljóðver með Murphy . „Reyndar þurfa þau ekki upptökustjóra, þau gera þetta flest sjálf“ segir Murphy og lofar frábærri plötu frá krökkunum Arcade Fire.
Hvað framtíðina varðar segir hann enga möguleika á því að Lcd Soundsystem taki saman á næstunni en sveitin lagði upp laupana 2011. „ Núna vil ég gera tónlistina mína einn og er með mörg járn í eldinum. Ég er t.d. að hanna hljóðkerfi fyrir tónlistarhátíð og búa til tónlist fyrir neðanjarðarlestir.“ Murphy segist ekki hrifinn af  þeirri danstónlist sem sé við líði nú á dögum og finnst hún ekki eiga margt skilt með sér. Hann er þó spenntur að sjá hvernig danstónlistin muni þróast á næstu 5 árum og verður spennandi að sjá hvort James Murphy geti ekki kryddað uppá dansgólfin með fersku efni.

-Daníel Pálsson

Tónleikahelgin 30. maí til 1. júní

Í hinu vikulega helgaryfirliti straum.is er stiklað á stóru og smáu í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu.

Fimmtudagur 30. maí

Þjóðlagasveitin Ylja sem hefur verið að gera það gott á rás 2 undanfarnar vikur með ábreiðu af Daft Punk smellinum Get Lucky leikur á tónleikum í Loft-hostel í Bankastræti. Bandið hefur leik klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

Á Volta verða ókeypis hljómleikar með Dj. Flugvél og Geimskip, Knife Fights, Kælunni miklu og Spy Kids 3D. Gleðin hefst klukkan 21:00.

Nýaldarsveitin Per:Segulsvið mun leika næfurþunnar zumba möntrur fyrir gesti á Bunk Bar. Per er að eigin sögn eitt stórkostlegasta tónleikaband íslandssögunnar og vísar í tónleika í Reiðhöllinni fyrir einhverjum árum máli sínu til stuðnings. Þar hafi þakið sprungið af höllini og 6 hrossum verið fórnað í þágu listsköpunar. Um sannleiksgildi sögunnar mun straum.is ekki dæma en tónleikarnir á Bunk Bar hefjast klukkan 21:00.

Á Dillon verður haldið fjórða kvöldið í Desibil tónleikaröðinni þar sem lögð er áhersla á noise, drone, industrial, crust, hardcore punk og dark ambient tónlist. Fyrir óinnvígða mætti segja að tónlistin einblíni á hljóðtíðnir, hávaða, bjögun og öfgakennda nálgun á tónlist. Að þessu sinni munu Harry Knuckles og Godchilla stíga á stokk og sjá um óhljóðasköpun. Kvöldin eru hugsuð fyrir fólk með opna huga og ævintýragjarnar hljóðhimnur og eru haldin síðasta fimmtudagskvöld hvers mánaðar. Hljómleikurinn hefst klukkan 9 og aðgangur er ókeypis.

Plötusnúðasamsteypan RVK Soundsystem stendur fyrir dansiballi á Dollý þar sem reggí, döbb og dancehall verður í hávegum haft. Það stendur yfir frá 21:00 til lokunar og aðgangur ókeypis.

Föstudagur 31. maí

Dj Flugvél og Geimskip verður aftur á ferðinni á föstudagskvöldinu en í þetta skipti á Hemma og Valda ásamt Helga Mortal Kombat og Krakkbot. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðstandendur þeirra lofa gestum tónlist fyrir alla, tölvuhljóðum, hlýju veðri, nýjum heimi og ókeypis aðgangi.

Laugardagur 1. júní

Í tilefni af 70 ára opnunarafmæli Sundhallar Hafnarfjarðar og hafnfirsku menningarhátíðinni Bjartir Dagar verður slegið upp tónleikum á pottasvæði sundlaugarinnar. Þeir hefjast klukkan 14:00 og aðgangur er ókeypis en eftirfarandi hljómsveitir koma fram:

Vök
Margrét Rán Magnúsdóttir og Andri Már Enoksson skipa Dúettinn Vök sem er sigurvegari nýliðinna Músíktilrauna. Tónlist þeirra er best lýst sem eiturljúfri raftónlist með melódískum söng.

Fox Train Safari
Fox Train Safari, sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu með haustinu. Þar verður að finna funk, soul og R&B. Hljómsveitin ætlar að spila tónlist í takt við veðurblíðuna sem lofað er á laugardaginn.

Magnús Leifur
Magnús sem var áður í Hafnfirsku hljómsveitinni Úlpu vinnur nú að sinni fyrstu plötu sem einyrki en áætluð útgáfa á henni er nú í sumar. Á tónleikunum í sundhöllinni mun hann koma fram ásamt hljómsveit.

Sveinn Guðmundsson
Sveinn hefur nýlokið upptökum á sinni fyrstu plötu “Fyrir herra Spock, MacGyver og mig” sem kemur út í sumar. Þetta verður í fyrsta sinn sem Sveinn leikur lög af plötunni sem er rólyndis gítarmúsík með póstmódernískum og sjálfspeglandi textum.

Sólbjört leikur á Gong
Sólbjört Guðmundsdóttir er kundalini jógakennari eftir forskrift Yogi Bhajan. Sérstakt áhugsvið hennar innan þess er jóga hljóðs og samskipta (Naad jóga). Gong hefur verið notað í árþúsundir við andlega iðkun en hlustun róar og styrkir taugakerfi manneskjunnar og veitir djúpa slökun og frið.

Lord Pusswhip rímixar Oyama

Pródúsantinn Lord Pusswhip hefur nú endurhljóðblandað lagið Sleep eftir ómstríðu skóglápsrokksveitina Oyama. Lagið er af I Wanna, fyrstu Ep-plötu sveitarinnar. Í meðförum Lord Pusswhip er gítarveggjum  lagsins skipt út fyrir draumkenndan sveim og trommuheila með helling af bergmáli er skellt undir herlegheitin. Hlustið á endurhljóðblöndunina hér fyrir neðan.

Laura Marling með sína fjórðu plötu á fimm árum

Breska þjóðlagasöngkonan Laura Marling gefur út sína fjórðu plötu „Once I Was An Eagle“ þann 27. Maí næstkomandi. Laura Marling hefur ábyggilega hlustað einu sinni til tvisvar á Joni Mitchell og á köflum mætti halda að hún væri amma hennar eða í minnsta lagi frænka. Þrátt fyrir að vera aðeins 23. ára hefur Marling þegar afrekað að vera tilnefnd tvisvar til hina virtu Mercury Prize verðlauna, árið 2008 fyrir frumburðin „Alas, I Cannot Swim“ og árið 2010 fyrir „I Speak Because I Can“.  Árið 2011 hlaut hún Brit Awards og NME Awards fyrir plötuna „ A Creature I Don‘t Know“.
Laura Marling hefur þó gert meira en að vinna til verðlauna, hún var til að mynda helsta ástæða þess að hljómsveitin Noah and the Whale byrjaði að njóta vinsælda. Hún var meðlimur bandsins frá 16 ára aldri en hætti árið 2008 til að einbeita sér að sínum eigin ferli. Þá sleit hún sambandi sínu við söngvara bandsins Charlie Fink sem tók sambandsslitunum mjög nærri sér og notaði innblástur ástarsorgarinnar við gerð plötunar „The First Days of Spring“. Hún er af mörgum talin besta plata sveitarinnar og mætti Fink alveg láta segja sér oftar upp. Nói og hvalirnir hafa þó ekki siglt í strand og nýjasta plata þeirra Heart Of Nowhere“  er ekki alslæm.
Marling átti einnig í ástarsambandi við Marcus Mumford söngvara Mumford & Sons. Á væntanlegri plötu Marling syngur hún um öfundsjúka stráka í laginu „I Was An Eagle“ og er sagt að þar skírskjóti hún í samband sitt við Marcus.
„Once I Was An Eagle“ hefur hlotið einróma lof þeirra gagnrýnenda sem sagt hafa skoðun sína á gripnum og telja flestir þetta besta verk hennar til þessa. Marling ákvað að styðjast ekki við hljómsveit við gerð plötunnar ólíkt fyrri verkum hennar og er aðeins sellóleikari og trommari sem koma að hljóðfæraleik auk Marling á gítar. Platan hefur að geyma 16 lög sem flest eru í „singer songwriter“  stílnum og fóru aðeins 10 dagar í að taka þau upp. „Once I Was An Eagle“ rennur þægilega í gegn og virkar sem ágætis svefnmeðal þó það sé hætta á að maður rumski inná milli þar sem kraftmiklar þjóðlagaballöður halda hlustandanum á tánum.

– Daníel Pálsson

Hefði getað samið „Get Lucky“ á klukkutíma

Hin yfirlýsingaglaði leppur hljómsveitarinnar Beady Eye; Liam Gallagher hefur aðallega komist í fréttirnar fyrir skrautleg ummæli síðan það flosnaði upp úr samstarfi  Oasis árið 2009. Í flestum tilfellum varðar það að einhverju leiti bróðir hans Noel en Liam var líklega farið að vanta smá athygli  og ákvað nú á dögunum að tjá sig aðeins um Daft Punk.
„ Ég gæti samið þetta lag á klukkutíma. Ég skil ekki þennan spenning, skiljið þig hvað ég á við?“ Sagði Liam í samtali við The Sun varðandi smellinn „Get Lucky“ frá franska dúettnum sem fékk hjálp frá Pharrell Williams og tilvonandi Íslands vininum Nile Rodgers við gerð lagsins. Liam Gallagher lét sér ekki nægja að drulla yfir lagið og bætti við „ Takið þið helvítis hjálmana af ykkur og sjáum hvernig þið lítið út án þeirra“.
20. maí lét Beady Eye frá sér nýtt myndband við lagið „Second Bite of The Apple“ og er plata væntanleg frá þeim þann 10. Júní næstkomandi og ber titilinn „BE“. „ Við erum búnir að setjast niður og einbeita okkur vel að þessu verkefni, hreinsa hugan og ekkert af þessu kjaftæði eins og það var á tíunda áratugnum. Þessi plata er mjög sérstök fyrir okkur.“ Segir Liam um aðra plötu hljómsveitarinnar.

Hér má sjá myndbandið við lagið „Second Bite of The Apple“.

 

Tónleikar helgarinnar 24. – 26. maí

Föstudagur 24. maí

Tónlistarhátíðin Reykjavík Music Mess hefst. Hátíðin er haldin á KEX Hostel og Volta og koma 17 hljómsveitir fram á hátíðinni. Þrjár hljómsveitir koma frá Ástralíu og Skotlandi og svo 14 frá Íslandi.

Kex Hostel:

20:00: Þórir Georg

20:45: Withered Hand

Volta:

21:15: Tonik

22:00: Good Moon Deer

22:50: Bloodgroup

23:40: PVT

00:40: Sykur

 

 

Laugardagur 25. maí

MC Bjór og Bland spilar sína fyrstu tónleika í verslun Lucky Records, Rauðarárstíg 6 klukkan 17:00.

Reykjavík Music Mess heldur áfram:

Kex Hostel:

20:00: Good Moon Deer

20:45: Stafrænn Hákon

Volta:

21:15: Just Another Snake Cult

22:00: OYAMA

22:50: Muck

23:40: DZ Deathrays

00:40: Mammút

Ofvitarnir, Sayatan og Skerðing koma fram á Dillon. Ókeypis inn og tónleikarnir hefjast á slaginu 22:00.

 

Sunnudagur 27. maí

Síðasti dagur Reykjavík Music Mess:

Kex Hostel:

20:00: Just Another Snake Cult

20:45: MMC

Volta:

21:15: Loji

22:00: Stafrænn Hákon

22:50: Withered Hand

23:40: Monotown

 

 

Lag og myndband frá Boards of Canada

Rafsveitin Boards of Canada hefur nú sett á Soundcloud síðu sína lagið sem var frumflutt með myndbandi á húsvegg í Tókýó í gær. Það er hið fyrsta sem heyrist af Tomorrow’s Harvest, breiðskífu þeirra sem kemur út þann 10. júní. Lagið sem nefnist Reach For the Dead er prýðisgott og ber öll helstu höfundareinkenni sveitarinnar. Það hefst á gullfallegum og hægfljótandi ambíent-synthum sem eru þó alltaf lítllega bjagaðir af suði og skruðningum. Þegar líður á lagið fara svo trommurnar að sækja í sig veðrið með harðari og hraðari takti og agressívari hljóðgerfla-arpeggíum. Það er í senn hugljúft og ógnvekjandi á þennan ólýsanlega hátt sem skosku bræðrunum hefur tekist að fullkomna. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og hér má lesa söguna af stórfurðulegri auglýsingarherferð fyrir væntanlega plötu.

Uppfært: Nú hefur einnig verið sett á netið ægifagurt myndband við lagið sem einnig má horfa á hér fyrir neðan. Þess má geta að þetta er einungis annað myndbandið sem hefur verið opinberlega gert af Boards of Canada.