Empire of the Sun dreifir dansvænum tónum

Ástralski rafdúettinn Empire of the Sun hefur nú sleppt frá sér fleiri lögum af komandi plötu Ice on the Dune sem kemur út 14. júní. Luke Steele og Nick Littlemore gerðu aðdáendum kleift að streyma plötuna nú á dögunum og hafa lögin „DNA“ og titillagið bæst í hópinn með „Alive“ og verið gerð aðgengileg hlustunar þó svo sjóræningjar um víða veröld séu þegar farnir að gæða sér á gripnum í heild sinni.
Aðdáendur hljómsveitarinnar hafa beðið óþreyjufullir eftir nýju efni síðan fyrsta plata sveitarinnar Walking on a Dream kom út árið 2008. Hún hlaut mjög góðar viðtökur, innihélt fimm smáskífur og fékk fjölda verðlauna. Þrátt fyrir góðar viðtökur vildu félagarnir í Empire of the Sun gera enn betur með nýju plötunni og fengu til liðs við sem menn sem hafa raðið inn lögum á topplista og ber helst að nefna Mark „Spike“ Stent sem hefur t.d. unnið með Madonnu, Lady Gaga, U2 og Björk. Markmiðið hjá Luke og Nick var að búa til góða plötu en ekki afsala öllu því sem fólk elskaði svo mikið við fyrstu plötuna. “Fólk verður að muna að veitingastaður getur misst kúnna með því að gleyma hvað fólk elskaði við staðinn fyrst þegar það kom sem við vildum  ekki“ sögðu þeir í samtali við Rolling Stone.
Ice on the Dune hefur að geyma 12 lög sem nánast öll hafa burði til að koma út sem smáskífur og gætu fengið ólíklegasta fólk til að dilla sér. Hvort grímuklæddu félagarnir nái að toppa frumburðinn með útgáfu þessarar plötu skal látið ósagt að svo stöddu en það er nokkuð greinilegt að að hér er á ferðinni ein af plötum sumarsins og þessir fersku synthapop/ambiant tónar framtíðarinnar munu eiga vel við í „blíðunni“.

-Daníel Pálsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *