Queens of the Stone Age með alvöru drottningu um borð

Rauðhærði eyðimerkurrokkarinn Josh Homme og félagar hans í hljómsveitinni Queens of the Stone Age gefa út sína sjöttu breiðskífu …Like Clockwork í dag þann 3. júní. Þetta er fyrsta plata hljómsveitarinnar í 6 ár og hafa upptökur staðið síðan í nóvember árið 2011. Bassaleikarinn Michael Shuman og hljómborðs og gítarleikarinn Dean Fertita tóku í fyrsta skiptið fullan þátt í gerð plötu með hljómsveitinni en gítarleikarinn Troy Van Leeuwen spilar inn á sína þriðju. Það dugði ekkert hálfkák við gerð plötunnar og koma þrír þungavigta trommuleikarar að gerð hennar og fer þar fremstur í flokki Dave Grohl en hann tók við af Joey Castillo sem hætti í miðjum klíðum.

Það  þarf ekki að koma neinum á óvart að Grohl skuli hafa gripið í kjuðana fyrir félaga sinn Homme en að Sir Elton John og Jake Shears  úr Scissor Sisters leynast á plötunni kann að stinga suma í augun. Elton John bauð sér sjálfum á plötuna og hringdi í Homme á meðan þeir voru að taka upp og sagði „Það eina sem bandinu þínu vantar er alvöru drottning“. Homme hélt að þarna væri einhvern að gera grín en svaraði um hæl „hunang… þú segir ekki“ og úr varð lagið „Fairweather Friends“. Heimsskauta apinn Alex Turner  lætur á sér bera á …Like Clockwork og auk þess að spila á gítar og syngja í laginu „If I Had a Tail“ semur hann texta við lagið „Kalopsia“ en  níu tommu naglinn Trent Reznor hjálpar til með að koma textanum til skila.
Þó svo …Like Clockwork hafi að geyma allan þennan hóp af gestaspilurum og söngvörum þá er platan af eyðimerkurokk/hasshausarokk stílnum og keimlík fyrri plötum sveitarinnar þó ekki jafn þung og þær þyngstu. Meðlimir voru ekkert að kikna í hnjáliðunum þó að Sir Elton væri  mættur í stúdíó og semja dramatíska ballöðu heldur varð drottningin bara að gjöra svo vel og rokka. Sexí gítarsóló, smá „growl“ í boði Trent Reznor og djúsí „fuzz“;  það er enginn alvöru rokkari að fara kvarta undan þessum gæða grip þó svo þetta sé kannski ekki besta plata Queens of the Stone Age til þessa.

Daníel Pálsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *