Fimmta plata Deerhunter

Hljómsveitin Deerhunter frá Atlanta tilkynnti á facebook síðu sinni fyrr í dag um útgáfu sinnar fimmtu plötu sem kemur út 7. maí og nefnist Monomani. Platan var tekin upp í New York borg fyrr á þessu ári og fylgir á eftir plötunni Halcycon Digest frá árinu 2010 sem toppaði lista Straums yfir bestu plötur ársins. Fyrir neðan má sjá lagalista plötunnar.

01 Neon Junkyard
02 Leather Jacket II
03 The Missing
04 Pensacola
05 Dream Captain
06 Blue Agent
07 T.H.M.
08 Sleepwalking
09 Back to the Middle
10 Monomania
11 Nitebike
12 Punk (La Vie Anté:rieure)

Nýtt frá Sigur Rós

Hljómsveitin Sigur Rós gáfu í dag út fyrstu smáskífuna af væntanlegri plötu sem nefnist Kveikur og kemur út á vegum XL Recordings, á þjóðhátíðardag íslendinga þann 17. júní næstkomandi. Lagið sem nefnist Brennisteinn er mikil stefnubreyting frá síðustu plötu þeirra Valtari sem kom út í fyrra.

Ljósmynd: Lilja Birgisdóttir

Tónleikahelgin 21.-24. Mars

Þessa helgi eins og allar helgar er nóg að gerast í tónlistarlífi höfuðborgarinnar, það eina sem þarf er að leita eftir því. Straumur vonar að þessi samantekt geti orðið tónþyrstum sálum einhver hjálp í þeim efnum.

Fimmtudagur 21. mars

Heiladanskvöldin hafa um langt skeið hafið framsækna danstónlist til vegs og virðingar á Íslandi og í kvöld á Hemma og Valda munu koma fram Bistro Boy, Steve Sampling, Skurken og Bypass. Tónleikarnir hefjast klukkan 10 og aðgangur er ókeypis.

 

Á Volta verður hljóðgervlaþema en þar koma saman rauðskeggjaði 80’s dýrkandinn Berndsen og Housedívurnar í Sísí Ey. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn á herlegheitin.

Föstudagur 22. mars

Á stúdentakjallaranum verður slegið upp heljarinnar dansiballi en þar munu stíga á stokk diskóboltarnir í Boogie Trouble og þjóðlagapoppsveitin 1860. Að tónleikunum loknum munu kanilsnældur þeyta skífum eins lengi og lög um opnunartíma veitingastaða leyfa. Aðgangur er ókeypis.

 

Biggi Hilmars sem er þekktastur fyrir söng sinn með hljómsveitinni Ampop treður upp á Faktorý. Biggi gaf nýverið út sólóskífuna All we can be og verða lög leikin af henni og einnig frumsýnt nýtt myndband sem að myndlistarkonan María Kjartansdóttir gerði við lagið Fools af plötunni. Aðgangseyrir er 1500 krónur og tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 10.

Laugardagur 23. mars

Tónlistarveitan Gogoyoko efnir til tónleika í Stúdentakjallaranum en þar koma fram skóglápararnir í Oyama og tilraunapoppdúettinn Nolo. Oyama gáfu í janúar út EP-plötuna I Wanna og snéru nýverið heim úr afar vel heppnuðu tónleikaferðalagi í Noregi og Englandi þar sem þau léku m.a. á ByLarm hátíðinni í Olsó. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og tekið er fram að þeir hefjist afar stundvíslega klukkan 21:00.

 

Á Faktorý verður boðið upp á Reggíveislu en á efri hæð staðarins verða Ojba Rasta með tónleika klukkan klukkan 22:00 og í hliðarsal verða síðan plötusnúðar úr hópnum RVK Soundsystem sem þeyta skífum inn í nóttina. Á tónleikana með Ojba Rasta kostar þúsund krónur en enginn aðgangseyrir er að RVK Soundsystem kvöldinu í hliðarsalnum. Þá er vert að minnast á það að eistneskur gestasnúður, Tarrvi Laamann, mun vera RVK Soundsystem-liðum til halds og trausts en hann er meðlimur í plötusnúðahópnum Bashment KingzSound.

 

Boogie Trouble verða aftur á ferðinni á laugardagskvöldinu en í þetta skiptið munu þau hengja upp diskókúlu sína á rokkbarnum Dillon. Í tilkynningu frá sveitinni kemur fram að markmið hennar sé að færa Diskó inn á hvert heimili landsins og láta miskunnarleysi grúvsins hrista pöpulinn upp úr sófunum til að slengja skönkunum til í hrynþrunginni tilbeiðslu. Hvort þetta verður að veruleika á Dillon eða ekki látum við áhorfendur um að dæma. Þá kemur einnig fram að sveitin er um þessar mundir að vinna í upptökum á sinni fyrstu breiðskífu í samstarfi við Hermigervil.

Sunnudagur 24. mars

Nóra blása til útgáfutónleika í Iðnó í tilefni af útkomu annarrar breiðskífu sinnar, “Himinbrim”, sem kom út skömmu fyrir jól. Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, og mun sveitin fá til liðs við sig strengjakvartett og slagverksleikara til að koma plötunni í heild sinni sem best til skila. Platan var tekin upp víða, m.a. í Orgelsmiðjunni og Sýrlandi og annaðist hljómsveitin sjálf upptökur á henni ásamt Magnúsi Öder. Hún hefur hlotið góðar viðtökur og lenti meðal annars á árslistum ýmissa tónlistarspekúlanta fyrir síðasta ár. Miðaverð er 1900 krónur og um upphitun sér tónlistarkonan Jara.

Kurt Vile frumsýnir nýja smáskífu

Kurt Vile sleppti frá sér fyrstu smáskífunni af væntanlegri plötu sinni Walkin on a Pretty Daze í gær. Vile kom fram í auglýsingu á CW sjónvarpsstöðinni í Philadelphia ásamt þriggja ára dóttur sinni og spilaði lagið Never Run Away af vinyl. Walkin on a Pretty Daze kemur út 9. apríl, horfið á auglýsinguna hér fyrir neðan.

Snoop Lion berst gegn byssum

Listamaðurinn sem áður kallaði sig Snoop Dogg gaf út nýtt lag af væntanlegri reggíplötu sinni í dag sem er í nokkurri andstöðu við boðskap bófarappsins sem hann er þekktastur fyrir. Lagið ber heitið No Guns Allowed og er pródúserað af Diplo, skartar gestaversi frá Drake og byggir á hljóðbút úr laginu Nantes með indísveitinni Beirut. Platan Reincarnated kemur út þann 23. apríl og hefur Snoop Dogg (áður þekktur sem Snoop Doggy Dogg) breytt listamannsnafni sínu í Snoop Lion í tilefni útgáfunnar. Þá var gerð heimildarmynd samnefnd plötunni um tilurð hennar sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum vestanhafs og vonandi skilar sér á Íslandsstrendur með tíð og tíma. Hægt er að hlusta á lagið No Guns Allowed hér fyrir neðan.

Safnskífa með Giorgio Moroder

Ítalski upptökustjórinn og lagahöfundurinn Giorgio Moroder mun þann 22. apríl gefa út safndisk með gömlu og sjaldgæfu efni frá árunum 1966 til 1975. Moroder er þekktastur fyrir samstarf sitt við Donnu Summer og kvikmyndatónlist við myndir eins og Scarface, Flashdance og Top Gun en á fyrri hluta ferilsins fékkst hann helst við tyggjókúlupopp. Af Moroder fréttist það síðast að hann hafi unnið með dúettnum Daft Punk að þeirra nýjustu plötu auk þess sem hann stofnaði Soundcloud síðu á síðasta ári þar sem hann hlóð upp ýmsu sjaldgæfu efni af löngum og farsælum ferli. Platan hefur hlotið heitið Schlagermoroder (Volume 1: 1966-1975) og gæti því verið sú fyrsta af mörgum skífum en á henni má meðal annars finna lagið Son of my Father frá 1972 sem má hlýða á hér fyrir neðan.

Brot úr lögum af nýju Strokes plötunni

Fimmta plata bandarísku indie-rokk hljómsveitarinnar The Strokes frá New York, Comedown Machine kemur út 26. mars. Fyrsta smáskífan af plötunni heitir All the Time og kom út 19. febrúar. Nú hefur Amazon söluvefurinn sett inn 30 sekúnda brot af öllum lögunum af plötunni og má hlusta á þessi brot hérÞau gefa til kynna að nýja platan verði ólík öllu sem hljómsveitin hefur áður sent frá sér. Hljómsveitin sendi frá sér mynband við lagið All the Time  fyrir helgi og var það samansafn af gömlum tónleikaupptökum og hafa því margir aðdáendur hljómsveitarinnar spurt sig hvort Comedown Machine sé svanasöngur The Strokes?

Uppfært klukkan 20:09 18/03/2013

Upphafslagið á plötunni Tap it má heyra í heild sinni hér fyrir neðan, heyra má áhrif frá Michael Jackson í því:

Hér er svo öll platan eins og hún leggur sig!

 

Tónleikadagskrá helgarinnar

Fimmtudagur 14. mars

Hljómsveitin Bloodgroup gaf nýverið út sína þriðju plötu, Tracing Echoes. Af því tilefni blæs sveitin til heljarinnar útgáfutónleika í Iðnó. Hægt er að kaupa miða hér: http://midi.is/tonleikar/1/7507  Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, en Bloodgroup heldur síðan í tónleikaferð um Evrópu til að fylgja eftir plötunni og því er þetta síðasta tækifæri til að sjá sveitina í Reykjavík um óákveðinn tíma. Hljómsveitin Samaris sér um upphitun á tónleikunum

Fyrstu tónleikarnir í nýrri tónleikaröð á Faktorý í samstarfi við Tuborg – Grasrótin á Faktorý hefjast í kvöld. Á fyrstu tónleikunum munu hljómsveitirnar Kajak og Dreamcast koma fram. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 22 og er frítt inn. Bent er á að hljómsveitir og tónlistarmenn sem hafa áhuga á að koma fram á Grasrótinni á Faktorý geta sent umsóknir á bokanir@faktory.is

Reykjavík Sex Farm kynnir hið dularfulla kvöld Death Is Not The End á Litlu gulu hænunni. Þar koma fram; Queerwolf frá Montreal og DJ Ravensclaw (aka Krummi úr Legend). Miðaverð er 500 og hefst kvöldið klukkan 21:30.

 

 

Föstudagur 15. mars:

Hljómsveitin Nóra mun spila á ókeypis tónleikum á Dillon sem hefjast klukkan 22:00

Hljómsveitirnar Jan Mayen og Morgan Kane halda tónleika á Bar 11 og er ókeypis inn. Jan Mayen gerðu garðinn frægan á síðasta áratug og hafa spilað á vel völdum stöðum undanfarna mánuði. 

Á Kaffistofunni verða haldnir tónleikar með Helga Mortalkombat, Sindra Eldon & The Ways og Tamarin/(elWis). Hefjast þeir á slaginu 20:00

Tónleikar til styrktar Geðhjálp fara fram á KEX klukkan 20:30 og er miðaverð 1500 kr. Fram koma: Robert The Roommate, Ylja og Ultra Mega Technobandið Stefán.

 

Breski plötusnúðurinn Midland þeytir skífum á Volta. Til upphitunar verða íslensku DJarnir Skeng og Jon Edvald. Húsið opnar kl. 23:00. Miðinn kostar aðeins 1000 kr. í forsölu á Miði.is. Midland er þekktur fyrir óhefðbundinn hljóðheim sinn þar sem saman blandast rætur techno og house tónlistar, með bassahljómi úr dubstep tónlist auk tilraunakenndra hljóma úr sígildri elektróníku.

 

 

Laugardagur 16. mars

Hljómsveitin MUCK mun halda sína fyrstu tónleika á árinu á Dillon við Laugarveg. Hljómsveitin er nýkomin heim frá New York þar sem hún vann að nýju efni af komandi plötu sem mun líta dagsins ljós seinna á árinu. Ekkert kostar inn og tónleikarnir hefjast 23:00.

Reyk Veek í samstarfi við Reykjavík Fashion Festival og Reyka Vodka kynna viðburðinn ULTRA VIOLENCE á Volta sem er blanda af tónlist, tísku og klúbba upplifun. Þeir sem koma fram eru:Karíus, Juan Solo, D’or, Orang Volante og Thizone. Aðgangseyrir er 1000 kr og hefst fjörið um miðnætti. 

Útgáfutónleikar John Grant í Silfurbergi Hörpu, í tilefni af útgáfu nýju plötunnar, Pale Green Ghosts. Það kostar 6400 kr inn og tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.
Sunnudagur 17. mars

Bandaríski tónlistarmaðurinn Colin Stetson heldur tónleika á Volta. Stetson er saxófónleikari frá Michigan fylki Bandaríkjanna en hefur gert út frá Montreal í Kanada undanfarin ár. Hann hefur starfað með fjölmörgum tónlistarfólki og hljómsveitum síðustu árin samhliða því að reka sinn eigin sólóferil. Arcade Fire, Tom Waits, TV on the Radio, Bon Iver, LCD Soundsystem, The National, David Byrne og Feist eru meðal þeirra sem hafa unnið með Colin Stetson. Um upphitun sér Úlfur og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00. 

Ezra Koenig syngur með Major Lazer

Í dag var nýtt lag af væntanlegri Major Lazer plötu spilað í bandarískum útvarpsþætti en í því njóta þeir aðstoðar raddabanda Ezra Koenig, söngvara Vampire Weekend. Lagið heitir Jessica og er rólegt reggílag af gamla skólanum með miklum döbb-áhrifum en þó nútímalegum blæ og falsetta Koenigs hæfir því einkar vel. Útgáfudegi plötunnar Free the Universe hefur ítrekað verið frestað en hann verður samkvæmt nýjustu fregnum þann 15. apríl næstkomandi. Fyrsta lagið sem heyrðist af plötunni var Get Free sem kom út fyrir um ári síðan en það var valið næstbesta lag síðasta árs af ritstjórn straum.is. Hlýðið á upptöku af laginu hér fyrir neðan ásamt Get Free.