Fyrsta plata reykvísku sveitarinnar Grísalappalísu kemur út í dag og ber hún heitið Ali. Platan er ferskur andblær í íslenska tónlistarsenu, hrærigrautur af fönkuðu pönki, nýbylgju og súrkáli með íslenskum textum sem eiga meira skylt við ljóð en hefðbundna rokktexta. Í tilefni af útgáfunni verður haldið teiti á KEX Hostel klukkan 20:00 í kvöld en þá verður frumsýnt myndband við lagið Hver er ég? Léttar veigar verða í boði og hljómsveitirnar Amaba Dama og Létt á bárunni leika fyrir dansi og gleði.