Straum.is er snemma í því að þessu sinni að taka saman tónleika helgarinnar vegna þess að miðvikudagskvöldið er óvenju öflugt í tónleikahaldi í þessari viku. Lesið, njótið og mætið.
Miðvikudagur 10 júlí
Síðustu daga Faktorý nálgast nú óðum og undanfarið hafa ýmsir þekktir tónlistarmenn kvatt þennan ástkæra tónleikastað með því sem þeir kunna best, að halda hljómleika. Í kvöld munu Sin Fang og Pascal Pinion segja bless við Faktorý en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.
Hin aldna söngdíva Dionne Warwick syngur á stórtónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Hana er óþarfi að kynna en ennþá eru til miðar á midi.is
Breski plötusnúðurinn Mixmaster Morris sem kominn er hingað til lands til að leika á Extrem Chill hátíðinni á Hellissandi mun þeyta skífum í plötubúðinni Lucky Records frá 16 til 19 í dag.
Grísalappalísa heldur útgáfugleðskap á Kex Hostel sem hefst klukkan 20:00. Glænýtt tónlistarmyndband verður frumsýnt og veigar verða í boði, auk þess sem reggísveitin Amaba Dama stígur á stokk. Aðgangur er ókeypis.
Fimmtudagur 11. júlí
Samaris halda útgáfutónleika á Volta af því tilefni að EP-plöturnar Hljómar Þú og Stofnar falla hafa nú verið gefnar út saman í einum pakka, en þær voru uppseldar og þess vegna ófáanlegar. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur, eða 2500 og þá fylgir geisladiskurinn með. Einnig koma fram Yagya og Dj Yamaho.
Skúli Mennski er nýkominn í bæinn eftir vel heppnaða tónleikaferð um landsbyggðina og til að fagna því slær hann upp uppskeruhátíð á Rósenberg. Þar munu Skúli mennski og Robert the Roommate tefla fram sínu allra besta eftir túrinn. Herlegheitin hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 1500.
Fjöllistahópurinn Tónleikur kemur fram á Loft Hostel. Leikurinn og leikarnir hefjast klukkan 20:30 og aðgangseyrir er enginn eins og venjulega.
Þetta kvöldið verða það rapparar sem sjá um að kveðja Faktorý þegar Forgotten Lores, Heimir BjéJoð (úr Skyttunum), B-Ruff og nýstirnið Kött Grá Pé leiða saman hesta sína og rímur. Dyrnar opnast 21:00, rappleikarnir hefjast klukkutíma síðar og það kostar 1500 inn, en stór bjór fylgir fyrir þá 150 fyrstu sem kaupa sig inn.
Klukkan 20:00 mun áhöfnin á Húna sigla til Reykjavíkur og halda risatónleika í Gömlu höfninni í Reykjavík. Sem fyrr ætlar áhöfnin að styrkja björgunarsveitirnar í landinu með því að gefa alla vinnu sína og rennur aðgangseyrir beint til björgunarsveitanna í Reykjavík. Téður eyrir er 1500 krónur en ókeypis er einn fyrir börn 12 ára og yngri.
Hljómsveitin Ylja spilar hugljúfa folk tónlist í gróðurhúsi Norræna hússins á ókeypis Pikknikk tónleikum klukkan 17:00.
Föstudagur 12. júlí
Hljómsveitin Bárujárn og tónlistarmaðurinn Jón Þór leiða saman bikkjur sínar og glamra á gaddavíra á Hressó í kvöld. Brimbrettarokksveitin Bárujárn gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu og fyrsta plata Jón Þórs, Sérðu mig í Lit, fékk góðar viðtökur þegar hún kom út seint á síðasta ári. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og það er ókeypis inn en hægt verður að kaupa plötur af listamönnunum á staðnum.
Tónleikarnir Upp rís úr rafinu, sem helgaðir eru akústískri raftónlist, verða haldnir í Kaldalóni Hörpu klukkan 20:00. Þar munu tónskáldin Árni Guðjónsson, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Finnur Karlsson, Gunnar Gunnsteinsson, Halldór Smárason og Haukur Þór Harðarson temja skepnur rafsins hver á sinn hátt svo þær leiki um skyn áheyrandans ýmist í samhljómi með akústískum hljóðfærum eða syngjandi einar síns liðs. Aðgangseyrir er 1500 krónur.
Að lokum er vert að minnast á tvær frábærar en mjög ólíkar tónlistarhátíðir sem hefjast báðar á föstudeginum, Raftónlistarveisluna Extreme Chill á Hellissandi á Snæfellsnesi og svo þungarokkshátíðin Eistnaflug sem haldin er á Neskaupstað. Hátíðirnar standa fram á sunnudag.
Laugardagur 13. júlí
Listamenn af Rauðasandi Festival 2013 ætla að þakka fyrir sig með tónleikum á Gamla Gauknum en fram koma Nolo, Babies, Amaba Dama og Hljómsveitt. Ballið hefst klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.
Síðasta fastakvöld RVK Soundsystem verður haldið á Faktory í hliðarsalnum og hefst það að venju á slaginu miðnætti.