Helgin byrjar að venju snemma á straum.is og hér verður farið yfir það markverðasta í tónlistarflutningi á höfuðborgarsvæðinu fram yfir helgi.
Miðvikudagur 18. september
Snorri Helgason og hljómsveit gáfu út sína þriðju plötu, Autumn Skies, 13. september síðast liðinn og að því tilefni mun sveitin blása til útgáfutónleika í Fríkirkjunni. Sveitin mun leika tónlist af nýju plötunni í bland við efni af tveimur eldri plötum sveitarinnar, I’m Gonna Put My Name On Your Door (2009) og Winter Sun (2011). Áður en Snorri Helgason stígur á stokk munu tónlistarmennirnir Skúli Sverrisson og Óskar Guðjónsson flytja nokkur lög af plötunni The Box Tree (2012) sem hlaut m.a. verðlaun fyrir hljómplötu ársins í flokki djass og blús á Íslensku tónlistarverðlaununum í vor. Dyr Fríkirkjunnar opna klukkan 19:30 en tónleikarnir hefjast stundvíslega hálftíma síðar, aðgangseyrir er 2500 krónur. Eftirpartý eftir tónleikana verður haldið á Harlem þar sem Múm, Hjaltalín, FM Belfast og Sin Fang verða með DJ sett, en þangað er ókeypis inn.
Rafpopparinn Kristján Hrannar sem áður var í þjóðlagasveitinni 1860 heldur útgáfutónleika fyrir plötu sína Anno 2013 sem kom út fyrir skemmstu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 í þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og aðgangseyrir er 2500 krónur. Einar Lövdahl sem einnig gaf út sína fyrstu plötu nýlega sé um upphitun.
Allt er þegar þrennt er, en trommarinn Ásgeir Óskarsson fagnar einnig útgáfu á plötu sinni, Fljúgðu með mér, í Kaldalónssal Hörpu. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3500 krónur.
Fimmtudagur 19. september
Kanadíska skóglápssveitin Beliefs kemur fram á Harlem en tónleikarnir eru fyrsta stoppið í löngum Evróputúr sem er framundan hjá bandinu. Mikið suð hefur verið í kringum sveitina á miðlum eins og Pitchfork, Steregum, NME og Guardian og áhugamenn um marglaga gítarveggi og effektapedala ættu ekki að láta sig vanta. Um upphitun sjá Re-Pete og The Wolf Machine en tónleikarnir hefjast klukkan 22:00. Aðgangseyrir er 1000 krónur og gestum er bent á að koma með reiðufé því ekki verður posi á staðnum, þrátt fyrir að hraðbanka sé auðvitað að finna í næsta nágrenni við Harlem.
Hljómsveitin 1860 gaf nýverið út sína aðra hljóðversplötu, Artificial Daylight, og halda í tilefni af útgáfu hennar tónleika í Iðnó. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.
Föstudagur 20. september
Kanadíska rokksveitin The Stanfield heldur tónleika á KEX Hostel. Hljómsveitin er á leið í tónleikaferð til Evrópu og ákváðu að skella í eina órafmagnaða tónleika í stuttu stoppi þeirra á Íslandi. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og ókeypis er á tónleikana.
Skoski tónlistarmaðurinn Ste Mccabe kemur fram á Dillon. Hann spilar electro pönk í anda Rapeman og Big Black en um upphitun sjá Re-Pete & The Wolf Machine. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangur er ókeypis.
Miðnæturtónleika Hide Your Kids á Gauknum. Það er frítt inn og húsið opnar klukkan 24:00. Hide your kids stígur á svið klukkan 00:30
Laugardagur 21. september
Við leggjum ekki í vana okkar að auglýsa kvikmyndasýningar í þessum lið en þó verður ekki hjá því komast að vekja athygli á því að heimildamyndin Shut Up And Play The Hits, verður sýnd í Bíó Paradís klukkan 20:00. Myndin fjallar um lokatónleika sveitarinnar LCD Soundsystem sem voru haldnir í Madison Square Garden í New York fyrir tveimur árum síðan. Tónleikaatriði myndarinnar eru mögnuð og nokkrir bjórar yfir sýningunni eru tilvalin byrjun á laugardagskvöldi. Miðaverð er einungis 700 krónur en evrópskri dansmenningu verður fagnað eftir sýninguna þar sem DJ Yamaho og DJ Housekell munu halda uppi evrópskri klúbbastemningu fram á rauða nótt.
Sænska postmetalhljómsveitin Cult of Luna stígur á stokk á Gamla Gauknum. Hljómsveitin hefur verið starfrækt síðan 1998 og er oft nefnd í sömu andrá og Neurosis og Isis en nýjasta plata þeirra, Vertikal, hefur hlotið nær einróma lof erlendra miðla. Um upphitun sjá ein fremsta hljómsveit íslensku þungarokkssenunnar, Momentum ásamt Wackenhetjunum í Gone Postal og dauðarokkurunum í Angist. Húsið opnar kl. 22:00 og miðinn kostar 2500 kr í forsölu.