Fyrsta helgi haustsins heilsar okkur með helling af tónleikum og hér verður farið yfir það helsta sem er á boðstólum.
Fimmtudagur 5. september
Rafpopphljómsveitin Sykur kemur fram á Live-kvöldi Funkþáttarins á Boston. Aukahljóðkerfi verður sett upp á staðnum fyrir tónleikana og bjórinn verður á sérstöku Funkþáttartilboði. Aðgangur er ókeypis og tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00.
Hljómsveitin múm gefur út plötuna Smilewound föstudaginn 6. september og ætlar af því tilefni að bjóða til hlustunarhófs í GYM & TONIC sal KEX Hostels. Hófið hefst klukkan 20:00 og boðið verður upp á léttar veitingar, hljómplatan leikin í heild sinni, sérstakt forsölutilboð verður á plötunni og nýtt tónlistarmyndband frumsýnt.
Sontag Shogun frá Bandaríkjunum koma fram ásamt Japam á Bravó. Sontag Shogun er tríó frá Brooklyn sem spilar sveimkennda tónlist fyrir píanó og rafhljóð, en hún sækir í nútímaklassík, spunatónlist og ambient í sköpun sinni. Japam er tónlistarverkefni Sigga Odds sem er betur þekktur fyrir grafíska hönnun en hefur þó verið í harðkjarnasveitunum Mínus og Snafu. Í Japam er áherslan þó meira á hljóðgervladrifið popp. Tónleikarnir byrja stundvíslega 22:15 og aðgangseyrir er enginn.
Pink Street Boys og Ofvitarnir blása til rokkveislu á Dillon sem hefst 22:00 og ókeypis er inn.
Benny Crespo’s Gang, Pétur Ben og Vök stíga á stokk á Gamla Gauknum. Dyrnar opnast 21:00, tónleikarnir hefjast 22:00 og 1000 krónur veita aðgang að gleðinni.
Plötsnúðagengið í RVK Soundsystem misstu nýlega höfuðstöðvar sínar á Hemma og Valda og Faktorý en hafa nú fært sig yfir á Dollý. Þeir munu spila reggae, dub og dancehall og skífusnúningurinn hefst klukkan 22:00 og stendur yfir til lokunar og ókeypis er inn.
Föstudagur 6. september
Á undiröldu tónleikaseríu Hörpunnar koma fram Pink Street Boys og Knife Fights. Pink Street Boys var stofnuð á grunni sækadelik sveitarinnar Dandelion Seeds og spila að eigin sögn rokktónlist á sterum, syngja frá hjartanu og spila nógu andskoti hátt. Knife Fights er tríó sem inniheldur meðlimi úr Gang Related og Morðingjunum og eru undir miklum áhrifum frá indítónlist níunda og tíunda áratugarins. Tónleikarnir eru í Kaldalónssal Hörpunnar og hefjast 17:30 en aðgangur er ókeypis.
Nýsálarsveitin Moses Hightower spilar á nýnematónleikum Bláa Kortsins í Stúdentakjallaranum. Gamanið hefst 22:30 og það er fríkeypis inn.
Útvarpsstöðin X-ið stendur fyrir Jack Live kvöldi á Gamla Gauknum en þar koma fram Vintage Caravan, Jan Mayen og Kaleo. Tónleikarnir byrja klukkan 23:00 og það kostar 800 krónur inn.
Jón Þór og Knife Fights leika fyrir dansi og slammi á Bar 11 og munu hefja leik 22:00 en algjörlega ókeypis er inn.
Laugardagur 7. september
Rokktríóið kimono gaf nýverið út stuttskífuna Aquarium sem inniheldur tæplega 20 mínútna langt lag samnefnt plötunni. Í plötubúðinni Luvky Records á laugardeginum munu Kimono leika þetta framsækna lag á klukkutímafresti meðan búðin er opin, fyrsti flutningurinn hefst klukkan 11:00 og sá síðasti klukkan 17:00.