Tónleikahelgin 2.-5. Október

Fimmtudagur 2. október

 

Uni Stefson, betur þekktur sem Unnsteinn í Retro Stefson, kemur fram með sólóverkefni sitt í kvöld á Boston. Eftir rómaða fyrstu tónleika Unnsteins með nýrri hljómsveit á Kex fyrr í haust stígur hann aftur á stokk á Livekvöldi Funkþáttarins og tónleikarnir hafa einnig því hlutverki að gegna að kynna fyrstu útgáfu hans, EP1. Uni Stefson hefur leik klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.
Hip Hop Kvöld verður á Gauk á Stöng en fram koma MC Bjór og Bland, Valby bræður, Þriðja Hæðin og Alexander Jarl og Guðmundur ásamt Kilo. Einnig verður frumsýnt nýtt myndband á viðburðinum en dyrnar opna klukkan 20:00 og aðgangseyrir er enginn.

 

Hljómsveitirnar Kraðak, Qualia og CeaseTone spila á Dillon. Hefst 22:00 og ókeypis inn.

 

Föstudagur 3. Október

 

Diskóhnettirnir í Boogie Trouble og rapphundarnir í MC Bjór og Bland slá upp heljarinnar dansiballi á Húrra. Gestum er ráðlagt að koma með skó í betri kantinum og sokka til skiptanna en dansinn byrjar að duna 23:00 og fríkeypis er inn.

 

Prins Póló spilar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Tónleikarnir hefjast 21:00 en aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Gyða Valtýsdóttir og Shahzad Ismaily munu leika lög og verk eftir sjálfa sig og aðra í Mengi. Þau eru farandstónlistarlistarfólk sem leika um allar trissur landfræðilega séð sem og í víddum og breiddum tónlistarheima. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðganseyrir er 2000 krónur.

 

Þungmálmsveitin Alchemia fagnar útgáfu hljómplötunnar INSANITY með tónleikum á Gauknum. Húsið opnar 20:00 en tónleikarnir hefjast 22:30. Aðgangur er ókeypis en hægt verður að kaupa plötuna og annan varning á staðnum en þá er vissara að hafa reiðufé meðferðis.

 

Laugardagur 4. Október

 

Rapparinn Sage Francis kemur fram á tónleikum á Húrra en um upphitun sér Lord Pusswhip ásamt Vrong. Fimmta hljóðvers plata Sage, Copper Gone, kom út fyrr á árinu og hefur hún hlotið rokna góða dóma um heim allan en tónleikarnir eru fyrsta stopp Sage á tæplega 40 gigga Evróputúr. Tónleikarnir hefjast 22:00 og hægt er að kaupa miða á 2500 krónur á midi.is

 

Sunnudagur 5. október

Lord Pusswhip og Vrong koma fram á Húrra og hefja leik 21:00. Aðgangur er ókeypis.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *