Mynd: Alexander Matukhno
Síðasta sumar höfðu undirritaðir fengið sig fullsadda af skorti á tónlistarumfjöllun á hinum íslenska hluta alnetsins og tóku höndum saman um stofnun nýrrar síðu, þeirrar sem þú ert að lesa núna. Undanfarið ár höfum við haldið úti reglulegri umfjöllun um nýja og ferska tónlist, íslenska sem erlenda, og höfum í því skyni birt yfir 400 fréttir á vefnum. Á liðnu ári höfum við einnig bætt við okkur pennum og hafið samstarf við tímaritið Grapevine þar sem við erum með dálk og förum yfir helstu fréttir úr íslenskri tónlist. Þann 21. júlí síðast liðinn var eins árs afmæli síðunnar og það kom svo flatt upp á okkur að við höfðum ekki tíma til að skipuleggja hátíðarhöld, fyrr en nú. Í dag á vefritið eins árs, eins mánaðar og eins dags afmæli og í tilefni af því sláum við upp veislu á skemmtistaðnum Harlem. Kammerpoppsveitin Útidúr og Lo-fi tilraunabandið Just Another Snake Cult munu stíga á stokk og leika listir sínar en báðar komu við sögu á árslista vefritsins fyrir síðasta ár. Ritstjórnarfulltrúar straum.is munu þeyta skífum fyrir dansi í hliðarsal og eftir tónleikana og eitthvað af ókeypis bjór verður í boði fyrir stundvísa gesti, en hátíðarhöldin hefjast klukkan 21:00. Við bjóðum alla lesendur og ömmur þeirra hjartanlega velkomna til að fagna með okkur og lofum að láta ekki deigan síga heldur bæta bara í á næsta starfsári síðunnar.
Óli Dóri og Davíð Roach