Íslenska rafpoppsveitin Asonat gefur út sína aðra plötu þann 30. september. Á nýju skífunni er upprunalega tvíeykið með þá Jónas Þór Guðmundsson (Ruxpin) og Fannar Ásgrímsson (Plastik Joy) innanborðs orðið að tríói með innkomu frönsku söngkonunnar Olènu Simon. Þar sem meðlimir sveitarinnar eru búsettir bæði í Reykjavík og Tallinn þá átti gerð breiðskífunnar sér langan aðdraganda, en líkt og nafn skífunnar gefur til kynna þá er það sú óræða tenging milli meðlima sveitarinnar sem gerir hana svo sérstaka og áhugaverða.
Samkvæmt hjómsveitinni er Þema skífunnar tenging milli einstaklinga – eða réttara sagt skortur á tengingu. “Lögin hafa að geyma texta um glötuð tækifæri og glataðar tengingar milli ástvina.”. Á plötunni eru tíu frumsamin lög með sveitinni og er hér á ferðinni ein af betri útgáfum á Íslandi á þessu ári. Hápunktar plötunnar eru hið fallega opnunarlag Quiet Storm, hið draumkennda Rather Interesting og lokalagið This Is The End þar sem Simon syngur á móðurmáli sínu. Platan var til umfjöllunar í síðasta þætti af Straumi og má heyra lögin Quiet Storm og Rather Interesting í þættinum á 36. mínútu.
Straumur 25. ágúst 2014 by Straumur on Mixcloud
Hér fyrir neðan má sjá þá Jónas og Fannar koma fram í listasmiðju í Rússlandi í fyrra.