Ný Boards of Canada plata kemur 10. júní

Ný plata með skosku ambíentbræðrunum í Boards of Canada kemur út þann 10. júní næstkomandi á vegum Warp útgáfunnar. Þetta var tilkynnt rétt í þessu á heimsíðu Warp og þykja mikil tíðindi en síðasta breiðskífa þeirra kom út 2005 og ekkert hefur heyrst af þeim frá EP-plötunni Trans Canada Highway sem kom út 2006. Nýja platan ber titilinn Tomorrow’s Harvest og inniheldur 17 lög og umslagið má sjá í fréttamyndinni. Tilkynningin kemur í kjölfarið á undarlegri atburðarás sem hófst fyrir um 10 dögum þegar vínilplata merkt sveitinni fannst í plötubúð í New York á alþjóðlega plötubúðadeginum. Á plötunni var ekkert nema 20 sekúndna hljóðbútur og rafræn rödd sem las upp 6 stafa talnaröð. Umslag plötunnar gaf síðan til kynna að sex slíkar runur væru til og staðsetningu þeirrar sem prýddi plötuna. Tvær aðrar talnarunur voru síðar spilaðar í útvarpsþáttum á BBC og NPR og sú fjórða fannst í youtube myndbandi. Sú fimmta kom síðan í leitirnar eftir að kóði af auglýsingaborða á BOC spjallborði var settur inn í wordpad og komu þá í ljós tveir hlekkir á soundcloud síður sem báðir innhéldu einungis suð. Ef hljóðdæmin eru hins vegar spiluð bæði á sama tíma heyrist tóndæmi svipað hinum og fimmta talnarunan í gátunni.

Þá birtist auglýsing frá sveitinni á Cartoon Network sjónvarpsstöðinni um helgina en í henni heyrist talnaröðin sem spiluð var í NPR og staðsetning hennar er gefin upp. Ekkert bólar enn á sjöttu og síðustu talnarununni og enginn veit enn út á hvað þetta allt saman gengur, en fyrir áhugamenn um talnaspeki er þetta tölurnar sem eru komnar: 699742 / 628315 / 717228 / 936557 / —— / 519225. Það sem mestu máli skiptir er þó að Boards of Canada eru vaknaðir úr dvalanum og því fagna allir góðir menn. Fyrir neðan er hægt að horfa á auglýsinguna sem birtist á Cartoon Network auk eina myndbandsins sem sveitin hefur gert, við lagið Dayvan Cowboy af plötunni Campfire Headphase.

Update: Síðasta talnarunan hefur nú litið dagsins ljós með aðferðum sem eru of flóknar fyrir fréttaritara straums að skilja til fullnustu með sinni takmörkuðu tölvuþekkingu. En í stuttu máli, ef talnarunan 699742628315717228936557813386519225 er slegin inn sem password á dularfullri vefsíðu fá menn aðgang að stiklu fyrir nýju plötuna. Til að spara lesendum þá vinnu hefur einhver góðhjartaður einstaklingur hlaðið henni inn á youtube og þið getið horft á hana hér fyrir neðan.


 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *