Laugardagskvöld á Sónar

Á þriðja degi Sónarsins var ég mættur í Hörpu klukkan 8 að sjá nýstyrnið Karó í Norðurljósasalnum. Hún söng munúðarfullt og nútímalegt R og B ásamt hljómsveit sem innihélt meðal annars Loga Pedro sem pródúserar hana. Næstur á svið í sama sal var svo einn efnilegasti rappari landsins um þessar mundir, GKR. Hann kom fram klæddur í hvítt frá toppi til táar og lék á alls oddi. Hann rappaði af lífs og sálarkröftum og hoppaði og skoppaði fram og til baka um allt sviðið. Það er ekki vottur af tilgerð í honum og einlægnin og gleðin yfir því að vera á sviðinu þetta kvöld skein úr hverju orði og hreyfingu.

 

Ég hélt mig á sama stað en Sturla Atlas var næstur á svið og þá var aldeilis búið að fjölga í salnum og æskan söng hástöfum með 101 Boys og San Fransisco. Ég náði nokkrum mínútum af settinu hans B-Ruff á Sonarpub sem spilaði hip hop skona raftónlist þar sem rímix af Dead Prez gladdi mig mikið.

 

Hudson droppar

 

Ofurpródúserinn Hudson Mohawke var næstur í Silfurbergi og maxímalista trap-tónlistin hans fékk allan salinn á hreyfingu. Það voru bassadrop, massív ljós og taumlaus gleði. Koreless spilaði tilraunakennda raftónlist sem ég kann ekki að skilgreina í Kaldalóni en hún var tilkomumikil engu að síður.

 

Ég náði nokkrum lögum af settinu hjá Boys Noiz í Silfurbergi sem spilaði gróft elektró sem tók mig aftur til ársins 2007 þegar Justice og svipaðar sveitir voru upp á sitt besta. Upphrópunarmerkin þrjú lokuðu svo kvöldinu með fönkaðri og grúví danstónlist sem fór beint í útlimina.

 

Sérstaða Sónar

 

Fjórða Sónarhátíðin fór einstaklega vel fram og það er mikið gleðiefni fyrir unnendur framsækinnar tónlistar að hún hafi náð að festa sig í sessi í íslensku tópnlistarlífi. Þar sem áður var bara Iceland Airwaves höfum við nú fjórar stórar alþjóðlegar hátíðir á tónlistarárinu sem eru allar ólíkar í fókus og umgjörð. Sónar hefur þar algjöra sem felst í fókus á raftónlist/hiphop, frábæru hljóð og einstökum metnaði í sjónrænni umgjörð tónleika. Á engri íslenskri hátíð hef ég séð jafn flott ljós og vídjóverk og á Sónar, og allir tónleikarnir eru í Hörpu sem er langsamlega besta hús landsins þegar kemur að hljóði. Takk fyrir mig.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Föstudagskvöld á Sónar

Mynd: Anita Björk. Squarepusher í Silfurbergi.

Ég hóf leikinn á öðrum í Sónar með því að sjá ofursveitina Gangly í Silfurbergi. Raddir Sinda, Úlfs og Jófríðar harmóneruðu með og án átótúns og framsækin trip hop bítin minntu um margt á hljóðheim Bjarkar og FKA Twigs. Á eftir þeim sá ég Tonik spila frábært sett á Sonarpub. Hann stóð fyllilega fyrir sínum án Harðar sem oft syngur með honum. Sándið hans er hlýtt og taktarnir uppfullir af hliðrænu braki og brestum. Þá átti Tumi saxafónleikar frábæra innkomu.

 

Kraftwerk + Rokk + Bach

 

Apparat Organ Quartet fóru á kostum í Silfurbergi. Þeir byrjuðu í rokkaðri keyrslu og héldu fullum dampi þegar fram leið eins og vel smurð dísilvél. Sándinu þeirra og sviðsframkomu mætti lýsa sem Kraftwerk + Rokk + Bach, sem er ansi gott reikningsdæmi. Ég rölti svo yfir í Norðurljósasalinn á Vaginaboys sem voru að vinna með nýtt live setup. Einn hljómborðsleikari og nokkrir gaurar með klúta fyrir andlitunu sem stundum sátu við tölvu eða bara röltu um sviðið. En tónlistin var ægifögur, nokkurs konar vangalög nýrrar kynslóðar. Svo var ótrúlega flottum myndböndum varpað á tjald, þau voru eins og tónlist Vaginaboys væmin, klámfengin og listræn í jöfnum hlutföllum.

 

Næst sá ég svo tónlistarkonuna Holly Herndon sem var mjög sérstök upplifun. Þetta var brotakennd og yfirdrifið agressív raftónlist mörkuð af áunnum athyglisbresti internetkynslóðarinnar. Hún vann mikið með eigin rödd live og klippti, beyglaði og teygði í allar áttir. Þá hafði hún tölvugaur meðferðis sem skrifaði texta á tölvuna í rauntíma sem birtis á tjaldi fyrir aftan þau og vann með mjög framúrstefnulega vídjóverk. Þá náði ég nokkrum lögum með Floating Points sem voru með live band og spiluðu danstónlist með djass- og krautrokkáhrifum.

 

Hljóð- og sjónræn hryðjuverk

 

Þá var röðin komin Oneohtrix Point Never í Norðurljósasalnum en ekkert hafði undirbúið mig fyrir þá upplifun. Þetta var tónlist sem tengir fram hjá sálinni og miðar beint á líkamann. Þú finnur fyrir henni á húðinni. Þetta er list sem er hafin yfir einfaldar skilgreiningar eins og „taktar“ og „melódíur“ og er eiginlega bara einn allsherjar samruni. Svo voru þeir með strobeljós sem voru svo öflug að ég held þau hafi verið kjarnorkuknúin. Ég var á tímabili hræddur um að skemma í mér augun. Oneohtrix Point Never framkvæmdu hljóð- og sjónræn hryðjuverk á skynfærum saklausra áhorfenda þetta kvöld og það var unun að vera fórnarlamb þeirra.

 

Squarepusher kom fram grímuklæddur og flutti sína snældutrylltu tónlist af fádæma öryggi. Hann er meistari taktsins, tekur hann í sundur live eins og legókubba og raðar saman aftur á endalausa frumlega vegu. Eftir uppklappið kom hann svo fram grímulaus og tók upp sitt aðalhljóðfæri, bassann, og grúvaði inn í nóttina. Þá var bara eftir að loka kvöldinu með ferð í bílastæðakjallarann að hlýða á plötusnúðinn Bjarka. Þar var niðamyrkur og steinhart dýflissutekknó í gangi og troðstappaður kjallarinn dansaði inn í eilífðina.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Fimmtudagskvöld á Sónar

Angel Haze í Silfurbergi. Mynd: Brynjar Snær

 

Ég hóf leikinn í myrkrakompunni Sonarlab sem er staðsett í bílastæðakjallara Hörpunnar. Fáir voru mættir um kvöldmatarleytið þegar fyrstu atriðin hófust en plötusnældan Julia Ruslanovna spilaði þokkafullt tekknó sem fengu fyrstu hræður kvöldsins til að hreyfa sig, en dansinn átti eftir að aukast umtalsvert eftir því sem kvöldinu leið fram.

 

Ég náði svo örfáum lögum með Vök í Silfurbergi þar sem stemmningin var myrk og tónlistin í anda the xx og Portishead með vænum skammti af saxafóni á völdum köflum. R’n’B söngvarinn Auður fór á kostum í Kaldalóni og flaut um sviðið með þokkafullum danshreyfingum og seyðandi söng. Hann er líka einn besti pródúser á landinu á sínu sviði og sándið hans minnir um margt á Weeknd, Frank Ocean og það besta sem gerist í þessum geira vestanhafs.

 

Reif í kjallarann

 

Í reifkjallaranum var Yamaho að matreiða hústónlist ofan í mannskapinn en talsvert hafði fjölgað í kjallaranum frá því fyrr um kvöldið og hreyfing komin á liðið. Ég náði svo í skottið á samstarfi Martin Kilvady & Mankan og Íslenska dansflokksins en í lok sýningarinnar fóru dansararnir af sviðunu og dönsuðu á meðal og jafnvel við áhorfendur á gólfinu í Norðurljósasalnum. Good Moon Deer var næstur í sama sal og hann hafði einnig nútímadansara með sér á sviðinu til stuðnings sundurklipptum töktum og annars konar rafsturlun.

 

En ég þurfti frá að hverfa til að sjá eitilhörðu rapppíuna Angel Haze í Silfurbergi. Hún var agnarsmá og mjó en með rödd og flæði á við Dettifoss á góðum leysingardegi. Gólfið nötraði undan bassanum og Angel Haze spítti út úr sér rímum á ógnarhraða og af fádæma krafti og öryggi. Eftir þessa bestu tónleika kvöldsins lá leið okkar enn og aftur í kjallarann þar sem Ellen Allien bauð upp á grjóthart tekknósett með miklum 90’s áhrifum. Ég dansaði í myrkrinu við ómstríðar hljómborðslínur, hvíslandi hæ-hatta, snerla sem slógu mig utan undir og bassadrunur sem fengu eistun til að titra.

 

Pall-íettu Power Ranger

 

Undir lok kvöldsins náði ég nokkrum lögum með Páli Óskari sem var eins og búast mátti við glysflugeldasýning kvöldsins. Hann kom fram í einhvers konar pallíettu Power Rangers galla og hafði sér til fulltingis fjóra dansara í diskókúlualbúningum. Glimrandi glimmerendir á skemmtilegu kvöldi. Í kvöld er það svo Oneohtrix Point Never, Squarepusher, Floating Points og fleiri, fylgist með áframhaldandi fréttum af Sónar á straum.is næstu daga.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Hvað ert’að Sónar?

 

Fjórða Sónar hátíðin í Reykjavík hefst á morgun og býður upp á drekkfullt hlaðborð af tónlistarmönnum og plötusnúðum í hæsta gæðaflokki heimsins um þessar mundir. Straumur verður að sjálfsögðu á staðnum og mun flytja fréttir af herlegheitunum en hér að neðan getur að líta þá erlendu tónlistarmenn sem fá okkar allra bestu meðmæli.

 

Oneohtrix Point Never

 

Bandaríkjamaðurinn Daniel Lopatin framleiðir tilraunakennt hljómsalat úr sveimi, drónum og mismiklum óhljóðum sem dansar ballet á barmi ægifegurðar og tryllings. Platan hans R Plus Seven var ein besta skífa ársins 2013 og hefur dvalið langdvölum í heyrnartólum ritstjórnar Straums frá því hún kom út.

 

Ellen Allien

 

Tekknótæfan Ellen Allien hefur verið í farabroddi Berlínarsenunnar í hátt í tvo áratugi og rekur m.a. plötuútgáfuna Bpitch Control. Hún er Júpíter í sólkerfi alþjóðlegu klúbbasenunnar, bæði sem plötusnúður og pródúser, og enginn með bassatrommu í blóðinu ætti að láta settið hennar á Sónar fram hjá sér fara.

 

!!!

 

Upphrópunarmerkin þrjú eru með hressari tónleikaböndum starfandi í dag og danspaunkfönkið þeirra getur fengið óforbetranlega stirðbusa til að rísa á fætur og hrista alla mögulega skanka. Tónleikar þeirra á Airwaves hátíðinni 2007 voru danssturlun á heimsmælikvarða þar sem svitinn lak af súlunum á Nasa.

 

Angel Haze

 

Eitilharða rapppían Angel Haze fór sem hvirfilbylur um rappheiminn með smáskífunni New York sem kom út árið 2012. Þessi fantafæri rappari hefur vakið athygli fyrir opinskáa texta um viðkvæm málefni eins og kynferðisofbeldi og sjálfsmorðshugsanir og verið tilnefnd til MTV og BET verðlauna.

 

Floating Points

 

Breski pródúsantinn og plötusnúðurinn Sam Shepard hefur vakið geisilega mikið og verðskuldað lof fyrir sína fyrstu breiðskífu, Eleania. Það er einstakt verk sem er ekki hægt að flokka og skila – mismunandi stílar renna hver ofan í annan og mynda stórfljót af hljóði sem flæðir yfir bakka hefðbundinnar skynjunar og streymir beina leið í sálina.

 

Holly Herndon

 

Holly Herndon vinnur með mörkin milli hins vélræna og mannlega og skörun hins stafræna og líkamlega. Hún er framsækinn listamaður í mörgum geirum og tónleikar hennar eru samtal milli Herndon, áhorfenda, nýjustu tækni og vísinda.

 

Hudson Mohawke

 

Þessi knái Breti er einn allra færasti hljómverkfræðingur samtímans og hefur framleitt smelli fyrir listamenn á borð við Kanye West, Pusha T, Lil Wayne, Azeliu Banks og Drake. Hann er helmingur trap-dúettsins TNGHT og hans önnur breiðskífa, Lantern, hefur hlotið feikigóða dóma um víða veröld. Stílinn hans er meirimalískur með endemum og hann notar blásturshljóðfæri eins og enginn annar í bransanum eins og glöggt má heyra í neðangreindu lagi, sem var eitt það besta sem kom út á síðasta ári.

Straumur 15. febrúar 2016 – Sónar þáttur

Straumur í kvöld verður tileinkaður Sónar Reykjavík sem hefst í Hörpu á fimmtudaginn og stendur til laugardags. Óli Dóri fer yfir það helsta á hátíðinni í þættinum sem byrjar á slaginu 23:00 á X-inu 977.

1) 2 is 8 – Lone
2) Airglow Fires – Lone
3) New York – Angel Haze
4) Do Not Break – Ellen Allien & Apparat
5) King Bromeliad – Floating Points
6) Scud Books – Hudson Mohawke
7) Chorus – Holly Herndon
8) Oh Boy – GKR/Andreas Todini
9) Feeling – Vaginaboys
10) Boring Angel – Oneohtrix Point Never
11) I Wish I Could Talk – Squarepusher
12) All U Writers (Whatever Whatever remix) – !!!
13) We’re Through – James Pants
14) Alma M. (Tonik Ensemble remix) – Port-royal

 

DAGSKRÁ SÓNAR REYKJAVÍK 2016 tilbúin

 
Eftir fjórar vikur hefst tónlistarhátíðin Sónar Reykjavík í Hörpu. Þetta er í fjórða sinn sem hátíðin er haldin – en aldrei fyrr hafa jafn margir listamenn og hljómsveitir komið fram á hátíðinni og í ár. Alls stíga á stokk 75 hljómsveitir og listamenn á fimm sviðum yfir þá þrjá daga sem hátíðin fer fram 18.-20. Febrúar.
 
Meðal þeirra sem koma fram á Sónar Reykjavík 2016 eru; Hudson Mohawke (UK), Boys Noize (DE),Angel Haze (US) Squarepusher (UK), Holly Herndon (US), Ellen Allien (DE), Floating Points (UK)Oneothrix Point Never (US), Annie Mac (UK) Ben UFO (UK), Zebra Katz (US), Black Madonna(US), Rødhåd (DE), Recondite (DE), Mumdance (UK), Wife (UK), AV AV AV (DK), Lone (UK), Eloq(DK), Koreless (UK), Páll Óskar, Úlfur Úlfur, Apparat Organ Quartet, Kiasmos, Sturla Atlas, Bjarki,Reykajvíkurdætur, Vaginaboys og President Bongo & The Emotional Carpenters.
 
Í dag hefur verið tilkynnt um síðustu nöfnin á dagskrá hátíðinnar, alls 11 listamenn og hljómsveitir. Í þeim flokki eru; Vök, Ruxpin, Futuregrapher, Kosmodod eða Þórður Kári úr Samaris, Tonik Ensamble sem fyrir skemmstu hlaut Kraumsverðlaun og Reykjavik-Grapevine Music Awards fyrir plötu sína Snapshots og Halleluwah hljómsveit Sölva Blöndal úr Quarashi. 
 
Tónlistarhátíðin Sónar Reykjavík fer fram í fjórða sinn dagana 18.-20. febrúar. Líkt og undanfarin ár mun hátíðin fara fram á fimm sviðum í Hörpu, m.a. í bílakjallara tónlistarhússins sem breytt verður í næturklúbb. Mikill áhugi er á hátíðinni á erlendum vettvangi enda vel verið látið af viðburðinum og sérkennum hans í erlendum fjölmiðlum allt frá því hún var fyrst haldin árið 2013.
Alls munu 75 hljómsveitir, listamenn og plötusnúðar koma fram á Sónar Reykjavík 2016.