Ekkert hefur heyrst né spurst til breska tónlistarmannsins Jamie T síðan hann gaf út aðra plötu sína King & Queens árið 2009 fyrir utan smá daður þegar hann söng inn á lagið „Wrongful Suspicions“ um áramótin með pönkaranum Tim Armstrong úr hljómsveitinni Rancid. Jamie sem stundum hefur verið kallaður „one man Arctic Monkey“ er fjölbreyttur þegar kemur að tónsmíðum og er honum fátt heilagt en hann er helst titlaður sem hip-hop indí flytjandi. Hann sló í gegn með frumburði sínum Panic Prevention árið 2007 og var fyrir vikið tilnefndur til Mercury verðlaunanna auk þess að slá út mönnum eins og Jarvis Cocker og Thom York þegar hann vann til verðlauna sem besti sóló flytjandinn á NME verðlaununum árið 2007.
Hjólin virðast aftur vera farinn að snúast á ný hjá Jamie T og hefur Tribes leppurinn Johnny Lloyd sagt að hann sé þessa dagana að aðstoða Jamie við gerð nýrrar plötu. „ Ég er að spila með Jamie og hann er að klára nýja plötu. Þetta er frábært efni, mjög hægt og reitt pönk.“ Sagði Lloyd í samtali við NME.