Flestir kannast við lagið Ue o muite arukou eða Sukiyaki frá árinu 1961. Lagið hefur ósjaldan heyrst í kvikmyndum og sjónvarspsþáttum.
Margir í dag vita hins vegar ekki hver röddin á bak við þetta einstaka lag er.
Söngvarinn Kyu Sakamoto fæddist þann 10. desember 1941 í borginni Kawasaki í Japan. Hann var yngstur níu systkina og fékk nafnið Kyu sem þýðir níu. Hann hóf tónlistarferil sinn sem söngvari japönsku hljómsveitarinnar The Drifters árið 1958 og náði fljótlega miklum vinsældum í heimalandi sínu. Lagið Ue o Muite Arukou varð strax mjög vinsælt þegar það kom út í Japan árið 1961 sem varð til þess að Captol records vildu ólmir gefa það út í Bandaríkjunum. Titill lagsins þótti ekki nógu þjáll og lagið var endurskýrt þegar það kom út þar í landi árið 1963 eftir vinsælasta japanska réttinum á þeim tíma Sukiyaki. Japanski titill lagsins þýðir: “Ég horfi upp meðan ég geng” og vísar til þess í textanum að horfa til himins til að tárin falli ekki til jarðar. Ástæðan er ástarsorg en kemur mat ekkert við. Vinsældir lagsins urðu strax miklar í Bandaríkjum og lagið náði að komast í fyrsta sæti vinsældalistans þar í landi. Ue o Muite Arukou er eina lagið sem náð hefur vinsældum á vesturlöndum sem sungið er á japönsku. Lagið er eitt mest selda lag allra tíma. Ábreiður af laginu hafa verið gerðar á hinum ýmsu tungumálum:
Hér er það sungið á sjö mismunandi tungumálum.
Þegar Kyu kom til Bandríkjanna árið 1963kom hann fram í Steve Allen show og var kynntur þar sem hinn japanski Elvis.
Kyu Sakomoto lést í einu mannskæðasta flugslysi sögunnar þann 12. Ágúst 1985. 521 manns létust þegar að flugvél brotlenti nálægt Tokyo Í Japan. Vélin var í lausu lofti í 20 mínútur áður en hún hrapaði og náði Kyu að skrifa niður sína hinstu kveðju til konu sinnar rétt áður en hann lést.
Reg Presley söngvari bresku hljómsveitarinnar The Troggs lést í gærkvöldi 71 árs að aldri eftir baráttu við lungnakrabbamein. Presley gerði garðinn frægan ásamt hljómsveit sinni á 7. áratugnum með lögum á borð við Wild Thing, With a Girl Like You og Love Is All Around. The Troggs hafa haft gríðarleg áhrif á hina ýmsu bílskúrsrokk tónlistarmenn og hljómsveitir í gegnum tíðina og hægt er nefna MC5, Iggy Pop og Buzzcocks í því samhengi. Presley var helst þekktur í seinni tíð fyrir skrif sín um geimverur en árið 2002 gaf hann út bókina Wild Things They Don’t Tell Us. Allar tekjur sem hann fékk fyrir ábreiðu Wet Wet Wet á lagi hans Love Is All Around sem var notað í kvikmyndinni Four Weddings and A funeral gaf hann til rannsókna á hinum dularfullu„cropcircles“ eða akurhringjum. Fyrir neðan má sjá The Troggs flytja lagið With a Girl Like You og einnig heyra ábreiðu Dave Sitek úr hljómsveitinni TV On The Radio af laginu.
Í dag eru 35 ár síðan að Elvis Aron Presley, einn sá áhrifamesti ef ekki áhrifamesti tónlistarmaður 20. aldar, lést. Þó að Presley hafi ekki fundið upp rokkið, innleiddi hann það í bandaríska menningu þaðan sem það barst um allan heim. Á sama tíma var í fyrsta skipti að verða til sérstök menning unglinga og áhrif rokksins og Elvis verða seint ofmetin í því samhengi. Presley fæddist 8. janúar 1935 í Tupelo, Mississippifylki í Bandaríkjunum. Hann lést á heimili sínu Graceland í Memphis, Tennessefylki, 16. ágúst 1977, 42 ára að aldri. Síðan hefur meira verið fjallað um hann heldur en nokkurn tímann meðan hann var á lífi. Sú mynd sem fjölmiðlar sýndu af Presley meðan hann lifði er gerólík þeirri ímynd sem fjölmiðlar hafa búið til eftir dauða hans. Ímynd Presley hefur verið afbökuð ósmekklega á síðustu áratugum. Fyrir neðan má hlusta á útvarpsþátt sem ég gerði um Elvis Presley í heimafylki hans Tennessee í Bandaríkjunum árið 2009.
Fela Kuti lést úr eyðni fyrir fimmtán árum síðan en arfleifð hans svífur þó enn yfir vötnum margra tónlistarmanna nútímans. Hann var upphafsmaður afróbítsins og ævistarf hans í tónlist er fjársjóðskista fyrir grúskara og grúvhunda. Hann var líka pólitískur andófsmaður sem varð fyrir áhrifum af Malcolms X og var rödd hinna kúguðu í heimaríki sínu, Nígeríu.
Fela Ransome Kuti fæddist 15. október 1938 í Abeokuta, litlum bæ í Nígeríu um 100 km norðan við höfuðborgina Lagos. Hann var næstyngstur af fimm systkinum í miðstéttarfjölskyldu. Faðir hans var fyrsti formaður kennarasambands Nígeríu en móðir hans kvenréttindakona og pólitískur baráttumaður sem hafði tekið þátt í baráttunni gegn nýlendustjórninni. Fela langaði til að vera tónlistarmaður frá barnsaldri og um tvítugt fluttist hann búferlum til London og skráði sig í Trinity College of Music. Þar dvaldist hann næstu fjögur ár og lærði á píanó auk þess að leggja stund á nám í tónsmíðum. Hann stofnaði sína fyrstu hljómsveit Koola Lobitos og byrjaði að spila á hinum ýmsu klúbbum borgarinnar sérstaka blöndu af djassi og vestur-afrískri „High Life“ tónlist. Þar kynntist hann einnig fyrstu konu sinni sem hann eignaðist þrjú börn með, þar á meðal soninn Femi Kuti sem hefur haldið tónlistararfleifð föður síns við.
Fæðing afróbítsins
Árið 1963 snýr Fela aftur til Lagos og stuttu síður endurvekur hann Koola Lobitos og spilar með þeim á klúbbum víða í Lagos við heldur litlar vinsældir. Undir lok sjöunda áratugarins fær hann hins vegar trommarann Tony Allen til liðs við sig sem átti eftir að hafa mikil áhrif á afróbít-tónlistina sem átti eftir að hasla sér völl. Annað sem breytti lífi og þar með tónlist Fela Kuti var ferð hans til Bandaríkjanna 1969. Fela og Koola Lobitos hörkuðu í nokkra mánuði í klúbbasenunni í Los Angeles og á meðan á þeirri dvöl stóð kynntist Fela ýmsum sem börðust fyrir mannréttindum blökkumanna og tengdust Black Panther-hreyfingunni. Þar á meðal var Sandra Isidore sem varð ástkona hans og eins konar menningarlegur lærifaðir. Hún kynnti hann fyrir kenningum Malcolm X og Elridge Cleaver en sjálfsævisaga Malcolm X hafði mikil áhrif á hann og varð til þess að hann fór að kanna betur afríska sjálfsímynd sína bæði persónulega og í gegnum tónlistina.
Fela og hljómsveitin hans lentu í útistöðum við útlendingaeftirlitið í Bandaríkjunum og neyddust til að yfirgefa landið en áður náðu þeir að fara í hljóðver og taka upp efni sem síðar var gefið út sem 69 Los Angeles Sessions. Hljómur sveitarinnar var breyttur og þarna var að fæðast það sem Fela sjálfur kallaði Afrobít, tónlistarstefna sem blandar djassi og fönki saman við hefðbundna afríska tónlist með flóknum samofnum ryþma og söngstíl þar sem aðalsöngvari og bakraddir kallast á.
Kalkútta lýðveldið
Þegar Fela kom aftur til Lagos var hann breyttur maður. Til þess að undirstrika það lagði hann niður millinafn sitt, Ransome, sem hann sagði vera þrælanafn en tók í staðinn upp nafnið Anikulapo sem þýðir: Sá sem ber dauðann í skjóðu sinni.
Hann breytti nafninu á hljómsveit sinni í Africa 70 og settist að ásamt hljómsveit, fjölskyldu, dönsurum og hinum og þessum áhangendum í stóru húsi, eins konar kommúnu, þar sem hann var einnig með upptökuaðstöðu. Þar stofnaði hann sitt eigið ríki, Kalkútta lýðveldið, og sagði sig úr lögum við nígeríska ríkið en þar bjuggu um 100 manns þegar mest lét.
Freðnir og framsýnir hugsuðir
Nígerísku blöðin birtu myndir frá þessu litla fyrirmyndarríki þar sem Fela spilaði á saxafón útí garði á nærbuxunum, berbrjósta konur löbbuðu um og táningar blésu kannabisreyk út í loftið. Þá stofnaði hann klúbb sem var kallaður Helgidómurinn (The Shrine) þar sem hann og félagar í Afrika 70 hófu að spila reglulega auk þess að taka upp efni og gefa út. Eins og nafnið gaf til kynna var Helgidómurinn ekki aðeins klúbbur, heldur eins konar samkomustaður fyrir framsýna afríska hugsuði þar sem áherslan var ekki á ættbálka eða þjóðerni heldur samafrískar hugsjónir og samstöðu. Þar voru haldnir stórir tónleikar undir beru lofti sem stóðu oft yfir í marga klukkutíma og við sviðið voru fánar allra afrískra þjóða. Hljómsveit hans var mjög fjölmenn og innihélt nokkra blásara og ásláttarleikara, auk tveggja gítarleikara, bassaleikara og trommuleikara. Þá eru ótaldar fjöldi bakraddasöngkvenna og herskari dansara sem stormuðu um sviðið.
En það var ekki bara lífstíll hans sem var byltingakenndur heldur varð tónlistin stöðugt kraftmeiri og textarnir róttækari. Hann varð fljótt vinsæll í Nígeríu og varð nokkurs konar hetja fátæks almúgans. Hann bar litla virðingu fyrir yfirvöldum og í lögum sínum talaði hann aldrei undir rós; þar var að finna beinar árásir á spillingu, kúgun stjórnvalda, arðrán erlendra stórfyrirtækja á alþýðu landsins og menningarlega heimsvaldastefnu Vesturlanda. Síðan Nígería fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1960 hafði pólitískt ástand í landinu verið mjög óstöðugt, ekki síst vegna baráttu stærstu þjóðflokkana um völd í landinu. Árið 1966 framdi herinn valdarán og næstu 15 ár einkenndust af miklum óstöðugleika, stöðugri barátta hershöfðingja um völd yfir landsstjórninni og gekk á með valdaránum og morðum á þjóðhöfðingjum.
Ofsóttur af stjórnvöldum
1. Fela Kuti - Expensive Shit
2. Fela Kuti - Expensive Shit
Fela Kuti gagnrýndi stjórnvöld óspart í textum sínum. Sú gagnrýni ásamt því hversu mikla óvirðingu hann sýndi með stofnun fríríkis síns, þar sem menn reyktu gras fyrir opnum tjöldum, gerði það að verkum að stjórnvöld litu á hann sem ógn. Árið 1974 var hann orðinn súperstjarna í heimalandi sínu og nágrannaríkjum og var á leiðinni í tónleikaferð til Kamerún þegar hann var handtekinn fyrir að hafa fíkniefni í fórum sínum. Hann gerði sér lítið fyrir og gleypti jónuna sem var eina sönnunargagnið í málinu. Hann var handtekinn engu að síðu og ætlunin að láta hann skila sönnunargögnunum út um óæðri endann. En Fela, sem mátti dúsa nóttina í fangelsi, tókst að skipta á saur við samfanga sinn og slapp vegna skorts á sönnunargögnum. Þessa lygilegu sögu átti hann síðan eftir að rekja í laginu Expensive Shit sem kom út ári síðar.
Gaf út sjö plötur á ári
3. 02 Lady
4. 02 Lady
Á blómaskeiði sínu frá 1970 til 1977 gaf Fela Kuti út tæplega 30 plötur og þegar mest var gaf hann út sjö plötur á ári. Á Gentleman frá 1973 fjallar hann um nýlenduhugarfar sem hann telur of ríkjandi í heimalandi sínu og gerir grín að samlöndum sínum sem ganga um í jakkafötum með bindi og taldi það ekki við hæfi í hitanum í Afríku. Á Lady gagnrýnir hann afrískar konur fyrir að aðhyllast vestrænan femínisma sem honum finnst ekki samræmast afrískum hefðum. Lögin hans spanna frá 10 mínútum og upp í klukkutíma, sem kom í veg fyrir útvarpsspilun og að hann næði vinsældum í hinum vestræna heimi en tónlistarmenn á borð við James Brown, Ginger Baker, Stevie Wonder, Paul Mcartney og Curtis Mayfield voru miklir aðdáendur og flykktust til Nígeríu til að drekka í sig tónlistina.
Uppvakningar ráðast til atlögu
5. Fela Kuti - Zombie
6. Fela Kuti - Zombie
Árið 1977 gefur Fela út plötuna Zombie sem varð hans vinsælasta og áhrifamesta plata. Titillagið, sem byggist á óstöðvandi grúvi, er harkaleg ádeila á hermenn landsins, „heilalausa uppvakninga” sem hafi enga sjálfstæða hugsun og geri ekkert án skipana yfirmanna sinna. Lagið kom af stað vakningu meðal kúgaðra íbúa landsins sem leiddi til óeirða og mótmæla gegn hermönnum á götum úti þegar fólk hermdi eftir uppvakningum er það sá til hermanna.
Stuttu seinna gerðu 1.000 hermenn árás á Kalkútta kommúnuna eftir að hafa lent í útistöðum við strák úr gengi Fela. Þeir umkringdu húsið og réðust svo inn og gengu í skrokk á íbúunum, nauðguðu konum og köstuðu móður Fela út um glugga á annarri hæð. Hljóðfæri, upptökur og filmur voru eyðilagðar og að lokum kveikt í húsinu. Fela var barinn þangað til hann missti meðvitund og fangelsaður í stuttan tíma. Þegar hann var laus úr fangelsi fór hann í mál við ríkið en „óháð“ rannsókn leiddi í ljós að það hefði verið óþekktur hermaður sem stóð fyrir aðförinni að húsi Fela. Um þetta gerði hann lagið Unknown Soldier.
Móðir hans lést nokkrum mánuðum síðar af meiðslum sem hún hlaut í árásinni og Fela fór með líkkistuna og skildi hana eftir við herstöðvar Olusegun Ọbasanjọ sem var hæstráðandi í landinu. Hann gerði um þetta lagið Coffin for Head of State þar sem hann réðst harkalega á Ọbasanjọ. Það sama gerði hann í laginu ITT International Thief Thief, sem er gagnrýni á arðrán vestrænna fyrirtækja á Afríkubúum og spillta menn eins og Ọbasanjọ sem láta það viðgangast. Í laginu kallar hann Ọbasanjọ og forstjóra ITT þjófa. Textar hans verða æ harðari, hann gagnrýnir spillingu og ofsóknir stjórnvalda og ræðst harkalega að nafngreindum mönnum.
Svarti forsetinn
Eftir árásina á húsið fór Fela í sjálfskipaða útlegð til Ghana í ár og þegar hann kom til baka nákvæmlega einu ári eftir atburðina þá giftist hann 27 konum, flestar voru dansarar hans og bakraddasöngkonur, í einni athöfn. Sama ár er hann rekinn frá Ghana eftir að óeirðir brjótast út þegar hann spilar lag sitt Zombie á tónleikum í höfuðborginni Accra. Hann verður æ pólitískari og fer að tala um sjálfan sig sem The Black President og hyggst bjóða sig fram til forseta þegar lýðveldið er endurvakið 1979 (til 1983) en framboði hans var hafnað af „tæknilegum“ ástæðum.
Hann lét það þó ekki stoppa sig og stofnaði nýtt band, Egypt 80 og hélt áfram að gefa út plötur og fór í tónleikaferðir til Evrópu. Hann var líka farinn að kafa dýpra í Yoruba trúna og fékk til liðs við sig andlegan leiðtoga, Professor Hindu. Þessi andatrú varð stór partur af tónleikahaldi hans en Fela og hljómsveitin komu fram með einhvers konar hvítt duft sem átti að hjálpa þeim að ná sambandi við andana. Professor Hindu tók einnig þátt í sjóinu þar sem hann kyrjaði, særði fram anda, skar sjálfan sig og hræddi líftóruna úr áhorfendum í Evrópu. Þegar að Fela var á leiðinni á tónleikaferðalag til Bandaríkjanna í september 1984 var hann handtekinn á flugvellinum og sakaður um gjaldeyrissmygl. Hann er dæmdur í tíu ára fangelsi en sleppt eftir 20 mánuði er ný stjórn hafði tekið við og Amnesty International barist fyrir lausn hans.
Dauðinn skríður upp úr skjóðunni
Eftir að hann losnaði úr fangelsi hélt hann áfram að gefa út plötur með Egypt 80 og túra um Evrópu og Bandaríkin og árið 1986 kom hann fram á tónleikum til styrktar Amnesty International á Giants leikavanginum í New Jersey ásamt Bono, Santana og fleirum. En í byrjun tíunda áratugarins fór að líða lengra á milli platna og að lokum hætti hann alfarið að gefa út. Þetta má líklega rekja til veikinda hans en hann þjáðist af alnæmi þó að hann neitaði að viðurkenna það eða leita læknisaðstoðar vegna þess. 2. ágúst 1997 komst dauðinn upp úr skjóðu Fela og hafði sigur á honum. Meira en milljón manns syrgðu þegar hann var borinn til grafar í Lagos. Fela Kuti var tónlistarmaður, byltingarsinni og frumkvöðull. Hann var talsmaður hinna undirokuðu, fátæku og kúguðu í heimalandi sínu og arfleið hans og íkonísk staða í Nígeríu á sér aðeins fordæmi í arfleið Bob Marley á Jamaíka.
Meira en tveir áratugir eru liðnir síðan Serge Gainsbourg, einn mesti töffari 20. aldarinnar, lést. Hann átti sér margar hliðar, var skáld, lagahöfundur, leikari, prakkari, eurovision-sigurvegari, leikstjóri, drykkjumaður, flagari og keðjureykingamaður. En umfram allt listamaður, nautnaseggur og lífskúnstner af gamla evrópska skólanum.
Sem tónlistarmaður var Serge Gainsburg stöðugt leitandi og skipti svo oft um ham að kamelljónið sjálft, David Bowie, er eins og íhaldsmaður í samanburðinum. Þegar Gainsbourg lést líkti François Mitterrand, þáverandi forseti Frakklands, honum við hin mikils virtu skáld Baudelaire og Apollinaire. Hann var ekki manna fríðastur en heillaði þó heitustu leikkonur og fyrirsætur Evrópu upp úr skónum. Frá byrjun hafði hann einstakt lag á því að hneyksla smáborgara, sem yfirskyggði að nokkru leyti aðra hæfileika hans undir lok ævinnar. Hann var stórstjarna í Frakklandi en annars staðar í heiminum er hans helst minnst fyrir angurværa orgeltónana og fullnægingarstunur Jane Birkin í laginu Je t’aime… moi non plus, og kannski núna á youtube öld fyrir glæfralega yfirlýsingu um að vilja sænga hjá Whitney Houston í frönskum spjallþætti á 9. áratugnum.
Slapp frá nasistum
Gainsbourg fæddist í París 2. apríl 1928 og var skýrður Lucien Ginsburg en foreldrar hans voru rússneskir gyðingar sem höfðu flúið heimalandið eftir byltinguna 1917. Þegar Frakkland var hertekið af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni þurfti öll fjölskyldan að merkja sig með gyðingastjörnunni en þeim tókst að flýja París með fölsuðum skilríkjum og voru í felum þar til stríðinu lauk. Faðir Gainsbourg var menntaður píanisti sem hafði lifibrauð af því að spila í kabarettum og spilavítum og Gainsbourg spilaði á píanó frá unga aldri.
Hann lagði stund á myndlist í listaháskóla en fór fljótlega að sjá fyrir sér með því að spila á píanó á börum og næturklúbbum. Hann gekk til liðs við tónlistarhópinn Milord L’Arsoille og árið 1958 kom út hans fyrsta sólóplata, Du Chant a la Une. Á henni er meðal annars að finna hið frábæra lag Le Poinçonneur des Lilas. Það er um starfsmann í neðanjarðarlestastöð í París sem er í svo leiðigjörnu starfi við að gata lestarmiða að hann dreymir um að setja gat í hausinn á sjálfum sér og verða grafinn í stóru gati í jörðinni. Tónlistin á plötunni og tveimur næstu plötum er að mestu hefðbundin frönsk „chanson“ tónlist blönduð djassi en yrkisefnin eru oft í dekkri kantinum eins og áðurnefnt lag er dæmi um.
Litla stelpan með sleikjóinn
France Gall - Poupée de cire, poupée de son
1. France Gall - Poupee de Cire Poupee de Son
Mp3
2. France Gall - Poupée de cire
Fyrstu sólóplötur kappans seldust ekki í flugfröktum en hann átti hins vegar velgengni að fagna sem lagahöfundur söngkvenna á borð við Petulu Clark, Juliette Greco og Dionne Warwick. Árið 1965 samdi hann lagið Poupée de cire, poupée de son, sem sigraði söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Lúxemborg og var sungið af táningsstjörnunni France Gall. Hann hélt áfram að semja lög fyrir hana en lagið Les Succettes vakti mikla hneykslun þegar það kom út árið 1966. Unglingsstúlkan Gall var þar á yfirborðinu að syngja um stelpu sem hafði gaman að sleikibrjóstsykri en textinn er morandi í tvíræðni og vísunum í munnmök.
Stuttu síðar hóf hann ástarsamband við Brigitte Bardot, sem á þeim tíma var gift þýskum milljónamæringi. Hann tileinkaði henni plötuna og titillagið Initials B.B. en þau sungu dúett á nokkrum lögum plötunnar. Af þeim ber hæst Bonnie and Clyde, óður Gainsbourg og Bardot til glæpaparsins sem hafði verið gert ódauðlegt í samnefndri bíómynd ári fyrr. Það sem lyftir laginu upp á æðra plan er samt óaðfinnanlegur hljómurinn sem er langt á undan sinni samtíð, fiðlur og kassagítar eru notaðar sem ryþmísk hljóðfæri og gefa sándinu ákveðið þyngdarleysi og skrýtið óp er endurtekið í sífellu í gegnum lagið.
Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
3. Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
Mp3
4. Serge Gainsbourg & Brigitte Bardot - Bonnie and Clyde
Gainsbourg hafði lag á því að vinna með framsæknum og hugmyndaríkum upptökustjórum og útsetjurum og margt af því sem hann gerði seint á sjöunda áratugnum og snemma á þeim áttunda hljómar einstaklega nútímalega. Lagið Requiem pour un con frá árinu 1968 sem er með stamandi bassalínu, hörðum trommutakti, mjúkum bongótrommum og nokkurs konar rappi frá Gainsbourg, sem hljómar t.d. ekki ósvipað því sem Massive Attack gerðu á sinni fyrstu plötu sem kom út 23 árum seinna.
Fordæmdur af Vatíkaninu
Árið 1968 við tökur á bíómyndinni Slogan kynntist hann Jane Birkin, 22 ára breskri leikkonu og fyrirsætu sem átti eftir að verða ástin og skáldagyðjan í lífi hans næstu 13 árin. Fyrsta kvöldið sem þau eyddu saman fór hann með hana á pöbbarölt um París þar sem þau stoppuðu á ýmsum klæðskiptingabörum og enduðu á Hiltonhótelinu þar sem maðurinn í afgreiðslunni spurði hann: „Sama herbergi og venjulega?“
Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime... moi non plus
5. Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime moi non plus
Mp3
6. Serge Gainsbourg & Jane Birkin - Je t'aime... moi non plus
Þau urðu óaðskiljanleg og ári síðar kom út lagið Je t’aime… moi non plus sem gerði allt vitlaust á vinsældalistum og siðapostula vitlausa um alla Evrópu. Sögusagnir voru uppi um að stunurnar í laginu kæmu úr alvöru kynlífsleikjum parsins. BBC og ótalmargar útvarpsstöðvar bönnuðu það. Vatíkanið fordæmdi það. Gainsbourg naut athyglinnar og var nú loksins orðinn alþjóðleg poppstjarna. Breiðskífa með parinu, sem nefndist einfaldlega Jane Birkin/Serge Gainsbourg, kom út sama ár þar sem margt var um fína drætti en hún bliknar þó í samanburðinum við næsta óð Gainsbourg til Birkin sem kom út tveimur árum seinna.
Sagan um Melody Nelson
Serge Gainsbourg - Ballade de Melody Nelson
7. Ballade de Melody Nelson
Mp3
8. Serge Gainsbourg - Ballade de Melody Nelson
Gainsbourg fór til Bretlands ásamt útsetjaranum Jean-Claude Vannier og í slagtogi við færustu sessjónleikara Bretlands tókst þeim að töfra upp úr hatti sínum rokk-fönk-sinfóníu, Histoire de Melody Nelson, plötu sem hefur einstakan hljóm í poppsögunni og er ein af bestu plötum áttunda áratugarins.
Það sem drífur plötuna áfram er ótrúlega melódískur bassaleikur Herbie Flowers (sem ári síðar var ábyrgur fyrir bassalínunni í Take a Walk on the Wild Side með Lou Reed), og sögumaðurinn Gainsbourg sem talar, hvíslar og muldrar sig í gegnum söguþráð plötunnar sem snýst um þráhyggjukennda ást sögumannsins á Melody, 15 ára enskri rauðhærðri stelpu. Bassinn er fönkí, gítarinn er sækadelik, kór- og strengjaútsetningar mikilfenglegar og hugmyndaríkar og sjaldan hefur rokkhljóðfærum og sinfónískum útsetningum verið blandað saman á jafn smekklegan og frumlegan máta. Platan seldist nánast ekkert þegar hún kom út en er nú af mörgum talin hans besta plata og til að mynda Beck, Air, Tricky, Jarvis Cocker og Brian Molko eru miklir aðdáendur.
Serge Gainsbourg - Nazi Rock
9. Serge Gainsbourg - Nazi Rock
Mp3
10. Serge Gainsbourg - Nazi Rock
Næsta plata Gainsbourg kom út tveimur árum seinna og var allt öðruvísi, frekar lágstemmd akústísk plata en árið 1975 gaf hann út Rock Around the Bunker. Sú plata særði sómakennd margra en hún var innblásin af gamaldags rokki frá 6. áratugnum en fjallaði með svörtum húmor um nasista og seinni heimsstyrjöldina í stuðsmellum eins og Nazi Rock og S.S. in Uruguay. Árið 1976 gaf hann svo út aðra metnaðarfulla konsept plötu sem fjallar um dökka og forboðna ást, L’homme à tête de chou eða Maðurinn með kálhausinn. Í þetta skiptið er það exótísk fegurð hinnar svörtu Marilou sem heillar hinn truflaða sögumann en hann endar plötuna á geðveikrahæli eftir að hafa barið hana til dauða með slökkvitæki. Tónlistin, sem er ótrúlega fjölbreytt og framsækin, snertir meðal annars á rokki, diskói, fönki, reggí, djassi og afrískum ryþmum. Platan er ekki alveg jafn góð og Melody Nelson en er þó eitt besta verk Gainsbourg og verðskuldar meiri athygli en hún hefur fengið.
Franskt reggí
Sertge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
11. Serge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
Mp3
12. Serge Gainsbourg - Aux Armes Et Caetera (franski þjóðsöngurinn)
Gainsbourg ferðaðist til Kingston á Jamaica árið 1978 og tók upp heila reggí plötu með goðsagnakennda ryþmaparinu Sly Dunbar og Robbie Shakespeare og bakraddasveit sem innihélt meðal annars eiginkonu Bob Marley, Ritu. Meðal laga á plötunni var reggíútgáfa af La Marseille, franska þjóðsöngnum sem átti eftir að valda gríðarlegu fjaðrafoki í heimalandinu þegar platan kom út. Hneykslið var á svipuðum skala og þegar Sex Pistols sungu God Save the Queen í Bretlandi. Gainsbourg fékk dauðahótanir frá þjóðernissinnum, í leiðara dagblaðs var lagt til að ríkisborgararéttur hans væri afturkallaður og mótmælendur mættu á alla tónleika hans þar sem hann kynnti plötuna. Honum tókst meira að segja að reita Bob Marley sjálfan til reiði þegar hann komst að því að Gainsbourg hafði látið eiginkonu hans syngja klámfengna texta í bakröddum á plötunni.
Sítrónusifjaspell
Eftir þrettán ára stormasamt samband fékk Jane Birkin loksins nóg af óútreiknanlegri hegðun og stanslausri drykkju Gainsbourg og yfirgaf ástmann sinn árið 1980, þá ólétt eftir annan mann. Gainsbourg brást við með enn meiri drykkju, var fastagestur í spjallþáttum í sjónvarpi á 9. Áratugnum og nánast undantekningalaust ölvaður að gera eitthvað af sér. Meðal þess sem hann náði að afreka í beinni útsendingu var að brenna 500 franka seðil (sem var ólöglegt á þeim tíma) og lýsa því yfir fyrir framan unga Whitney Houston að hann langaði til að sofa hjá henni. Hann sat fyrir í dragi á umslaginu fyrir Love on the Boat, hljóðgerfladrifinni poppplötu sem fjallaði að mestu um samkynhneigða karlmenn sem stunda vændi, en lagið Lemon Incest eða „Sítrónusifjaspell“ vakti þó mesta athygli. Í því syngur hann dúett með dóttur sinni, Charlotte, sem þá var 12 ára. Ef að lagið, umfjöllunarefnið og dóttur hans voru ekki nóg til þess að særa blygðunarkennd flestra sómasamra borgara var einnig gert myndband við lagið þar sem Gainsbourg og dóttur hans liggja fáklædd upp í rúmi og syngja til hvors annars.
Gainsbourg hafði um nokkurt skeið verið heilsulítill en 2. mars 1991 báru áfengi og tóbak loksins sigurorð af honum þegar hann lést í svefni á heimili sínu. Nicholas Godin úr hljómsveitinni Air sagði í viðtali við Guardian: „Þú getur spurt hvern sem er í París og hann man hvað hann hafði fyrir stafni er tíðindin bárust að Gainsbourg væri dáinn, þetta var það mikið áfall.“ Það var flaggað í hálfa stöng út um alla borg og þúsundir mættu í jarðarför hans. Viskíflöskur og Gitanes sígarettupakkar voru lögð sem virðingarvottur bæði við heimili hans og legstein. Áhrif hans á tónlistarheiminn verða seint ofmetinn en árið 2006 kom út platan Monsieur Gainsbourg Revisited, sem helguð var minningu hans. Þar fluttu listamenn á borð við Portishead, Franz Ferdinand, Cat Power, Jarvis Cocker og Micheal Stipe ábreiður af lögum hans. Textar hans hafa verið gefnir út í ljóðabókum og eru námsefni í háskólum í Frakklandi. Gainsbourg hafði óendanlega ástríðu fyrir áfengi, sígarettum og konum sem honum tókst að miðla á ótrúlega skapandi og ögrandi hátt í list sinni og ætti með réttu að teljast einn merkasti tónlistarmaður síðustu aldar.