Hér er hægt að hlusta á útvarpspistil:
Hljómsveitir hætta daglega, en það eru ekki allar sveitir sem ná að hætta leik þá hæst hann stendur og á sínum eigin forsendum.Dans-pönk hljómsveitina LCD Soundsystem frá New York hafa margir talið eina af helstu hljómsveitum síðasta áratugar.
Hljómsveitin gaf út þrjár plötur sem allar fengu einróma lof gagnrýnenda. Um þessar mundir eru tíu ár frá því fyrsta lag sveitarinnar, Loosing my edge, var gefið út. Í texta lagsins telur James Murphy söngvari og lagahöfundur upp fjöldann allan af sögufrægum tónleikum og eftir hverja einustu upptalningu segir hann „I was there“ eða ég var þar.
2. apríl 2011. Hljómsveitin LCD Soundsystem lék á sínum allra síðustu tónleikum í Madison Square Garden í New York! Ég var þar!
Þegar tilkynnt var um endalok LCD Soundsystems fór hrollur um aðdáendur hljómsveitarinna. James Murphy vildi að hún hætti á hátindi ferils síns með hvelli, á tónleikum sem yrðu sögufrægir!
LCD Soundsystem, sem James Murphy stofnaði árið 2003 í New York , lauk ferli sínum með vel skipulögðum hætti á tónleikum fyrir tæplega 20.000 aðdáendur sína í apríl í fyrra. Heimildarmyndin Shut up and play the hits, fjallar um þessa síðustu tónleika hljómsveitarinnar. Myndin verður sýnd í kvikmyndahúsum víðs vegar um Bandaríkin aðeins í dag. Kvikmyndahús í Evrópu fá myndina til sýningar síðar í sumar en engin merki eru um að hún verði sýnd hér á landi. Myndin hefur slegið rækilega í gegn á kvikmyndahátíðum á borð við Sundance, þar sem kvikmyndahús hafa hreinlega breyst í dansstaði meðan á sýningu stendur.
Leikstjórar Shut shut up and play the hits eru Bretarnir Will Lovelace og Dylan Southern. Þeir eru þekktastir fyrir að hafa leikstýrt heimildarmyndinni No Distance Left To Run, sem fjallar um endurkomu bresku sveitarinnar Blur árið 2010. Þeir vildu ekki gera hefðbundna tónleikamynd og í stað þess að fá tökumenn sem væru vanir tónleikaupptökum við gerð hennar fengu þeir til liðs við sig ellefu kvikmyndagerðarmenn sem festu viðburðinn á filmu. Þetta var gert m.a. til að fá ferskt sjónarhorn á tónleikaupplifunina í myndinni. Kvikmyndagerðarmennirnir fengu nokkuð frjálsar hendur til verksins og voru hvattir til þess að kvikmynda það sem þeim þótti sjálfum áhugaverðast á tónleikunum, hvort sem það var á sviðinu eða úti í sal. Í hópi þeirra var leikstjórinn Spike Jonze, sem beindi myndatökuvélinni að ungu pari í ástaratlotum í gegnum heilt lag á tónleikunum. Tónlistin leikur auðvitað stórt hlutverk í myndinni og hljóðblandaði Murphy hana sjálfur.
Áður en þessir lokatónleikar voru auglýstir hafði ég bókað ferð til Bandaríkjanna sem ég ákvað að lengja um viku til þess að geta kvatt þessa einstöku hljómsveit. Miðar á tónleikana seldust upp á nokkrum mínútum og strax var farið að selja þá á svörtum markaði á uppsprengdu verði. James Murphy brást við með því að halda ferna aukatónleika á öðrum stað í borginni vikuna áður. Það varð til þess að verðið lækkaði talsvert á svörtum markaði. Það fór því þannig að ég fékk miða á besta stað í Madison Square Garden og tækifæri til að kveðja sveit sem hefur fylgt mér í nærri áratug. Tónleikarnir, sem stóðu í nærri fjórar klukkustundir, fóru þannig fram að hljómsveitin tók sér þrjár pásur milli þess sem hún spilaði sín helstu lög í þéttsetinni höllinnni. Að beiðni James Murphy voru áhorfendur í svörtum eða hvítum klæðnaði, sjálfur var ég klæddur í hvíta skyrtu, svartar buxur og svartan jakka til heiðurs Murphy og sveitinni. Fyrir mig persónulega var þetta lokakvöld vel heppnaðrar mánaðardvalar í Bandaríkjunum og eftir tónleikana rölti ég sáttur út í nóttina í átt að hótelinu mínu, hinu sögufræga Chelsea Hóteli sem lokaði skömmu síðar.
Gagnrýnendur sem hafa fjallað um Shut up and play the hits, hafa margir sagt að ekki sé um hefðbundna tónleikamynd að ræða, heldur heimildarmynd um hluti sem taka enda, endalok hljómsveita, verkefna, jafnvel kynslóðar. Það voru ákveðin endalok loftinu í New York þetta vorkvöld í apríl í fyrra. Síðasta kvöldið mitt í New York, síðasta nóttin sem ég gisti á Chelsea Hotel og síðustu tónleikar LCD Soundsystem, ég var þar…
Óli Dóri