Löðrandi kynþokki og listrænn hávaði á Norður og Niður

Mynd: Óli Dóri

Norður og Niður er ný og spennandi hátíð milli jóla og nýárs haldin í kringum fjóra tónleika Sigur Rósar. Hugmyndin var að tón- og aðrir listamenn sem tengjast Sigur Rós vinaböndum, eða í gegnum gagnkvæma aðdáun myndu koma fram og lífga upp á Hörpu í svartasta skammdeginu. Þetta hófst allt á „Gloomy Christmas“, ein hvers konar gjörningi þar sem venjubundnum jólatónleikum var snúið á hvolf. Það komu fram bæði hefðbundnir „jóla“söngvarar eins og Helgi Björns og Sigga Beinteins en líka Alexis Tailor úr Hot Chip og Peaches, og sungu jólalög í einhvers konar hægum moll-jarðarfarar Sigur Rósar útsetningum.

Herlegheitin voru svo í beinni útsendingu í sjónvarpi allra landsmanna og surprise, surprise, féllu ekki sérlega vel í kramið hjá fólki sem hefur gaman að jólatónleikum Björgvins Halldórssonar og Baggalúts. Að mínu mati var þetta oft áhugavert, stundum leiðinlegt, og einstaka sinnum frábært. Laddi stal senunni með „Snjókorn falla“ í dásamlega tragískum flutningi, Katrína Mogensen var frábær og Alexis Tailor var angurvær í „Last Christmas“. „Ég hlakka svo til“ með Svölu var hins vegar bara „langt, dæmalaust langt,“ og tíminn skelfing lengi að líða.

 Úr Elton John ballöðum í vegg af hávaða

Næst sá ég Alexis Tailor úr Hot Chip spila í Kaldalóni þar sem hann var einn með flygil og einstaka sinnum greip hann í gítar eða rafhljóð. Lögin voru að mestu leyti angurværar píanóballöður a la Elton John en hann skellti líka í einstaka Hot Chip lög og gaf þá aðeins í með auka raflhjóðum og töktum. Eftir þetta ljúfmeti þá var það harkan sex sem tók við með Blanck Mass í Silfurbergi. Það er sólóverkefni annars meðlims noise-sveitarinnar Fuck Buttons sem er eiginlega bara meira af því sem gerir þá sveit frábæra, meiri hávaði og meiri melódía.

Það er einhvers konar hljóðveggur á þykkt við kínamúrinn og hæð Hallgrímskirkju sem hrynur yfir mann á tónleikum Blank Mass. Hvert einasta tíðnisvið er fullhlaðið af hljóðum og óhljóðum, stundum var samplaður ópersöngur sem vofði yfir öllu, og stundum söng hann sjálfur í gegnum eitthvað apparat þannig það hljómaði eins og satan sjálfur væri að messa yfir þér. Þarna var fullkominn samruni hávaða og melódíu og djöflamessu. Ég stóð bara dáleiddur og gapti og tók þetta inn um öll vit.

 Dúndrandi danstónlist og magnarastæður

GusGus eru áreiðanlegasta vélin í íslenskri danstónlist og Biggi Veira og Daníel Ágúst höktu ekki hætishót þetta kvöld í Silfurbergi sem er salur sem þeir kunna mjög vel á. Þeir tóku nokkur ný lög sem hljómuðu mjög vel og í síðasta laginu „Deep Inside“ fór Biggi hamförum í tvíkuðum synþum og massívum uppbyggingum. Kevin Shields er hins vegar mikil goðsögn úr hávaðarokksveitinni My Bloody Valentine og var næstur á svið. Hann kom fram einn ásamt trommara og magnarastæðum sem þöktu megnið af sviðinu. Kannski var það að ég er ekki mjög kunnugur MBV eða þessari senu en hann náði ekki að heilla mig, mér fannst þetta eitthvað andlaus hávaði og oft var hann eitthvað pirraður yfir hljóðinu.

Löðrandi listrænn kynþokki 

Bandaríski rafgeggjarinn Dan Deacon hélt heilum Silfurbergssal í heljargreipum á tónleikum sínum á föstudagskvöldinu. Ekki bara með sturlaðri tónlista heldur líka danskeppnum og alls konar leikjum, og hann kom að sjálfsögðu fram á gólfinu meðal áhorfenda, ekki upp á sviðinu. Hér er kannski vert að minnast á að Harpa var fallega skreytt og alls konar innsetningar og gjörningar settu svip sinn á húsið og veittu því hátíðarblæ, ekki bara tónlistarlegan.

Og það komu svo sannarlega fleiri listgreinar en tónlist við sögu á tónleikum Peaches í Norðurljósasalnum á föstudagskvöldinu þar sem listfengi, kynþokki, fegurð og gróteska gengu hönd í hönd í leikhúsi ferskjunnar. Peaches hlýtur að vera orðin hálf fimmtug en það var ekki að sjá á orkunni sem hún bjó yfir þetta kvöld. Það var mikill leikhúsbragur yfir þessu öllu og búningahönnunin frábær þar sem sníphattar og kleópötrukjólar voru eitt af fjölmörgu á massívu hlaðborði sem í boði var. Ég hef ekki fylgst mikið með Peaches undanfarin ár og þekkti ekki mikið af lögunum en það kom bara alls ekki neitt að sök, því að tónlist, dans, búningar og leikmynd komu saman til að mynda einstaka listræna upplifun. Á einum tímapunkti labbaði hún út í áhorfendur og ofan á höndum þeirra með því fyrirheiti að ef hún mynd detta væri sýningin búin. Hún datt ekki. Tveir íslenskir dansarar fóru á kostum og í síðasta laginu Fuck Your Pain Away kom Erna Ómarsdóttir upp á svið og allt leystist upp í löðrandi kynþokka. Eftir Peaches náði ég uppklappinu hjá Mogwai sem ég þekki líitð til en bæði lög voru frábær, sérstaklega hið fyrra sem var yfirfullt af hljóðgervlaarpeggíum og gítarveggjum.

 Hlaðborð fyrir skilningarvitin

Jarvis Cocker fór algjörlega á kostum á laugardagskvöldinu með sólóefni sem ég hafði aldrei heyrt áður og fádæma góðri hljómsveit. Hann er bara svo óendanlega sjarmerandi og svalur, virkaðu mjög drukkinn, en með smekk og stíll í tunnuvís. Ég endaði svo hátíðina á þýska ambíentskóglápslistamanninum Ulrich Schnauss sem bauð upp á mest hugvíkkandi upplifun hátíðarinnar. Fólk ýmist sat eða stóð og drakk í sig dróna, dúndrandi uppbyggingar og undurfallegar myndskreytingar. Heilt yfir var þetta mjög öðruvísi tónlistarhátíð sem bauð upp á drekkfullt hlaðborð fyrir öll skilningarvitin.

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *