Laugardagskvöld á Sónar

Á þriðja degi Sónarsins var ég mættur í Hörpu klukkan 8 að sjá nýstyrnið Karó í Norðurljósasalnum. Hún söng munúðarfullt og nútímalegt R og B ásamt hljómsveit sem innihélt meðal annars Loga Pedro sem pródúserar hana. Næstur á svið í sama sal var svo einn efnilegasti rappari landsins um þessar mundir, GKR. Hann kom fram klæddur í hvítt frá toppi til táar og lék á alls oddi. Hann rappaði af lífs og sálarkröftum og hoppaði og skoppaði fram og til baka um allt sviðið. Það er ekki vottur af tilgerð í honum og einlægnin og gleðin yfir því að vera á sviðinu þetta kvöld skein úr hverju orði og hreyfingu.

 

Ég hélt mig á sama stað en Sturla Atlas var næstur á svið og þá var aldeilis búið að fjölga í salnum og æskan söng hástöfum með 101 Boys og San Fransisco. Ég náði nokkrum mínútum af settinu hans B-Ruff á Sonarpub sem spilaði hip hop skona raftónlist þar sem rímix af Dead Prez gladdi mig mikið.

 

Hudson droppar

 

Ofurpródúserinn Hudson Mohawke var næstur í Silfurbergi og maxímalista trap-tónlistin hans fékk allan salinn á hreyfingu. Það voru bassadrop, massív ljós og taumlaus gleði. Koreless spilaði tilraunakennda raftónlist sem ég kann ekki að skilgreina í Kaldalóni en hún var tilkomumikil engu að síður.

 

Ég náði nokkrum lögum af settinu hjá Boys Noiz í Silfurbergi sem spilaði gróft elektró sem tók mig aftur til ársins 2007 þegar Justice og svipaðar sveitir voru upp á sitt besta. Upphrópunarmerkin þrjú lokuðu svo kvöldinu með fönkaðri og grúví danstónlist sem fór beint í útlimina.

 

Sérstaða Sónar

 

Fjórða Sónarhátíðin fór einstaklega vel fram og það er mikið gleðiefni fyrir unnendur framsækinnar tónlistar að hún hafi náð að festa sig í sessi í íslensku tópnlistarlífi. Þar sem áður var bara Iceland Airwaves höfum við nú fjórar stórar alþjóðlegar hátíðir á tónlistarárinu sem eru allar ólíkar í fókus og umgjörð. Sónar hefur þar algjöra sem felst í fókus á raftónlist/hiphop, frábæru hljóð og einstökum metnaði í sjónrænni umgjörð tónleika. Á engri íslenskri hátíð hef ég séð jafn flott ljós og vídjóverk og á Sónar, og allir tónleikarnir eru í Hörpu sem er langsamlega besta hús landsins þegar kemur að hljóði. Takk fyrir mig.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *