Fyrsti í Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Byrjaði kvöldið á lokatónum hinnar frábæru indí-sveitar Bagdad Brothers á KEXP Off Venue Spectacle á Kex Hostel. Spilamennskan og stemmingin til fyrirmyndar og stórgott að hefja Iceland Airwaves á jafn skemmtilegu og léttleikandi bandi og bræðrunum þrátt fyrir að ná bara þeirra síðasta lagi. Mun svo sannarlega ná fleirum á Húrra í kvöld. Næst lá leiðin á Kiriyama Family í Gamla Bíó sem spiluðu fagmannlega í þrusugóðu sándi og slógu hvergi feilnótu.

Countess Malaise er kröftugur „performer“ sem á auðvelt með að fá áhorfendur með sér sem hún sýndi með öflugu setti í Silfursalnum. Greyfynjan er með feikna gott flæði og fór með rímur sem fjölluðu um allt frá mótlæti yfir í Kalla kanínu undir taktföstu og drungalegu bíti.


View this post on Instagram

@countessmalaise #icelandairwaves

A post shared by Straumur (@straumurr) on

Það var unun að sjá Auður syngja á íslensku á einkar persónlegum og sterkum tónleikum í Listasafni Reykjavíkur þar sem hann flutti efni af plötunni Afsakanir sem kom út fyrir stuttu. Auðunn var öruggur á sviðinu bakkaður upp af gospel-skotnum bakröddum, grúví bassaleik og hljómborði. Ánægulegt að sjá hann taka í gítarinn í sumum lögum. Kíkti við á Sólveigu Matthildi á Gauknum þar sem hún reiddi fram kuldarokk með áhrifum frá gamalli íslenskri dægurtónlist. 

 

 

 

View this post on Instagram

 

@auduraudur #icelandairwaves A post shared by Straumur (@straumurr) on

 

 

Special-K var án efa einn af hápunktum kvöldsins.  Hún flutti hvern indí-poppslagarann á fætur öðrum í stútfullum sal Iðnó með hljómsveit sem innhélt meðal annars Sóleyju Stefánsdóttur og  Margréti Arnarsdóttur harmonikuleikara. Hún kallaði Daða Freyr á svið í laginu I Thought I’d Be More Famous by Now sem gaf laginu dansvænan blæ. Special-K minnir á nýleg indí-bönd á borð við Frankie Cosmos og Alvvays og ætti hún svo sannarlega að vera orðin þekktari á heimsvísu.

Eftir Special-K hljóp ég aftur á Kexið til að sjá Skáta sem lokuðu dagskrá KEXP. Þetta voru hálfgerðir heimkomutónleikar fyrir þær sakir að gítarleikari hljómsveitarinnar Benedikt Reynisson hefur síðustu ár verið þeim KEXP mönnum innan handar við skipulagningu á dagskrá á Kexinu yfir Airwaves auk þess sem Skátar spiluðu oft á hátíðinni á síðasta áratug. Hljómsveitin með tvo nýja meðlimi innanborðs olli engum vonbrigðum með pönkuðu setti sem minnti á gamla tíma, líkt og maður hefði stigið inn í tímavél til ársins 2005.

 

View this post on Instagram

Skátar #icelandairwaves

A post shared by Straumur (@straumurr) on


asdfhg. spiluðu lágstemmt og drungalegt krúttpopp á fullum Hressingarskála við góðar undirtektir áhorfenda. Allenheimer eða Atli Bollason var næstur á svið en það mátti gletta í hann á bak við tjald sem varpað var á allskyns sýru með hálfgerðum VHS filter. Einkar vel útfærð og sýrð raftónlist hjá Bollasyni. Kláraði svo kvöldið á síðustu lögum Valdimars í Gamla Bíó. Þeirra frábæru lagasmíðum var vel tekið og eiginlega ekki hægt að biðja um betri endir á sterku fyrsta kvöldi Iceland Airwaves í ár.

 

Ólafur Halldór Ólafsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *