Inferno 5: Mynd siggi
Góða kvöldið, gleðilega hátíð, hefst nú dagleg umfjöllun Straums um Iceland Airwaves á því herrans ári 2014. Ég hóf fyrsta kvöldið á árangurslausri tilraun til að sjá Prins Póló off-venue á Loft Hostel. Mannmergðin Á Loft var svo mikil að ég sá hvorki tangur né tetur af prinsinum, en heyrði hins vegar tvö lög af hans nýjustu plötu sem er með betri íslensku útgáfum ársins.
Eftir þessa misheppnuðu byrjun ákvað ég að hefja opinberu dagskránna á atriði sem ég hafði ekkert heyrt um áður, bandaríska raftónlistarmanninum Vox Mood sem spilað á Húrra. Hann sýndi engin merki þess að vera fyrstur á dagskránni og barði takka af miklum móð milli þess sem hann dansaði tryllingslega og headbangaði eins og versti þungarokkari. Tónlistin sem kom úr græjunum bar keim af ýmsum geirum danstónlistar tíunda áratugarins, rave, drum’n’bass og tekknó og kinkaði kolli til sveita á borð við Orbital og Autechre.
Framúrstefnulegt R’n’B
Þá hjólaði ég á harðaspani upp í Gamla Bíó sem hefur verið breytt í fyrirtaks venue, einhvers staðar mitt á milli Iðnó og Nasa í stemmningu og stærð. Ég rétt svo náði tveimur lögum með Júníusi Meyvatn sem spilar vandað og áferðarfallegt indípopp í ætt við Ásgeir Trausta. Þvínæst var leiðinni haldið í Silfurbergsal Hörpu þar sem Mr. Silla var í miðju setti. Hún er með betri röddum landsins og hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina en það sem hún hefur spilað undanfarið er í áttina að Trip Hoppi og fútúrísku r’n’b ala Jannelle Monet. Ég náði bara þremur lögum en þau lofuðu mjög góðu.
Óður til æðri meðvitundar
Greinarhöfundur hefur mætt á hverja einustu Airwaves hátíð síðan 2002 en það sem ég sá næst er það allra skrýtnasta sem ég hef orðið vitni að á hátíðinni. Inferno 5 í Kaldalóni var hugvíkkandi óður til æðra stigs meðvitundar. Upplifuninni er ekki hægt að lýsa í orðum með góðu móti, en ég skal gefa ykkur nokkur: Trommuskúlptúr, hauskúpur, hempuklæddur maður með lambúshettu og bongótrommur, Ljóð, diskókúla, pípuorgel, dansari í hvítum samfestingi, upptalning á eiturlyfjum kyrjuð eins og mantra, plötuspilari, sálmabók, vélmennaraddir, hljóðfæri sem ég hef aldrei séð áður og miklu meira til. Þetta var jöfnum höndum trúarathöfn, tónleikar og gjörningur og Upplifun með stóru U-i á alla mögulega kanta.
ROKK í caps lock
Eftir smástund til að jafna mig fór ég svo á Pink Street Boys á Húrra sem eru harðasta, fastasta og skítugasta rokkband landsins um þessar mundir. Þeir eru eins og litli ljóti bróðir Singapore Sling, óþekkir, óheflaðir og ROKK í caps lock. En hljóðstyrkurinn er slíkur að ég höndla þá bara í smáum skömmtum og skaust yfir á Sin Fang í Silfurbergi. Hann er búinn að mastera nýja tónleikaprógrammið sitt þar sem hann er einn með tveimur trommuleikurum að spila græjumúsík og sándið í Silfurbergi verðlaunaði honum ríkulega.
Ég endaði svo kvöldið með FM Belfast í Gamla Bíói sem diskódönsuðu inn í nóttina og köstuðu klósettrúllum í áhorfendur (sem kunnu afar vel að meta það). Fyrsta kvöldi af fimm er nú lokið með góðum árangri en fylgist vel með daglegum fréttum af hátíðinni á straum.is og njótið off-venue dagskrárinnar okkar í Bíó Paradís og mætið á föstudagskvöldið á Gaukinn.
Davíð Roach Gunnarsson