Úr ómáluðum bílskúr í Chicago borg kemur hljómsveitin Twin Peaks sem inniheldur fjóra spólgraða „dropout“ pönkara á unglingsaldri. Þeir Cadien, Clay, Connor og Jack gáfu sjálfstætt út frumburð sinn Sunken í fyrra en útgáfufyrirtækið Autumn Tone hefur tekið Twin Peaks að sér og gefa plötuna út að nýju þann 9. júlí.
Twin Peaks fæst við draumkennt Lo-fi rokk sem hljómar svolítið eins og blanda af Beach House og Buzzcocks. Nýlega sendi hljómsveitin frá sér lagið „Irene“ og myndbönd við lögin „Fast Eddie“ og „Stand In The Sand“ sem öll verða að finna á væntanlegri plötu. Þó svo drengirnir séu ekki nógu gamlir til að koma fram á skemmtistöðum hefur hljómsveitin verið iðin við kolann jafnt á smáum hverfisbörum sem og stórum tónlistarhátíðum þar sem sagt hefur verið að þeir slái út stórum nöfnum með frammistöðu sinni.
Meðlimir Twin Peaks segja að lögin sín fjalli um sætar stelpur, drykkju, dóp og reykingar. Þeir standa vörð um ungdóminn, forðast kjaftæði og gefa út ferska tónlist beint úr bílskúrnum.