Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *