Pönksveitin Morðingjarnir gefur út sína fjórðu breiðskífu á morgun, miðvikudaginn 15. júní, og ber hún nafnið Loftsteinn en fyrr í dag sendi sveitin frá sér lagið Djamma af plötunni, en það fjallar um hvernig hægt er að flýja raunveruleikann með með því að missa sig í skemmtanalífinu.
Platan er sú fyrsta frá sveitinni síðan árið 2009 og verður eingöngu fáanleg stafrænt — í formi streymis — án endurgjalds.
„Við höfum einfaldlega ekki pláss í kompum og á háaloftum fyrir óselda geisladiska.“
Loftsteinn hefur verið lengi að líta dagsins ljós en upptökur hófust í árslok 2012. Nokkur lög af plötunni hafa hljómað í útvarpi, þá helst lagið Milli svefns og vöku, sem sat lengi á Pepsi Max–lista X977 yfir vinsælustu lögin.
„Platan var tilbúin, mixuð og masteruð fyrir meira en tveimur árum. Svo komu tafir og rugl og á endanum lagðist hljómsveitin í dvala. Það var því enginn tilgangur með því að gefa þetta út á meðan við vorum ekkert að spila. En núna erum við að gíra okkur upp í eitthvað glens og þá er um að gera að henda þessu bara út.“
Morðingjarnir hafa engin áform um tónleikaferðalög í kjölfar útgáfunnar en þó stendur til að fagna plötunni með einhverjum hætti.
„Okkur langar að halda útgáfutónleika. Við höfum ekki spilað saman í meira en eitt og hálft ár. En fyrst þurfum við að dusta af okkur rykið og læra lögin upp á nýtt.“
Platan verður gerð aðgengileg á vefsvæði Morðingjanna á SoundCloud.com — á slaginu 11:00.